Eftirlaun til aldraðra

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:50:00 (1568)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegur forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að ætlast til þess af mönnum sem nota þingtíma sinn fyrst og fremst til að tala um þingsköp og utan dagskrár að þeir hafi mikinn tíma aflögu til þess að kynna sér áform sem fram eru sett í greinargerð með fjárlagafrv. sem lagt var fram sem fyrsta þingmál á þessu þingi. Hv. þm. hefði getað gengið úr skugga um það mjög einfaldlega með því að skoða greinargerð fjárlagafrv. hvaða stefna þar er mörkuð. Það hefur ekki verið neitt launungarmál að með því að skerða greiðslur úr ríkissjóði til Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa menn í huga að breyta lögum um sjóðinn, það er ekkert launungarmál. En hv. þm. sem nota sinn vinnutíma hér á Alþingi fyrst og fremst til þess að ræða um þingsköp og utan dagskrár, það er náttúrlega ekki eðlilegt að gera þá kröfu til þeirra að þeir kynni sér til hlítar öll þau gögn sem fram kunna að vera lögð.