Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 14:50:00 (1635)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Hér hafa farið fram gagnlegar umræður um þetta frv. og ég tel að það sem fram hefur komið m.a. í máli hæstv. menntmrh. hafi orðið til að skýra nokkuð stöðuna í sambandi við það og viðhorf menntmrn. til þessa þáttar fræðslu í landinu. Ef hæstv. menntmrh. er enn í þinghúsi hefði ég gjarnan kosið að hann væri viðstaddur framhald umræðunnar eða hann a.m.k. heyri mitt mál en ég geri ekki kröfu til að hann verði kallaður til fundar nema hann sé nærstaddur. ( Forseti: Hæstv. menntmrh. er í húsinu. Forseti hefur gert ráðstafanir til að gera honum viðvart.) Já, ég þakka fyrir það.

    Áður en hæstv. ráðherra kemur vildi ég víkja að nokkrum atriðum sem ekki kalla út af fyrir sig á nærveru hans en við umræðuna hafa komið fram bæði í máli hæstv. félmrh. og hv. 3. þm. Vestf. sem talaði áðan um rök eða viðleitni til að færa rök fyrir því að yfirstjórn þessara mála að því er snertir afskipti framkvæmdarvaldsins skuli vera í félmrn. Vísað var sérstaklega til ályktunar Alþýðusambands Íslands á árinu 1988 um þetta efni. Vissulega hef ég farið yfir þá ályktun sem er í fskj. með þessu frv. og ætla ekki að lasta að Alþýðusambandið leggi fram sitt sjónarmið, þ.e. þeir sem þar stóðu að máli, en ég vil jafnframt benda á að kannski er ekki alltaf í sambandi við ályktanir stórra félagasamtaka búið að fara yfir málin út frá mörgum sjónarhornum þegar þau eru tekin til meðferðar. Ég vil benda á að Alþýðusambandið og þeir, sem eru innan vébanda þess, eiga mikið undir því komið að fræðslumál í landinu almennt séu í góðu horfi og tengslin í fræðslukerfi landsins séu í þokkalegu horfi. Ég get ekki komið auga á að einhverju sérstöku máli gegni um fræðslustarfsemi sem tengist atvinnulífinu í landinu. Í rauninni tengist öll fræðslustarfsemi og öll þjálfun fólks frá vöggu til grafar þátttöku þess í atvinnulífi meðan það er á vinnumarkaði. Það er, segi ég, úreltur hugsunarháttur að líta svo á að það gegni eitthverju sérstöku máli um fræðslustarfsemi sem tengist þátttöku fólks í atvinnulífi. Þetta er allt nátengt og í rauninni allt saman hið sama sem við erum að ræða. Og þess vegna tel ég að sú viðleitni til rökstuðnings fyrir því að setja þennan þátt mála undir félmrn. sé úrelt hugsun sem við eigum ekki að taka undir hér á Alþingi. Við eigum að forða þeim frá villu síns vegar sem eru að reyna að ýta málinu í þennan farveg. Og af umhyggju fyrir þeim markmiðum sem menn eru að tala fyrir --- því að ég dreg ekki í efa að góður hugur er að baki tillögu um að þarna þurfi að treysta böndin, þarna þurfi að auka við, undir það tek ég heils hugar, það er mikil nauðsyn á því.
    En ég tel mikils virði það sem fram hefur komið frá hæstv. menntmrh. um viðhorf hans til þessa máls. Það segi ég vegna þeirrar stöðu sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson nú gegnir sem hæstv. ráðherra og ég hlýði á mál manna í sambandi við þessi efni sem önnur alveg opnum huga og ég verð að segja það að það gladdi mig verulega að heyra þau sjónarmið sem hæstv. menntmrh. talaði hér fyrir í sambandi við skipan fræðslustarfsemi í landinu almennt. Ég tel að hæstv. menntmrh. sé þar með mjög skynsamlega stefnu og ég er reiðubúinn að reyna að styðja þá stefnu ef það getur orðið til að greiða fyrir að þeirri höfn verði náð sem mér heyrðist hæstv. ráðherra vera að vísa á. Við erum í rauninni að tala um það hvort við eigum að reyna að hlúa að ráðuneyti menntamála sem stjórnstöð fræðslumála í landinu að svo miklu leyti sem opinberir aðilar, framkvæmdarvaldið í Stjórnarráði Íslands, eiga þar að að koma. Það á ekkert skylt við það að við séum að kalla eftir einhverri allsherjarmiðstýringu eða aukinni miðstýringu og að menn séu að skipta sér af hinni frjálsu fræðslustarfsemi í landinu umfram það sem samkomulag er um við þá sem þar eiga hluta að máli. Ég tek alveg skýrt fram að það er ekki mín hugsun, en þeim mun ríkari áhersla er til þess að hafa þau tengsl í lagi þar sem hið opinbera á hlut að máli og auðvitað ber opinberum aðilum að gæta þess að tengls séu samræmd þannig að það fjármagn, sem varið er til þess að miðla fræðslu og að tengja hana við lífið í landinu, sé í sem bestu lagi.
