Stjórnarráð Íslands

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 15:43:00 (1585)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Á síðustu tveimur árum var lögð veruleg vinna í að reyna að ná breiðri samstöðu um að breyta skipulagi Stjórnarráðs Íslands. Innan síðustu ríkisstjórnar var starfað vel og lengi að þessum málum og í umræðum milli stjórnar og þáv. stjórnarandstöðu var sú spurning iðulega tekin á dagskrá hvort hægt væri að ná breiðri samstöðu um það að gera Stjórnarráð Íslands skilvirkara og að ýmsu leyti nútímalegra með fækkun ráðuneyta og samruna.
    Án þess að ég ætli að rifja þá sögu upp er hins vegar nauðsynlegt að hæstv. forsrh. viti það að Sjálfstfl., sem þá var í stjórnarandstöðu, var mjög þver í öllu því starfi, stundaði hvað eftir annað alls konar málþóf og var með hótanir um að koma í veg fyrir

afgreiðslu mála, fór hér upp um þingsköp og hagaði sér á þann hátt sem núv. hæstv. forsrh. hefur kennt við ákveðið stig skólakerfisins og hefur núna fengið mótmæli frá einum ágætum skóla í borginni fyrir þá samlíkingu. En það var alveg greinilegt að Sjálfstfl., þegar hann var hér í stjórnarandstöðu, hafði engan áhuga því að taka þátt í faglegri og eðlilegri vinnu um að endurskipuleggja Stjórnarráð Íslands. Því miður. Það væri hægt að segja núv. hæstv. forsrh. langar sögur af því hvernig Sjálfstfl. hagaði sér í því máli hér í þinginu, í þingsölum, í þingnefndum og á samningafundum forseta þingsins og formanna þingflokkanna. Nú hefur það hins vegar gerst að hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl., kemur inn í þingið með frv. um breytingu á Stjórnarráði Íslands sem á engan hátt er í samræmi við það viðamikla verkefni sem menn ætluðu sér að fara í og liggur þess vegna beint við að spyrja í upphafi: Hefur núv. hæstv. forsrh. gefist upp við það verkefni sem er brýnt og nauðsynlegt að endurskipuleggja Stjórnarráð Íslands, gera það hagkvæmara og skilvirkara? Ég tel það mjög vont ef hæstv. forsrh. hefur gefist upp við það verkefni en það mátti skilja á framsöguræðu hans og flutning þessa frv. sem óbeina viðurkenningu á því að svo sé.
    Ég vil því í upphafi þessarar umræðu inna hæstv. forsrh. eftir því hvort þetta er réttur skilningur. Ef hann hins vegar ætlar sér að vinna að þessu verki þá vil ég spyrjast fyrir um hvar það sé á vegi statt og hvort hann ætlar sér að láta það vera bara verkefni Alþfl. og Sjálfstfl. hvernig Stjórnarráðið verður endurskipulagt eða hvort hann ætlar sér að leita eftir samstöðu fleiri flokka um það. Ég tel æskilegt að það náist breið samstaða flokka um það hvernig Stjórnarráðið sé skipulagt, hvaða ráðuneyti séu og hvaða verkefni heyri undir þau. Það er mjög óheppilegt að það sé verið að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands til að þjónusta metnað einstakra ráðherra og pólitíska hagsmuni þeirra.
    Ég vil endurtaka það sem ég sagði hér, hæstv. forsrh., vegna þess að virðulegur iðnrh. var að trufla hæstv. forsrh., að það er mjög hæpið að fara að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands til þess eingöngu að þjóna ákveðnum persónulegum metnaði einstakra ráðherra. Því miður er það þannig að það er margt sem bendir til þess að það frv. sem hæstv. forsrh. var að mæla fyrir sé eingöngu flutt til þess að þjóna metnaði og pólitískum óskum núv. hæstv. iðn.- og viðskrh. Jóns Sigurðssonar. Ég vil segja í mikilli vinsemd við virðulegan forsrh.: Lögin um Stjórnarráð Íslands eiga ekki að vera leikfang í slíkum efnum. Þar er farið inn á mjög hættulega braut. Þess vegna finnst mér að mörgu leyti mjög óeðlilegt að fara að taka þetta eina mál út úr endurskipulagningu Stjórnarráðsins og óska eftir því að það sé afgreitt fyrir jól. Ég sé satt að segja enga þörf á því að það mál sé afgreitt hér fyrir jól og ég tel að það séu sterk efnisleg rök fyrir því að rangt sé út frá faglegum og efnislegum sjónarmiðum að breyta lögunum um Stjórnarráð Íslands með þessum hætti.
