Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:45:00 (1566)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi, um fyrsta atriðið er um að ræða nokkurn misskilning því eins og fram kemur í fskj. frá fjmrn. gerir nefndin sem samdi þetta frv. ráð fyrir minni greiðsluþörf. Fjárhagsáætlun Atvinnuleysistryggingasjóðs gerir ráð fyrir 400 millj. kr. greiðslu frá Atvinnuleysistryggingasjóði til Eftirlaunasjóðs aldraðra en grg. þessa frv. metur þessa fjárþörf á 355 millj. kr. sem er 45 millj. kr. lægri upphæð en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þannig að ef mat þeirra sem sömdu frv. þetta er rétt þá ætti það að lækka greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þessara mála um 45 millj. frá því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Það er með öðrum orðum um að ræða lækkun en ekki hækkun eins og mér fannst hv. þm. misskilja þetta. Það er um að ræða lækkun á framlagi úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þessara mála frá frumvarpstölunni en ekki hækkun. Þannig vil ég leiðrétta þann misskilning sem mér fannst koma fram í máli fyrrv. ráðherra.
    Hitt er svo auðvitað öllum þingmönnum fullljóst að greiðslum úr ríkissjóði vegna réttinda, sem bundin eru með sérstökum lögum, verður ekki breytt nema með því að breyta lögunum eða framkvæmd þeirra. Fyrir liggur yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að breyta lögum um atvinnuleysistryggingar þannig að dregið verði úr greiðsluþörf ríkissjóðs þeirra vegna. En sú breyting getur ekki orðið nema Alþingi samþykki lög þar um. Í óbreyttu kerfi, eins og ég talaði um áðan, verður greiðslum því ekki breytt. Þá stendur auðvitað sá réttur sem lögin ákvarða fyrir hvern og einn og greiðslur úr ríkissjóði miðast að sjálfsögðu við það en ekki áætlunartölur í fjárlögum. Þetta eru ekki nein ný sannindi fyrir þingmenn. Menn vita ósköp vel að þetta er svona en í grg. fjárlagafrv. kemur glögglega fram að það er áform ríkisstjórnarinnar að breyta greiðsluþörf úr ríkissjóði, ekki með ákvörðunum í fjárlögum einum saman, heldur með breytingum á lögum og framkvæmd á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði.