Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:32:00 (1563)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að leggja þetta fram sem sjálfstætt frv. en ekki sem hluta af frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum en það frv. liggur hér fyrir eins og kunnugt er og þar er gert ráð fyrir því að breyta einum 10--15 lagabálkum um óskyld efni, m.a. grunnskólalögum og lögum um almannatryggingar. Í sjálfu sér eru ekkert meiri rök fyrir ýmsum lagaákvæðum eða frumvarpsákvæðum þar heldur en væru fyrir þessu frv. Þar er gert ráð fyrir því, sem kallað er á venjulegu máli lagafúsk, í því frv. eins og það lítur út og ég tel ástæðu til þess að færa heilbrrn. sérstakar þakkir fyrir það að flytja þetta frv. hér um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum ekki sem hluta af frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem kallað er í daglegu tali bandormurinn.
    Ég tók eftir því að hæstv. heilbrrh. fullyrti að um þetta mál væri samstaða í lífeyrissjóðunum og ég vil aðeins inna hann eftir því hvort haldinn hefur verið sérstakur samráðsfundur um þetta mál með forustumönnum Sambands almennra lífeyrissjóða og Alþýðusambands Íslands sérstaklega. Frv. gerir ráð fyrir því að greiðslur lífeyrissjóðanna, samkvæmt I. kafla laganna, hækki nokkuð, eða úr 181 millj. kr. í 225 millj. kr. eða um 44 millj. kr., en á móti er gert ráð fyrir því að greiðslur lífeyrissjóðanna samkvæmt II. kafla falli í raun niður. Það verður því nokkur breyting á aðferðum þeirra við að greiða fjármuni inn í þetta kerfi en mér sýnist að nettótalan hjá lífeyrissjóðunum sé í raun og veru óbreytt.
    Í annan stað er hér gert ráð fyrir því að framlög Atvinnuleysistryggingasjóðs inn í þetta kerfi breytist úr 366 millj. á þessu ári í 327 millj. skv. I. kafla laganna um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum. Hins vegar breytast þau úr 26 millj. í 28 millj. að því er varðar II. kafla laganna um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum. Þar er í raun og veru ekki um mjög mikla breytingu að ræða, má segja mjög óverulega breytingu. Hins vegar er nokkur breyting að því er varðar ríkissjóð. Hlutur hans lækkar um 13 millj. samkvæmt I. kafla laganna en hækkar aftur um talsvert hærri upphæð, eða um 23 millj., samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir um breytingu á II. kafla laganna, ef ég les þetta rétt, sem mér sýnist að þýði í grófum dráttum að hér sé um að ræða nokkra breytingu á greiðslubyrði ríkissjóðs frá því sem verið hefði að óbreyttu, líklega á bilinu 10, 15--25 millj. kr. þegar báðir kaflarnir eru lagðir saman. Enda segir það sig sjálft að um leið og létt er af öðrum aðilum þá hlýtur það að koma einhvers staðar niður.
    Ég vil líka vekja athygli hæstv. heilbrrh. á því, sem kemur fram í grg. frv. að mig minnir, að 36% af iðgjaldatekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi farið inn í þetta kerfi á árinu 1991. Ég man ekki betur en ég rækist á þessa tölu einhvers staðar, um 1 / 3 af iðgjaldatekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er nokkuð mikið. Ég bendi á að í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir því að lækka mjög verulega framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs á sama tíma og það liggur fyrir samkvæmt opinberum spám að hér verði um að ræða mjög aukið atvinnuleysi á næsta ári frá því sem er á þessu ári. Þar eru menn að tala um jafnvel þriðjungs aukningu. Ég vil inna hæstv. heilbrrh. eftir því hvort hann óttist ekki að Atvinnuleysistryggingasjóður muni eiga erfitt með að standa undir þessum lögbundnu skyldum sem gert er ráð fyrir í þessu frv. til viðbótar við stóraukið atvinnuleysi og takandi tillit til þess að gert er ráð fyrir því að minnka mjög verulega framlög til sjóðsins á árinu 1992.
    Að öðru leyti get ég efnislega tekið undir það sem hæstv. heilbrrh. sagði um málið og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það fái hér vandaða en þó skjóta meðferð í þinginu, þannig að frv. nái að afgreiðast hið fyrsta. Mig minnir að málið liggi þannig að það þurfi að afgreiða fyrir áramót ef kerfið á að geta haldið áfram og það er auðvitað sjálfsagt að mínu mati að hv. heilbr.- og trn. reyni að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að greiða fyrir málinu.
    Hún er nokkuð athyglisverð, virðulegi forseti, sú umsögn sem fylgir þessu frv. frá fjmrn. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að láta prenta hana með frv. en í umsögn fjmrn., fjárlagskrifstofu, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Greinargerð frumvarps fylgir nákvæm kostnaðargreining af hálfu höfunda sem fjmrn. sér ekki ástæðu til að gera athugasemdir við. Bent skal á að í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 er ætlað að verja 137 millj. kr. til Eftirlaunasjóðs aldraðra sem er 7 millj. kr. hærra en grg. þessa frv. gerir ráð fyrir að muni þurfa á því ári. Fjárhagsáætlun Atvinnuleysistryggingasjóðs gerir ráð fyrir 400 millj. kr. greiðslu frá Atvinnuleysistryggingasjóði til Eftirlaunasjóðs aldraðra, en grg. frv. þessa metur þessa fjárþörf á 355 millj. kr., þ.e. 45 millj. kr. lægri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.``
    Það sem mér þykir í raun og veru athyglisvert við þetta er að það munar hér, annars vegar á fjárhagsáætlun Atvinnuleysistryggingasjóðs og hins vegar fjmrn. litlum 50 millj. kr. og það er nú þó nokkuð stór tala þegar menn eru að velta fyrir sér upphæðum sem eru á bilinu 350--400 millj. kr. Ég vil því vekja athygli á þessu og auðvitað hljótum við að skoða af hverju þetta mismunandi mat stafar þegar málið kemur til nefndar, virðulegi forseti.