Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 13:30:00 (1668)

     Steingrímur J. Sigfússon (frh) :
    Hæstv. forseti. Ég var reyndar í þann veginn að gefa kaflaskil í ræðu minni þegar hæstv. forseti gerði mér aðvart og má segja að hann hafi af miklu innsæi blandað sér í málin á heppilegu augnabliki hvað það snertir. Ég ætlaði sem sagt að taka til við að ræða --- að svo miklu leyti sem ég mun gera það --- einstakar greinar frv. og setja þær inn í það samhengi ríkisfjármála og efnahagsmála sem ég hafði áður talað fyrir.
    Ég hafði rennt yfir málflutning hæstv. forsrh. og svarað honum í nokkru sem og gert grein fyrir því hver væru sjónarmið mín gagnvart því sem mikilvægast og brýnast væri að gera í efnahags- og atvinnumálum okkar. Ég vona að sá málflutningur standi fyrir mína hönd, en er að sjálfsögðu tilbúinn til þess að ræða þau mál og rökstyðja frekar og væri svo sem full þörf á að á þinginu gæti farið fram nokkuð ítarleg skoðanaskipti talsmanna hinna einstöku flokka í efnahagsmálum og ríkisfjármálum því að jafnan er það svo að ef menn ræðast við af skynsamlegu viti og með rökum má eitthvað af því læra og eitthvað á því græða fyrir flesta, a.m.k. þá sem á annað borð eru á þeim buxunum að hlusta á rökræður og taka eitthvert mið af þeim.
    Á fundi efh.- og viðskn. í morgun kom fram hjá fulltrúum Seðlabankans að síðar í dag mundu þeir gera opinbera skýrslu sína um ástand og horfur í peningamálum, gjaldeyris- og gengismálum á þessum vetrardögum. Ég hef fengið þá skýrslu í hendur auk þess sem lítils háttar kynning fór fram á efni hennar í efh.- og viðskn. í morgun. Ég hef að sjálfsögðu ekki haft mikinn tíma til að fara yfir einstaka kafla skýrslunnar en mun e.t.v. gera það undir umræðunni, en það er þó ljóst að það er full ástæða til að taka tillit til þeirra sjónarmiða og þess stöðumats sem Seðlabankinn framkvæmir nú og dagsetur með útgáfu skýrslunnar 4. des. 1991. Hv. alþm. til upplýsingar, þeim sem það ekki vita nú þegar, er þessi skýrsla árlegur atburður í starfi Seðlabankans og gengur þar undir nafninu skammdegisskýrslan og höfundar hennar eða ábyrgðaraðilar, bankastjóri og aðstoðarbankastjóri Seðlabankans sem voru á fundi efh.- og viðskn. í morgun, upplýstu að það væri óvenjumikið skammdegi í skammdegisskýrslunni að þessu sinni. Það þarf svo sem ekki lengi að fletta plagginu til að rekast á það. Ætla ég nú ekki að hefja mikinn lestur upp úr því, en það má ljóst vera að þessi skýrsla og mat Seðlabankans rennir enn frekari stoðum undir margt það sem rætt var fyrr í morgun af ræðumanni og fleirum um alvarlegar þjóðhagshorfur og hrikalegt jafnvægisleysi sem nú ríkir í íslenskum efnahagsmálum. Ég óttast, virðulegur forseti, að það sé ekki of djúpt í árinni tekið að segja að það ríki upplausnarástand í íslenskum efnahagsmálum. Seðlabankinn segir í inngangi á bls. 4 í skýrslunni:
    ,,Mjög hefur syrt í lofti í efnahagsmálum á þessu hausti. Vonir höfðu verið við það bundnar fyrr á árinu að botni efnahagslægðarinnar sem hófst haustið 1988 væri náð og fram undan væri hægfara endurbati. Þessar vonir virðast nú hafa brugðist með öllu, . . . ``