    Nú er það að vísu rétt að innan síðustu ríkisstjórnar voru menn að reyna að nálgast hver annan í þessum efnum og eins og gengur og gerist í ríkisstjórnum blönduðust þar saman ákveðin fagleg sjónarmið og stjórnsýsluleg sjónarmið og hins vegar vilji og metnaður einstakra ráðherra, sérstaklega þeirra sem sátu í tilteknum ráðuneytum og vildu gæta valdahagsmuna sinna í þessu máli. Ég vil þó benda hæstv. forsrh. á að fjmrn., ekki bara ég sem fjmrh., heldur fjmrn. sem stofnun, sendi frá sér skriflegar athugasemdir og mótmæli við því að lögunum um Stjórnarráð Íslands væri breytt með þeim hætti sem hér er lagt til. Og það er alveg nauðsynlegt að um það sé fjallað við 1. umr. þessa máls og við fáum röksemdir og skýringar hæstv. forsrh. á því hvað honum finnst um þann málflutning vegna þess að ég reikna með því að hæstv. forsrh. hafi kynnt sér hann.
    Hér er verið að leggja til að eitt af atvinnuvegaráðuneytunum, iðnrn., sé sameinað því ráðuneyti sem aðallega hefur sem verkefni málefni íslensku krónunnar, gengismál, gjaldeyrismál, Seðlabanka Íslands, bankamál og annað.

    Ég vil hér taka eitt lítið dæmi. Fyndist mönnum eðlilegt að sjútvrn. færi jafnframt með gengismálin og málefni Seðlabanka Íslands? Ég hugsa að nær allir þingmenn mundu segja nei við því. Svo augljóst er það öllum að þar rekast á hagsmunir þannig að ógerlegt er að sameina í einu ráðuneyti málefni sjávarútvegs annars vegar og kröfur hans um gengisbreytingar, peningamál, vaxtamál og hins vegar ábyrgð innan Stjórnarráðsins á gjaldeyrismálum, Seðlabanka Íslands, bankamálum og öðrum almennum þáttum efnahagsmála. Hér er hins vegar verið að leggja það til að iðnrn., atvinnuvegaráðuneyti sem líka hefur mikilla hagsmuna að gæta í gengismálum, vaxtamálum og peningamálum, sé sameinað viðskrn. þannig að á einum stað, við eitt og hið sama borð, eigi menn að gæta hagsmuna iðnaðarins í gengismálum, peningamálum og vaxtamálum og öðrum almennum hagsmunamálum hans og hins vegar tryggja að almenn sjónarmið þessara þátta fái að ríkja.
    Ég vil t.d. spyrja virðulegan forsrh.: Eru nokkur dæmi þess að seðlabanki og gengisskráning heyri í nágrannalöndum okkar undir atvinnuvegaráðuneyti? Ég hef ekki farið yfir það mjög nákvæmlega en það væri mjög fróðlegt að fá það upplýst og með hvaða hætti það er.
    Í okkar stjórnkerfi held ég að flestir hljóti að sjá við nánari athugun að það er að bjóða heim margvíslegum vandamálum að ætla sér að koma á þeirri skipan að embættismenn og ráðherra eigi í senn að gæta hagsmuna eins af grundvallaratvinnuvegum landsmanna, iðnaðarins, sem er með sterkar kröfur í gengismálum eins og menn vita og svo hins vegar þeirra mála sem hafa heyrt undir viðskrn. Vissulega hefur það komið oft fyrir að sami ráðherrann hefur farið með þessi tvö ráðuneyti en þó hafa oft tveir ráðherrar farið með þessi ráðuneyti. En það er auðvitað verulegur munur á því hvort svo æxlast í þessari ríkisstjórn eða hinni, eða hvort embættiskerfið, hin faglega vinna og málefnaundirbúningur, sé á einum stað hvað þetta snertir.
    Í greinargerð fjmrn. við endurskoðun laganna um Stjórnarráð Íslands var sett fram það sjónarmið að eðlilegast væri að Seðlabanki Íslands heyrði undir fjmrn. og einnig væri það eðlilegt að samskipti Íslands við alþjóðleg efnahagssamtök og fjármálastofnanir eins og t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD og aðrar slíkar stofnanir, heyrðu frekar undir fjmrn. heldur en viðskrn. Enn frekar verður þetta hvort tveggja eðlilegt, að það heyri frekar undir fjmrn., ef steypa á því saman við eitt af atvinnuvegaráðuneytunum, þ.e. iðnrn. Hvað eftir annað kom það t.d. fram þegar ég var fjmrh. að þeir fulltrúar erlendra fjármálastofnana og alþjóðlegra efnahagssamtaka sem Ísland er aðili að, sem hingað komu í heimsóknir, fannst það undarlegt að fjmrn. væri ekki sá aðili á Íslandi sem annaðist samskipti við þessar alþjóðlegu efnahagsstofnanir eða við Seðlabanka Íslands. Og það kom þó nokkuð oft fyrir að það var nokkuð snúið fyrir fjmrn. að geta ekki verið sá formlegi aðili sem þetta ætti að annast.
