Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:39:00 (1564)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Umrætt frv. er samið í samráði við samkomulagssjóðina svonefndu og mér er ekki kunnugt um annað en að forsvarsmenn þeirra styðji frv. eins og frá því er gengið. Ég hef ekki haldið sérstakan fund með þeim en ég hef rætt þetta mál við forseta Alþýðusambands Íslands og hann hefur óskað eftir því að frv. verði flutt í þeirri mynd sem það kom frá nefndinni sem frv. samdi og það hefur nú verið gert
    Í öðru lagi um fjárhagsstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Auðvitað hef ég áhyggjur af því ef atvinnuleysi á næsta ári verður meira heldur en var á þessu ári, eins og má segja að ástæða sé til að óttast, en það eru auðvitað lögin sjálf um atvinnuleysistryggingar og greiðslur þeirra sem taka af öll tvímæli í þeim efnum. Áætlanir fjárlaga um slík lögbundin framlög eru aldrei annað en áætlanir. Menn þurfa að breyta lögum til þess að breyta innihaldi þeirrar ábyrgðar sem veitt er lögum samkvæmt. En það er alveg ljóst að verði þörf á því að greitt verði meira fé á næsta ári vegna atvinnuleysisbóta í óbreyttu kerfi heldur en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir þá verður það að sjálfsögðu gert.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að nokkur munur er á áætlun vegna útgjalda þessa frv., annars vegar eins og frá henni er gengið í fjárlögum og hins vegar eins og nefndin sem frv. gerði áætlaði útgjöldin. Ég hef ekki farið þess á leit að áætlunin eins og hún kemur frá nefndinni verði samræmd útgjaldaáætluninni eins og hún var í frv. Ástæðan er mjög einföld. Hún er sú að ég fékk athugasemd frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. fyrir skemmstu. Ég tók þá ákvörðun að láta hana ganga óbreytta eins og hún kom fram til Alþingis sem fylgiskjal með frv. þannig að nefndin sem við málinu tekur geti sjálf metið og komist að sameiginlegri niðurstöðu um kostnaðarmat á því. Sú niðurstaða verður að sjálfsögðu skoðuð í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv. og ég vænti þess og vona það og tel fulla ástæðu til þess að hún ætti að liggja fyrir áður en frá endanlegri fjárlagaafgreiðslu verður gengið.
    Ég vil svo þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir hans við meginefni frv.