    Síðan er fjallað t.d. um þróun ríkisfjármála og peningamála á bls. 5 í I. kafla. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Alvarlegasta vandamálið hefur verið vaxandi greiðsluhalli ríkissjóðs sem væntanlega verður rösklega tvöfalt meiri en að var stefnt í fjárlögum. Jafnframt hefur hið nýja húsbréfakerfi valdið því að stökkbreyting hefur orðið í lánsfjáröflun til íbúðabygginga fyrir milligöngu ríksins. Hefur þetta hvort tveggja orðið til þess að heildarlántökur ríkisins og annarra opinberra aðila á innlendum lánamarkaði stefna í hærri tölu en nemur öllum peningalegum sparnaði landsmanna. Afleiðingarnar hafa komið fram í mikilli umframeftirspurn og hækkandi vöxtum á verðbréfamarkaði þar sem húsbréfamarkaðurinn hefur verið leiðandi varðandi vaxtastig.``
    Ég held, virðulegur forseti, að full ástæða væri til að hæstv. félmrh. yrði viðstaddur umræðuna í framhaldinu í dag og reyndar rekur mig minni til þess að óskað hafi verið eftir því að allir fagráðherrar sem hér eiga hlut að máli reyndu að vera viðstaddir umræðuna þar sem það er óhjákvæmilegt að ræða hin faglegu efni einstakra greina frv. við viðkomandi ráðherra. Þess vegna er leitt að sjá hér hvorki fleiri né færri en níu galtóma ráðherrastóla þó að hæstv. forsrh. sé hér af skiljanlegum ástæðum þar sem hann mælti fyrir frv. Ég beini þeim tilmælum til forseta í mikilli vinsemd að hann láti nú kanna hvernig háttað er störfum einstakra hæstv. ráðherra á þessum eftirmiðdegi þannig að ekki komi til truflana í störfum þingsins vegna fjarveru þeirra. Ég mun hins vegar halda áfram máli mínu og sýna með því alkunna lipurð og vilja til að greiða fyrir þingstörfum. Ég geri ekki kröfu til þess að hæstv. félmrh. komi til umræðna fyrr en á eftir, (Gripið fram í.) en ég er að fara aðeins yfir skammdegisskýrslu Seðlabankans, hæstv. heilbrrh. Þar er fjallað með nokkuð nýstárlegum hætti um húsbréfamarkaðinn og áhrif á peningamarkaðinn. Ég er ekki viss um að hæstv. félmrh. telji það allt sérstakan fagnaðarboðskap sem þar er flutt um húsbréfin.
    En áfram segir á bls. 5 í skýrslunni: ,, . . . þar sem húsbréfamarkaðurinn hefur verið leiðandi varðandi vaxtastig. Þrátt fyrir það hefur ekki verið unnt að mæta lánsfjárþörfinni með innlendum sparnaði``, þ.e. þrátt fyrir hækkandi vexti og sannast þá það sem hér var sagt áðan að vaxtahækkunarvítahringur ríkisstjórnarinnar hefur engum sjáanlegum árangri skilað. Það hefur ekki reynst unnt þrátt fyrir þessa svimandi háu vexti sem keyrðir voru hér upp fyrir mitt ár að fjármagna fjárþörf ríkisins með innlendum sparnaði. Afleiðingin er sú að ríkissjóður hefur, eins og segir í skýrslunni, ,,því safnað verulegum skammtímaskuldum í Seðlabankanum sem komið hafa fram í rýrnun gjaldeyrisforðans.`` --- Ég ætla að lesa með sérstakri athygli næstu línur, virðulegi forseti, til þess að menn átti sig nú á því að hér eru engin gamanmál á ferð. Seðlabankinn segir einfaldlega: --- ,,Verður bráðlega að leysa þennan vanda með erlendri lántöku svo að gjaldeyrisforða og greiðslugetu þjóðarbúsins út á við sé ekki stefnt í hættu.``
    Með öðrum orðum segir Seðlabankinn: Það er svo komið vegna yfirdráttar ríkissjóðs við Seðlabankann sem hefur rýrt gjaldeyrisvarasjóðinn þannig að ekki verður lengur við það búið að það er ekkert annað fram undan en stórfelldar erlendar lántökur til þess að fjármagna greiðsluhalla ríkissjóðs og yfirdrátt við Seðlabankann til þess að forða því að gjaldeyrisforðanum og greiðslugetu þjóðarbúsins út á við verði stefnt í hættu.
