Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 18:02:00 (1655)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Aðeins örstutt. Ég tel mig hafa komið fram með málefnalegar spurningar til hæstv. forsrh. sem hann sá í sjálfu sér ekki ástæðu til að svara heldur kom með nýjar fullyrðingar um það að ekki hafi verið haldið á málum með réttum hætti og ekki gerðar kröfur til viðkomandi fyrirtækja. Í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs voru margir valinkunnir embættismenn sem reyndu að fara þar eftir almennum reglum við ákvarðanir í þessum málum. Hvort það hefur alltaf tekist skal ég ekki fullyrða en ég er hins vegar viss um að þeir lögðu sig fram um það og það er mikill misskilningur hjá hæstv. forsrh. að kalla þessa lánastarfsemi fjárveitingar. Ég vænti þess að þar hafi verið um mismæli að ræða. Af því að hann svaraði fyrst og fremst með því að hæstv. fyrrv. forsrh. hafi sagt á einhverjum fundi að hann hafi lært töluvert í hagfræði í sinni forsætisráðherratíð þá efast ég ekki um að það sé rétt. Það er nú svo að allir sem vinna ákveðin störf læra af þeim og þroskast með þeim og þannig er a.m.k. um þann sem hér stendur og ég vænti þess að hæstv. núv. forsrh. sé jafnframt þeirrar gerðar að hann læri af reynslunni og taki þeirri

reynslu. En að fyrrv. forsrh. hafi haldið því fram að hann væri besti hagfræðingur landsins, það tel ég að geti ekki staðist, hæstv. forsrh. Hann hefur áreiðanlega sagt að hann hafi lært töluvert af veru sinni í forsrn. En ég tel að hann hafi alls ekki sagt að hann væri besti hagfræðingur landsins. En hitt er svo annað mál að það er út af fyrir sig merkilegt að hæstv. núv. forsrh. skuli hafa svo mikla trú á fyrirrennara sínum að hann kalli hann besta hagfræðing landsins. Og væri þá ekki rétt að kalla hann til ráðslags um þau alvarlegu mál sem nú eru uppi.
    Hæstv. utanrrh. taldi fyrrv. forsrh. góðan rafmagnsverkfræðing, ef ég hef tekið rétt eftir, þegar hann var spurður um það hvort hann væri frjálslyndur í skoðunum. Ég skil satt best að segja ekki ráðherra sem tala ávallt með þessum hætti. Þegar reynt er að tala við þá með málefnalegum hætti, þá koma þeir með einhvern skæting út og suður og maður fer að efast um að þeir taki verkefni sín mjög alvarlega. Ef hæstv. núv forsrh. hefur ákveðið að setja þau orð í stefnuræðu sína að fyrrv. ríkisstjórn hafi ekki vilja virða almennar hagfræðikenningar út frá því að fyrrv. forsrh. hafi sagt að hann hafi lært í forsrn., og jafnframt eins og hann vitnaði til að vestrænar hagfræðikenningar ættu ekki við í einhverju ákveðnu tilviki, þá er það mjög undarlegt svo að ekki sé meira sagt. Auðvitað eiga vestrænar hagfræðikenningar ekki alltaf við í öllum tilvikum í litlu, strjálbýlu landi. Það koma þau tilvik að menn þurfi að leggja hagfræðina til hliðar með mikilli virðingu fyrir þeim fræðum.
    En það skiptir nú ekki skiptir meginmáli hvað menn segja ef marka má orð hæstv. forsrh. því hann hefur líka sagt að það sé rétt að láta verkin tala. Og er rétt er segja að hæstv. fyrrv. ríkisstjórn hafi í verkum sínum komið þannig fram að almennar hagfræðikenningar hafi verið virtar að vettugi? Ég veit ekki hvað ráðherrar Alþfl. í núv. ríkisstjórn segja um það. En ég þarf í sjálfu sér ekkert að spyrja þá um það og þarf ekkert að biðja þá um að svara því að ég veit hverju þeir svara. Ég get ósköp vel skilið að þeir vilji ekki vera að taka þátt í þessari umræðu með þessum hætti, a.m.k. sumir þeirra.
    Ég skal ekki hafa þessa ræðu mína lengri. Ég harma það að hæstv. forsrh. skuli telja mikilvægast að koma hér upp og hreyta í menn með þeim hætti sem hann gerir. Það verður hann að eiga við sjálfan sig. Ég ætla ekki að svara fyrir það nákvæmlega hvað hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur sagt á viðkomandi fundum. Hann mun áreiðanlega svara fyrir það síðar. En aðalatriðið er að það er rangt sem er sagt í stefnukveri núv. ríkisstjórnar að hér hafi verið beitt forsjárhyggju í atvinnumálum um langt skeið, og þá væntanlega jafnframt af sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn hér áður fyrr, og var að heyra á hv. þm. Birni Bjarnasyni að þeir hafi orðið að gera það vegna þess að það hafi gætt svo mikilla áhrifa frá Framsfl. ef ég skildi ræðu hans rétt hér fyrir nokkru síðan. Ég mótmæli þessu harðlega og vænti þess að hæstv. núv forsrh. muni læra nægilega mikið og fá það góða reynslu af veru sinni í forsrn. að hann muni síðar taka þessi orð til baka og viðurkenna að þar hafi a.m.k. eitthvað verið ofmælt.