Takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:28:00 (1611)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að svara fsp. Ég tel svör hans einkar athyglisverð. Það er engin ástæða til þess að grípa til aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þetta segir ráðherrann eftir að hafa athugað málið í um það bil eitt ár í framhaldi af eftirrekstri af minni hálfu með fsp. í desember í fyrra. Hann ætlar bara að bíða eftir því að Sovétríkin leggi upp laupana, svo dæmi sé tekið. Ég veit ekki hvort hann sér einhverja viðlíka þróun hjá hinu stórveldinu, sem hann nefndi svo.
    Ég rek þetta mál sérstaklega út frá þeim lögum sem við höfum sett á Alþingi með staðfestingu Vínarsamningsins um stjórnmálasamband og fullveldisjafnrétti ríkja. Og ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til 11. gr. þess samnings þar sem segir í tölul. 1:
    ,,Þegar ekki er gerður sérstakur samningur um stærð sendiráðs getur móttökuríkið krafist þess að stærð sendiráðs verði sett takmörk er það telur hæfileg og eðlileg með hliðsjón af aðstæðum og ástandi í móttökuríkinu og þörfum hlutaðeigandi sendiráðs.``
    Í inngangi að Vínarsamningnum er sérstaklega vísað til meginreglna sáttmála Sameinuðu þjóðanna um fullveldisjafnrétti ríkja. Það er mín skoðun að það sé með öllu óeðlilegt og óþolandi fyrir sjálfstætt ríki að sendiráð haldi uppi starfsemi í viðkomandi landi sem er í engu samræmi við þá starfsemi sem okkar land heldur uppi og telur þörf á í viðkomandi ríki, að ekki sé talað um aðbúnað diplómata, eins hann hefur t.d. verið í Sovétríkjunum um mjög langt skeið. Það er satt að segja undarlegt og furðulegt ef Ísland telur ekki þörf á því að bregðast við og setja sendiráðum takmörk út frá þessum sjónarmiðum. Og það út af fyrir sig óháð því hvert landið er því auðvitað eiga menn ekkert að vera að mismuna í þeim efnum. Menn hljóta að láta eitt yfir alla ganga út frá mati á íslenskum hagsmunum og alþjóðasamningi.
    Ég tel það sem hér hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh. gagnrýnivert. Ég held að Ísland eigi að meta þessar aðstæður út frá eigin sýn og stöðu og sínum hagsmunum og þeim lögum sem Alþingi hefur sett um þessi efni. Ég tel ekki að þróun í ríkjum í lýðræðisátt, eins og réttilega er talað um varðandi Sovétríkin núverandi eða sálugu, sé engin einhlít trygging fyrir því að þessi mál séu í horfi. Ríki haga sinni starfsemi og rekstri

sinna sendiráða ekkert út frá því hvernig stjórnmálaaðstæður eru í viðkomandi ríki. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er að ljúka máli mínu. Menn þurfa því auðvitað að vera á verði að þessu leyti almennt séð.
    Hæstv. ráðherra gat um fjölda starfsmanna sendiráða. Ég held hann hafi látið vera að tíunda hversu margir Íslendingar eru starfandi í erlendum sendiráðum hér og ég held það sé mælikvarði sem við verðum að taka. 1985 voru 22 Íslendingar í sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík. Hæstv. ráðherra getur kannski bætt því við í sínu svari hvernig þær aðstæður eru því auðvitað er það heildarfjöldi starfsmanna en ekki ríkisfangið sem máli skiptir þegar við erum að líta á þessa hluti. --- Ég þakka, virðulegur forseti, þolinmæðina.