    Skuldasöfnunin sem af er þessu ári er gríðarleg og birtar eru í skýrslu Seðlabankans tölur um það að heildarskuldir á lánamarkaðnum, þ.e. heildarskuldaaukning bæði innan lands og erlendis, nemi nú 90 milljörðum kr. á tólf mánaða tímabili frá septemberlokum 1990 til jafnlengdar á þessu ári en það samsvarar til 16,8% aukningar sem er auðvitað langt umfram verðlag.
    Það alvarlegasta við þetta er það, sem ég vék að fyrr í ræðu minni um fjárfestingar, að minnstur hluti þessarar skuldaaukningar er hjá atvinnulífinu og sáralítill hluti væntanlega þar með í fjárfestingum því að væntanlega er það svo, því miður, að drjúgur hluti skuldaaukningar atvinnuveganna er vegna taprekstrar í einstökum greinum. Það skiptist í grófum dráttum þannig að einungis rúmlega þriðjungur þessarar 90 milljarða skuldaaukningar frá september í fyrra til september í ár var hjá atvinnuvegunum, 11 milljarðar eða aukning upp á 14% fór til ríkissjóðs, en langstærsti hlutinn eða 45 milljarðar voru lán til heimila sem jukust hlutfallslega um 27,7%. Og síðan segir aftur: ,,Þessi gífurlega skuldasöfnun einstaklinga átti að langmestu leyti rót sína að rekja til húsbréfa og annarra lána hins opinbera íbúðalánakerfis.`` Neðar á sömu blaðsíðu segir ,,að ríkið hafi verið frumkvöðull aukinnar lánsfjáreftirspurnar og þar af leiðandi þeirrar þenslu- og vaxtahækkana sem átt hafa sér stað, annars vegar með hallarekstri ríkissjóðs og hins vegar með milligöngu um stórfelldar lántökur til húsnæðismála sem að miklu leyti hafa runnið til annarra þarfa``.
    Hér eru fullyrtir mjög alvarlegir hlutir sem hljóta að setja mark sitt á áframhaldandi umræður um stöðuna í peningamálum, ríkisfjármálum og efnahagsmálum --- og mér er ánægjuefni að sjá að hæstv. félmrh. er mættur til fundar og er með skammdegisskýrslu Seðlabankans fyrir framan sig. Ég vek sérstaklega athygli hæstv. félmrh. á orðalagi á bls. 4, 5, 6 og 7 í skýrslunni.
    Reyndar koma mér á óvart t.d. ummæli hæstv. ráðherra í allt haust um nauðsyn þess að vextir lækki --- og þó ekki því að maður er reynslunni ríkari eftir ákveðin samskipti við Seðlabanka Íslands --- það varkára orðalag, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið, sem frá Seðlabankanum kemur í þessum efnum.
    Það er ekki hægt að ráða af orðalagi efst á bls. 7 að Seðlabankinn sé sammála t.d. hæstv. sjútvrh. um það að brýna nauðsyn beri til að keyra niður raunvaxtastigið og það strax því að Seðlabankinn segir að margt sem um háa raunvexti sé sagt og bölvun þeirra megi til sanns vegar færa, en það sé ekki þar með sagt, og ég vitna til skýrslunnar orðrétt, ,,að unnt sé eða æskilegt að lækka raunvexti hér á landi án tillits til stöðu og þróunar á öðrum sviðum efnahagsmála.`` Ég sé ekki annað en Seðlabankinn slái þarna mikla fyrirvara varðandi það að það sé eitthvað sem eigi að rjúka til við að lækka hér raunvextina. Auðvitað hefur Seðlabankinn ákveðin rök fyrir máli sínu og færir þau fram að slíkar tilraunir megi ekki vera ótímabærar og þær megi ekki skapa önnur vandamál heldur en þeim er ætlað að leysa. En þetta mjög svo varkára orðalag vakti athygli mína.
    Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þessa skýrslu Seðlabankans en ég hef vakið athygli manna á henni. Hún er fram komin og ég tel ekki óeðlilegt að hv. alþm. verði sér úti um hana og sæki hana í hólfin og hafi hana til hliðsjónar undir umræðunni því að margt er þar sagt um ástand og horfur mála einmitt í dag sem hlýtur að tengjast því máli sem við ræðum. En til að gera langt mál stutt má minna á upphaf II. kafla í skýrslunni um almennt efnahagsástand og þjóðhagshorfur. Sá kafli hefst t.d. með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Skjótt og alvarlega hefur skipast veður í lofti um almennan þjóðarhag. Efnahagslífið var á þessu ári byrjað að rétta við eftir þriggja ára samdrátt og stöðnun og horfur voru taldar á hægfara endurbata og framþróun á ný.``
    Síðan rekja skýrsluhöfundar hvers vegna þetta hafi allt saman brugðist og klykkja út með því að í þjóðhagsáætlun var reiknað með því að bygging nýs álvers mundi fylla að verulegu leyti upp í þetta skarð. Nú er eins og segir þar fokið í það skjól og með öllu óséð hvenær þau áform verði að veruleika.
    Já, hér er mergurinn málsins á ferðinni. Það er fokið í hið mikla skjól. Álverið kemur ekki, haldreipið mikla sem átti að lýsa í gegnum hin dimmu göng er nú slitið, fokið í það skjól. Og einhverjir munu hafa komið nálægt þessari skýrslu sem þarna eiga sæmilega til að þekkja. Mér er ekki grunlaust um að formaður stóriðjunefndar ríkisstjórnarinnar sé eitthvað tengdur þessari skýrslu og hér er þess vegna væntanlega ekki farið með neitt fleipur hvað stóriðjumálin snertir, að það er með öllu óséð hvenær þau áform verða að raunveruleika.
    Ég vík að einstökum greinum frv., virðulegi forseti, sem er á þskj. 181, og verður þá fyrst fyrir kafli I um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla. Ég mun fara hratt yfir sögu í þessum efnum þar sem fleiri talsmenn míns flokks munu taka þátt í umræðum og m.a. ræða ítarlegar einstök fagleg atriði sem í þessum kafla felast, en þar er í stuttu máli nánast lagt til að sníða af og falla frá því að hefja framkvæmd á velflestum ef ekki öllum þeim umbótaatriðum í skólastarfi sem ný grunnskólalög boðuðu og kennara- og uppeldisstéttir landsins hafa bundið vissar vonir við. Og það lygilega er að þessu er smyglað inn í þetta frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum án sjáanlegrar ástæðu í raun og veru þar sem sáralítill sparnaður, t.d. hvað næsta ár snertir, hlýst af þessu tiltæki. Það má, ef menn ekki taka mark á þessum orðum, fara yfir þetta lið fyrir lið og útskýra í einstökum atriðum hvers vegna þetta frv. í mörgum tilfellum breytir engu um útgjöld við skólastarf á næsta ári og í öðrum tilfellum sáralitlu. Þannig er til að mynda um c-lið í 1. gr., að fella niður 2. mgr. 32. gr. grunnskólalaga. Hvað er þar verið að gera? Það er verið að fella úr lögum heimild til að ráða aðstoðarskólastjóra, heimild sem að sjálfsögðu er engin skylda til að nota þannig að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn er það í sjálfsvald sett hvort þeir nýta þessa heimild eða ekki. Hvers vegna er þá verið að þessu? Það þarf ekki að gera þessa lagabreytingu til þess að spara útgjöld. Jú, maður sér ekki annan sjáanlegan tilgang með þessu en þann að það sé af pólitískum ástæðum verið að læða þessum hlutum hér inn til þess að breyta faglega skólastefnunni í landinu, til hins verra að mínu mati og ég held margra fleiri, undir því yfirskini að í því felist einhver sparnaður fyrir ríkið sem ekki er tilfellið í þessu dæmi sem ég nefni. Svona er um margt fleira. Þarna eru til að mynda á ferðinni hlutir sem áttu að taka gildi á löngum tíma með verulegum aðlögunartíma og hæstv. ríkisstjórn hefði verið í lófa lagið að stýra þeirri aðlögun þannig að lítill eða enginn viðbótarkostnaður hefði fallið til á næsta ári, en það var markmiðið í sjálfu sér að stemma stigu við auknum útgjöldum í skólastarfi á næsta ári.