    Ég hafði ekki heyrt það sem hæstv. menntmrh. var að upplýsa varðandi sjónarmið samráðherra hans í ríkisstjórn landsins. Hann var að vitna til orða heilbrrh. ef ég hef numið mál hans rétt sem var að mæla fyrir því að menntun, a.m.k. endurmenntun heilbrigðisstétta í landinu, færðist yfir á svið heilbrrn. Ég fer nú að biðja fyrir okkur í sambandi við þróun fræðslumála í landinu ef þessi stefna ætlar að fara að sækja á eða gerast hávær hjá valdamönnum í landinu. Þar væru menn að stíga stór skref til baka og ég tel mikilsvert að hæstv. menntmrh. hefur einmitt bent á að á sumum sviðum hafa menn verið að átta sig

með því að færa fræðslustarfsemi, sem hefur af sögulegum ástæðum strandað innan einstakra fagráðuneyta, til menntamrn. Það gerist stundum í okkar samfélagi að mál strandar eða er komið fyrir og það þarf ákveðna tregðu til að koma því í rétt tengsl og nútímalegt horf og reiddi hæstv. menntmrh. fram dæmi þess að það hefur tekist. Og í þá átt eigum við að sækja. Þegar sett voru lög um Félagsmálaskóla alþýðu var ég einn af þeim sem studdu tillögu hv. 15. þm. Reykv. um það að auðvitað ætti að koma þeim skóla fyrir í tengslum við ráðuneyti menntamála í landinu og ég fagna því að það viðhorf er uppi hjá hæstv. núv. menntmrh. að það væri skynsamlega ráðið að flytja yfirstjórnina, að svo miklu leyti sem málið kemur Stjórnarráðinu við, til menntmrn.
    Það örlaði á því hjá hv. 11. þm. Reykv. Finni Ingólfssyni í þeirri ræðu sem hann flutti að út af fyrir sig væri það góð hugsun að tengja hina einstöku eftirmenntunarþætti við menntmrn. En ræðumaðurinn var að velta því fyrir sér hvort menntmrn. væri orðið nógu þroskað til að taka við slíkri yfirstjórn. Þarna er komið að gömlu spurningunni um eggið og hænuna. Hvernig haldið þið að miði í því að búa menntmrn. í þann stakk sem við viljum sjá það, sem lifandi öflugt ráðuneyti til að greiða fyrir þróun fræðslustarfsemi í landinu og hlúa að slíkri starfsemi, ef verið er að taka verkefnin frá ráðuneytinu, verkefnin sem tengjast hinu lifandi þjóðlífi, athafnalífinu í landinu, atvinnuvegunum í landinu? Ef það á að vera einhvers staðar úti í bæ í öðrum ráðuneytum og án tengsla við menntmrn. er ekki von á því að tengsl skapist á milli hins lögboðna fræðslustarfs í landinu og atvinnuþróunar og atvinnulífsins. Og ég ítreka það sjónarmið, af því að hæstv. sjútvrh. er viðstaddur umræðuna og í 4. gr. frv., sem við ræðum, er gert ráð fyrir að starfsfræðsla í fiskvinnslu heyri undir sjútvrn. að í öllum bænum færið þetta verkefni, að svo miklu leyti sem það kemur Stjórnarráðinu við, til menntmrn. hið allra fyrsta. Þannig verði tengsl aðalráðuneytis menntamála í landinu við aðaliðnaðinn í landinu, fiskvinnsluna, styrkt. En það er ekki þar með sagt að ekki eigi að vera samband við sjútvrn. á meðan það er við lýði og ég segi, á meðan það er við lýði, hæstv. sjútvrh. Það tengist þeirri hugsun að ég tel að það eigi að vera eitt atvinnumálaráðuneyti í landinu og hluti af ófarnaði okkar á mörgum sviðum í atvinnuþróun í landinu sé vegna þess að hér er úrelt stjórnkerfi. Þáttum sem eiga saman er stíað sundur með uppbyggingu Stjórnarráðsins. Það er ekki bara einhver formalismi að ræða það mál vegna þess að það er svo leiðandi fyrir sýn fólks til mála hvernig höfuðið hagar þessu í stjórnkerfi landsins og þess vegna mundi ég fagna því --- hvaða ríkisstjórn sem hefði um það frumkvæði og helst ætti það að vera þingið sjálft sem mótaði og hefði frumkvæði um að breyta fyrirkomulagi í Stjórnarráði Íslands þannig að við komum skipan yfirstjórnar atvinnumála í það horf sem þyrfti með því að afnema þær girðingar sem nú eru og þá þykku veggi sem koma í veg fyrir eðlilega aðlögun og eðlilega þróun mála í Stjórnarráði Íslands í sambandi við atvinnumálin. Þar með er ekki sagt að menn geti ekki tekið sértækt á málum og það gætu verið fleiri en einn atvinnumálaráðherra, það tek ég skýrt fram. Ég hygg að það hafi orðið niðurstaðan t.d. í Noregi við breytingu innan stjórnarráðsins að menn halda þar uppi ákveðinni greiningu á milli verksviða og vissulega eru menn þar enn með sitt sjávarútvegsráðuneyti ef ég þekki það rétt. Ég hef ekki kynnt mér það alveg hvernig Norðmenn komu við þeirri breytingu sem síðast varð í sambandi við yfirstjórn atvinnumála.
    En aftur til þessa frv. sjálfs sem við erum að ræða. Ég ítreka það sjónarmið, nú eftir allítarlega 1. umr. og margir eiga eflaust eftir að tjá sig á þessum fundi eða hinum næsta um málið áður en það fer til nefndar, að þetta mál þarf að komast til menntmn. þingsins. Menntmn. þingsins þarf nauðsynlega að fjalla um þetta mál og auðvitað væri æskilegt að stefna hæstv. menntmrh. í sambandi við fullorðinsfræðslu lægi hið allra fyrsta fyrir og ég fagna því að ráðherrann ætli að flytja hér frv. um almenna fullorðinsfræðslu þannig að

menn geti litið á þetta í samhengi. Það tel ég vera afar brýnt.
    Það er einn þáttur sem ég nefndi ekki í fyrri ræðu minni, einn fræðsluþáttur sem ég held að þurfi að skoða vel í tengslum við umfjöllun þessara mála. Það er sú starfsemi sem fram fer í fræðslumiðstöð iðnaðarins, sem svo hefur verið kölluð, þ.e. innan Iðntæknistofnunar Íslands. Þar er kannski um að ræða stuðning við námskeiðahald og fræðslu sem tengist meira en flest annað einmitt starfsmenntun í landinu. Þar hefur margt tekist ágætlega undanfarinn áratug í uppbyggingu á þeirri fræðslu sem ég tel að eigi með nákvæmlega sama hætti og ég mæli hér fyrir í sambandi við fiskvinnslumálin sem og aðra starfsmennun að tengjast ráðuneyti menntamála. Og ég vænti þess að á það verði litið við meðferð þessa máls og undirbúning frv. um fullorðinsfræðslu að tryggja að þarna verði um samhent tök að ræða og nauðsynleg samvinna tryggð og þar hef ég síst á móti því að hin einstöku fagráðuneyti, sem við lýði eru hverju sinni, komi að máli. En ég legg ríka áherslu á að þessi málaflokkur á að heyra undir verksvið og starf menntmrn. sem frumkvæðisafls í þessum málum í samvinnu við þá aðila sem leggja því lið hvar sem er. Þar á meðal í sambandi við starfsmenntun þar sem sannarlega skiptir miklu frumkvæði frá aðilum atvinnulífsins hverju sinni.