Sjómælingaskipið Baldur

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:04:00 (1601)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Sem svar við fyrstu spurningu er það að segja að mál þetta var fyrst lagt fyrir ríkisstjórn 26. júlí 1988 af þáv. dómsmrh. Jóni Sigurðssyni, þar sem lagt var til að undirbúningur þessa máls yrði hafinn og kostnaður við smíðina yrði greiddur úr Landhelgissjóði. Með bréfi dómsmrn., dags. 16. ágúst 1989, var Landhelgisgæslunni síðan heimilað að leita tilboða hjá innlendum skipasmíðastöðvum í smíði mælinga- og varðskips úr áli sem smíðað yrði fyrir fé Landhelgissjóðs. Ákvörðun þessi var byggð á greinargerð sem lögð var fyrir ríkisstjórn. Að loknu útboði gerði Landhelgisgæslan samning um smíði mælinga- og eftirlitsskips við Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf. Samningurinn var staðfestur af dómsmrn. 28. des. 1989.
    Sem svar við annarri spurningu er þetta að segja að útlitsteikning og útboðslýsing skipsins var gerð af Skipahönnun hf. í Garðabæ í samráði við sjómælinga- og tæknideild Landhelgisgæslunnar. Smíði skipsins var boðin út innan lands og í samráði við dómsmrn. var ákveðið að taka tilboði Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf. um smíði skipsins. Skipasmíðastöðin sá um gerð sérteikninga eins og venja mun vera.
    Sem svar við þriðju spurningu er það að segja að úr Landhelgissjóði hefur verið varið 67,6 millj. kr. á núvirði vegna smíði skipsins og er innifalið í þeirri upphæð verð vélbúnaðar og annarra tækja sem ekki voru upp talin í smíðasamningi.
    Sem svar við fjórðu spurningu er það að segja að rekstrarkostnaður, þar með talin laun vélstjóra, voru 6 millj. kr. á árinu 1991 og 7,7 millj. áætlaður á árinu 1992.
    Þegar skipið er að störfum við sjómælingar eru fimm menn í áhöfn þess. Auk vélstjóra eru það sjómælingamenn og aðrir fastráðnir starfsmenn sjómælinga. Launakostnaður þeirra, annarra en vélstjórans, er ekki talinn með í þeim tölum sem hér hafa verið nefndar þar sem vinna þeirra um borð í mælingaskipi er fastur liður í störfum þeirra. Rekstrarkostnaður mælingaskipsins er innifalinn í þeirri fjárveitingu sem Landhelgisgæslan fær til ráðstöfunar vegna sjómælinga eins og verið hefur áður vegna reksturs mælingabáts.