    Margt fleira er hér satt best að segja heldur dapurlegt og ber vitni um ótrúlega lítinn metnað hæstv. ríkisstjórnar og auðvitað sérstaklega hæstv. menntmrh. á þessu sviði. Það er dapurlegt að sú aðferð skuli valin í stað þess að hafa þá manndóm í sér til þess að leggja fyrir þingið með venjubundnum hætti frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla og standa fyrir umræðum um það á skólapólitískum grunni og leyfa menntmn. þingsins að fjalla um, þá hluti skuli svona atriðum smyglað inn í með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég skora á þá menn, þá hv. þm., einnig úr stjórnarliðinu sem hafa einhvern metnað fyrir hönd skólastarfsins í landinu að lesa þessi ákvæði, að reikna út hvað þetta sparar og spyrja síðan þeirrar spurningar: Erum við fylgjandi þessum breytingum í skólamálum? Því að ef menn þurfa að spara 30 millj. í skólahaldi í landinu er þá endilega víst að menn mundu gera það með þessum hætti, að sníða af það sem t.d. Kennarasamband Íslands telur vera flest þau ákvæði nýju grunnskólalaganna sem til framfara horfa. En samkvæmt samþykkt og bréfi frá Kennarasambandi Íslands dags. 3. des. er það eindregin afstaða þeirra að hér sé farið algerlega aftan að hlutunum.
    Í þessu bréfi segir m.a. að nú hafi verið lagt fram á Alþingi frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og með frv. sé gert ráð fyrir að fresta eða fella niður flest ákvæði nýju grunnskólalaganna sem til framfara horfa. Og Kennarasambandið mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum og skorar á hv. alþm. að standa vörð um grunnskólann.
    Ég held að óhjákvæmilegt sé, herra forseti, að hæstv. menntmrh. láti svo lítið og veri viðstaddur þessa umræðu. Það munu fleiri á eftir mér eiga eftir að ræða þennan kafla frv. og við getum ekki unað því þar sem um stórpólitískar ákvarðanir og breytingar í skólamálum okkar er að ræða að fagráðherra þeirra mála sé ekki viðstaddur og ekki sé færi á því að ræða við hann og spyrja hann út úr í þessu efni. Nærtækasta spurningin væri auðvitað sú: Er ekki hæstv. menntmrh. tilbúinn til þess að draga til baka þennan kafla frv., beita öðrum og almennari ráðstöfunum til að ná fram þeim léttvæga sparnaði sem þarna gæti komið til á næsta ári og taka á þessu máli með faglegum hætti ef hann vill breyta grunnskólalögunum í þessa veru og gera það þá með sjálfstæðu frv. um það efni?
    Herra forseti. Ég held að ég fari ekki ítarlegar ofan í einstök atriði þessa kafla um grunnskólann. Það munu aðrir gera ítarlegar á eftir mér. Þó verður að minna á að það lagafrv. um grunnskóla sem síðast var afgreitt og eru gildandi lög tók nokkrum breytingum í meðförum hv. Alþingis og það náðist þokkaleg samstaða um afgreiðslu þess frv. Og það kynduga er að ákveðin atriði, sem komu inn í frv., inn í lögin í meðförum á þingi og voru sum vegna óska þáverandi stjórnarandstöðu, t.d. Sjálfstfl., eru núna tekin út með þessum breytingum. Þannig var t.d. um sérstakt metnaðarmál og baráttumál hv. 2. þm. Reykn., sem er virðulegur forseti Alþingis, sérstakt baráttumál hv. 2. þm. Reykn. við afgreiðslu grunnskólalaga hér á þinginu, því er núna hent út með þessum breytingum hæstv. menntmrh. Ég mótmæli þessum árásum á forseta þingsins. Ég veit ekki hvað forsetinn hefur til saka unnið. Og þetta er furðuleg framkoma við okkar virðulega forseta, verð ég að segja, og auðvitað alla aðra hv. alþm. sem stóðu að því að gera samkomulag við afgreiðslu grunnskólalaga með þessum hætti. --- Af því að ég sé að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. eru mjög áhugasamir um þetta atriði og eru farnir að leita í skjölum sínum, þá skal upplýst að þeir finna þetta í d-lið 1. gr. þar sem lagt er til að 1. og 6. mgr. 46. gr. grunnskólalaganna falli niður. Það er um kennslustundafjölda í viku sem nemendur eiga rétt á og það er hægt að fara yfir það með hæstv. ráðherrum ef þeir vilja hvaða ákvæði eru í 46. gr. grunnskólalaganna. Hæstv. ráðherrar kunna þau væntanlega ekki utan að frekar en flestir aðrir Íslendingar. En þar er í einstökum atriðum talinn upp og lögbundinn sá vikulegi kennslutími sem hver nemandi í grunnskóla skal hafa að lágmarki, í 1. bekk 1.000 mínútur, í 2. og 3. bekk hið sama, í 4. bekk 1.080 mínútur o.s.frv., upp í 1.480 þegar komið er í 10. bekk. Þessu, sem var sérstakt baráttumál virðulegs forseta vors og 2. þm. Reykn., verður hent út með þessari breytingu. Svo mætti áfram telja að margt kemur manni harla skringilega fyrir sjónir.
    Virðulegi forseti. Ég treysti því að ráðstafanir hafi nú verið gerðar til þess að hæstv. menntmrh. komi til fundarins og unnt verði að ræða við hann ítarlegar um þessi efni síðar á fundinum í dag.
    4. gr. frv. lýtur að breytingu á jarðræktarlögum, nr. 56/1987, með síðari breytingum, og er þá væntanlega fyrst og fremst verið að breyta þeim ákvæðum sem tóku breytingum með lögum nr. 65/1989. Um efni þessarar greinar vil ég taka fram að ég er sammála þessari breytingu á lögunum og ég tel reyndar að þegar Alþingi afgreiddi breytingar á jarðræktarlögum 1989 hafi ætlunin verið sú að gera það með þeim hætti að ótvírætt væri að framlög til jarðræktarstyrkja væru á hverju ári bundin af fjárveitingum Alþingis og gætu ekki orðið meiri. Síðan hefur komið upp deila um þetta atriði og Búnaðarfélag Íslands og alveg einkum og sér í lagi einn stjórnarformaður þar á bænum, hv. þm. Egill Jónsson, 3. þm. Austurl., (Gripið fram í.) --- nei, hann er í stjórn Búnaðarfélags Íslands --- hefur lagt þann skilning í 12. gr. jarðræktarlaganna að bændur ættu rétt á styrkjum upp að því þaki sem í greinina er sett burt séð frá fjárveitingum Alþingis á hverju ári. Ég var ósammála þessari túlkun og lýsti þeirri afstöðu minni meðan ég var landbrh. að ég gæti ekki fallist á að menn hæfu á nýjan leik þá framkvæmd laganna að skuldahali myndaðist sem lengdist ár frá ári. Það væri engum til góðs að standa þannig að málum og miklum mun nær að skipta einfaldlega þeim fjármunum þó takmarkaðir væru sem menn hefðu handa á millum í hvert sinn.
    Mér sýnist að með þessari breytingu á jarðræktarlögum yrði þessi deila útkljáð. Ég verð að vísu að hryggja hv. 3. þm. Austurl. með því að hans skilningur verður undir í þessu máli þannig að þar bætist við annar hv. þm. Sjálfstfl. sem hæstv. ríkisstjórn er augljóslega að löðrunga með þessum breytingum. Út af fyrir sig væri fróðlegt að heyra sjónarmið hv. þm. Egils Jónssonar í þessum efnum í ljósi þessa en ég vil ekki að misskilningur leiki á eða vafi um mína afstöðu og geri ég hreinskilnislega grein fyrir henni þó að hún hafi ekki alltaf verið vinsæl og ýmsir góðir vinir mínir hjá Búnaðarfélagi Íslands og víðar hafi ekki verið ýkja ánægðir þegar ég stóð fastur fyrir í þeim efnum að haga framkvæmdinni þannig að ekki mynduðust skuldir hvað sem óljósu orðalagi breytinganna frá 1989 snerti. En með þessari breytingu verða tekin af öll tvímæli og ég tel það út af fyrir sig gott. Það er vont að óvissa leiki á um framkvæmd einstakra lagaákvæða sem hafa fjárhagslega þýðingu fyrir fólk eins og hér á við.
    5. gr. frv. breytir lögum um stjórn fiskveiða. Þar eru á ferðinni nýjar álögur á sjávarútveginn eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir. Mönnum finnst það kannski ekki mikið að bæta álögum á hann upp á einar 40--50 millj. kr. eins og þessi grein felur í sér. Það má kannski segja að það sé viðhorfið sem spurningin snýst um frekar en stærðargráðan. Engu að síður er hér enn ein aðförin að sjávarútveginum í þeirri erfiðu stöðu sem hann er og þetta er þá annað frv. í röð sem hæstv. ríkisstjórn mælir fyrir þar sem verið er að þyngja og auka álögur á sjávarútveginn þrátt fyrir þá hrikalegu stöðu sem þar er með bullandi taprekstri og erfiðleikum.
