Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 18:35:00 (1659)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir þingmanna við efni þessa frv. og óskir um skjótan framgang þess miðað við þá aðstöðu sem er í þessu efni. Varðandi fyrirspurn hv. 4. þm. Norðurl. e. um hvort brýna nauðsyn beri til að afgreiða málið áður en til útreiknings samkvæmt gildandi lagaákvæðum kemur síðar í þessum mánuði, þá er það svo að þetta frv. er flutt til þess að með tryggum hætti megi stöðva inngreiðslur um áramótin og að vel athuguðu máli þótti nauðsynlegt að breyta eða koma með viðauka við lögin sem kvæði á um stöðvun inngreiðslna. Fyrir þá sök er mjög brýnt að lögin verði samþykkt hér á þinginu áður en til afgreiðslu málsins kemur í stjórn Verðjöfnunarsjóðs sem jafnan fer fram í þriðju viku hvers mánaðar og fyrir því var ósk mín borin fram um skjótan framgang málsins.
    Hv. þm. innti eftir efnahagsaðgerðum og ráðstöfunum til þess að styrkja stöðu atvinnuveganna. Eins og fram hefur komið í umræðum að undanförnu, bæði hér á Alþingi og í fjölmiðlum, þá er unnið að þeim málum á vettvangi ríkisstjórnar þessa daga. Hér er um að ræða umfangsmikið verkefni. Það tengist ekki einasta vanda atvinnuveganna. Vandi ríkissjóðs og peningamálastefnan almennt er auðvitað hluti af þeim vanda sem á þarf að taka og ekkert af þessu verður frá öðru sundur slitið. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir, eins og kunnugt er, að stefnt sé að því að niðurstaða fáist í þessa umfjöllun fyrir 10. þessa

mánaðar, þannig að ætlunin er að vinna innan ríkisstjórnarinnar hratt og örugglega að niðurstöðum í þessu máli.
    Hv. þm. vék að vanda rækjuiðnaðarins. Hann á sér nokkuð aðrar rætur en vandi annarra greina sjávarútvegsins með því að rækjuiðnaðurinn hefur þurft að sæta sérstöku verðfalli á erlendum mörkuðum. Rækjuframleiðendur hafa nýlokið ráðstefnu um málefni atvinnugreinarinnar. Þeir hafa óskað eftir viðræðum við sjútvrn. sem fram munu fara í næstu viku til þess að skýra betur þá stöðu sem uppi er í atvinnugreininni. En það er rétt hjá hv. þm. að þessi grein sjávarútvegsins á nú við öllu meiri vanda að stríða en aðrar greinar innan sjávarútvegs á Íslandi.
    Þá spurði hv. þm. að því hvort til stæði að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Sú endurskoðun var ákveðin sl. haust og skipuð sérstök nefnd til þess að vinna að því verki undir forustu hagstofustjóra, Hallgríms Snorrasonar. Nefndinni er ætlað að fara yfir gildandi lög og forsendur þeirra og skoða þær tillögur sem fram hafa komið frá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi um breytingar á þessari löggjöf og ég á von á því að skýrsla nefndarinnar liggi fyrir innan ekki langs tíma. Það var sérstaklega óskað eftir því að hún hraðaði störfum sínum að þessu leyti.
    Hv. 2. þm. Suðurl. innti eftir því hvort niðurstaða af viðleitni ríkisstjórnarinnar um að ná niður vöxtum verði komin fram áður en þetta frv. verður afgreitt frá Alþingi. Ég vænti þess fastlega að við sjáum fram á þróun í þá veru að vextir lækki. Um það er almenn samstaða innan þings og innan ríkisstjórnar að þetta takist enda mikilvæg forsenda fyrir því að atvinnulíf landsmanna geti gengið og, eins og fram hefur komið frá aðilum vinnumarkaðarins, mikilvægur þáttur í því að leiða kjarasamninga til lykta með farsælum hætti og því á ég von á að við sjáum brátt árangur í þessu efni.
    Frú forseti. Ég hygg að ég hafi svarað þeim fyrirspurnum sem hér hafa komið fram en ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir stuðning við málið og skjótan framgang þess hér í þinginu.