    Ég vil líka vekja athygli á því að viðskrn. er sá vettvangur Stjórnarráðsins sem ætlað er að hafa samskipti við viðskiptabanka, við Seðlabanka um framkvæmd vaxtastefnunar í landinu Við höfum heyrt það hvað eftir annað síðustu vikur og mánuði að fulltrúar atvinnulífsins, þar með talið iðnaðarins, gera mjög harðar kröfur um vaxtalækkanir og telja að tilvist fjölmargra iðnaðarfyrirtækja sé ógnað ef ekki verður knúin fram breyting á vaxtastefnunni í landinu. Það er ekki heppilegt að embættismenn sama ráðuneytisins verði settir í þá stöðu að eiga annars vegar að þjóna kröfum iðnaðarins eða glíma við þær, skulum við segja, kröfur iðnaðarins um gengisfellingu, breytta gengisskráningu, um breytta vaxtastefnu, um aðhald gagnvart viðskiptabönkunum og svo hins vegar móta viðhorf sín af hinni almennu stefnu í efnahagsmálum sem viðskrn. hefur gert til þessa.
    Ég sé satt að segja ekki, virðulegi hæstv. forsrh., nein efnisrök fyrir því að vera að rjúka til á þremur vikum, eins og hæstv. ráðherra óskaði eftir, að fá málið afgreitt fyrir jól,

eða tveimur --- það fer kannski eftir því hvað við sitjum hér lengi, kannski eru það bara tvær vikur, það er rétt, tíminn líður fljótt, mikið eftir á stóru heimili --- að við förum á tveimur vikum að samþykkja að festa þetta svona í sessi eins og hér er lagt til. Ég verð að segja fyrir mitt leyti t.d. að ég hef það alvarlegar athugasemdir við að gera þetta svona að ég tel að það þurfi miklu vandaðri umfjöllun.
    Ég veit ósköp vel að núv. hæstv. iðnrh. og viðskrh. leggur á þetta ofurkapp. Þetta er persónulegt metnaðarmál fyrir hann. Ég er ekki að segja það í neinni neikvæðri merkingu því að það er ósköp eðlilegt að menn hafi persónulegan metnað. Ég get sagt það t.d. til gamans að hann vildi láta að byrja á því strax snemma á þessu ári að brjóta niður veggi milli ráðuneytanna vegna þess að þetta stæði til en skynsamir embættismenn í fjmrn. töldu að rétt væri að bíða eftir að lagaheimildin fengist. Þannig að það er ljóst að það hefur kannski lengi verið metnaður ráðherrans fyrir því að geta steypt þessu saman. En það eru sterk, fagleg og efnisleg rök fyrir því að vara við að svo sé gert.
    Ég vil líka benda hæstv. forsrh. á það að sú hugmynd hefur komið fram að ef menn ekki vilja samþykkja að Seðlabanki Íslands heyri undir fjmrn., sem þó eru mörg efnisrök fyrir, þá sé eðlilegra að hann heyri undir forsrn. heldur en undir sameinað iðnrn. og viðskrn. Það er hægt að færa fyrir því mörg og ítarleg rök að miðað við samskipti stjórnvalda við Seðlabanka Íslands og miðað við það að forsrh. er ráðherra efnahagsmála samkvæmt öðrum ákvæðum laganna um Stjórnarráð Íslands, þá sé miklu eðlilegra að láta Seðlabankann heyra undir forsrh. heldur en undir iðnrh. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hv. þm. á því að þar sem reglulegum fundartíma er lokið í dag og þingflokksfundir að hefjast, þá mælist hann til þess við hv. þm. að hann geri hlé á máli sínu þar til málið verður tekið á ný á dagskrá.) Já, virðulegi forseti, ég skal gera það. Ég hafði ekki ætlað mér að tala langt mál um þetta frv. en vekja athygli á þessum atriðum sem ég hef komið að, en það eru þó tvö til þrjú atriði sem ég vildi nefna til viðbótar og treysti mér ekki til þess að gera það á örfáum mínútum þannig að ég vil þiggja gott boð forsetans og gera hlé á ræðu minni.