    6. gr. er mikið snilldarverk og alveg tímamótaframlag hæstv. ríkisstjórnar til efnahagsmála á Íslandi og mun ekki litlu skipta að hún fáist afgreidd á þessu þingi. Og hvað er nú þar á ferðinni? Það er rétt að fara aðeins yfir það. Það er hvorki meira né minna en að við næstu alþingiskosningar á að draga stórlega úr auglýsingum á framboðslistum. Það á að láta það nægja hvorki meira né minna en að auglýsa í Lögbirtingablaðinu og hengja kannski upp svona eins og á einum stað í Reykjavík hina löggiltu framboðslista. Þetta eru auðvitað alveg stórkostleg tímamót og verulegt framlag hæstv. ríkisstjórnar til ráðdeildarsemi í ríkisrekstrinum og hlýtur að vera flutt . . . (Gripið fram í.) Já, akkúrat, hlýtur að vera flutt hér og nú vegna þess að hæstv. ríkisstjórn býst við kosningum á næsta ári, því að ef svo væri ekki væri engin ástæða til að vera að hrófla við þessu lagaákvæði einmitt núna. Auðvitað fögnum við talsmenn stjórnarandstöðunnar því alveg sérstaklega að hæstv. ríkisstjórn skuli með þessum hætti viðurkenna stöðu sína og þá erfiðleika og þær hæpnu lífslíkur sem stjórnin býr nú við með því að grípa til þessara breytinga á lögum nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis. Og þó ég sé ekki trúaður maður þá tek ég mér í munn gamlan málshátt og segi: ,,Guð láti gott á vita``, að þetta þýði það að við fáum alþingiskosningar á næsta ári og nýja ríkisstjórn. En að gamni slepptu tel ég þessa breytingu satt best að segja harla smásmugulega, svo ekki sé meira sagt, því að það sem fyrst og fremst mun gerast við þessa breytingu er það að eitthvað dregur úr auglýsingakostnaði í tengslum við alþingiskosningar hjá blöðum á landsbyggðinni sem hafa þjónað þeim tilgangi að kynna framboðslistana í einstökum kjördæmum. Landsmálablöðunum er þarna hent út og þau fá ekki til jafns við önnur blöð og aðra fjölmiðla í landinu að kynna framboðslistana fyrir sínum umbjóðendum. Nú vita þeir það sem til þekkja víða úti á landsbyggðinni að landsmálablöðin eru geysimikilvægur vettvangur skoðanaskipta og fjölmiðlunar á sínu svæði og eru kannski þar með eini fjölmiðillinn sem er með þá útbreiðslu að hægt sé að segja að þau komi í hvert hús. Ég tek sem dæmi þekkt, vel rekið og myndarlegt blað norður í landi, Víkurblaðið á Húsavík, sem er nánast í hverju húsi á Húsavík og í Suður-Þingeyjarsýslum. En það blað sem næst því kemur í útbreiðslu kemur kannski í fimmta hvert hús eða svo, gæti ég trúað. Hvers vegna á að taka þann rétt af því fólki sem á sér fjölmiðil sem heitir Víkurblaðið að fá framboðslista síns kjördæmis kynnta þar? Er það eitthvað verr að því komið að fá viðhlítandi kynningu á þessum framboðum heldur en aðrir landsmenn?
    Ég tel þetta satt best að segja heldur smásmugulega breytingu, ég verð að segja það, virðulegur forseti. Ég hefði talið allt annað mál ef t.d. hefði verið sett þak á útgjöld vegna þessa og ákveðið væri að eyða ekki nema með einhverjum hætti tiltekinni upphæð í þessa kynningu og síðan hefði henni verið skipt að bestu manna yfirsýn þannig að allir landsmenn stæðu sem jafnast að því að fá þessa kynningu. En það er mjög smásmugulegt að ákveða með þessum hætti að henda út ákveðnum fjölmiðlum en öðrum ekki í þessari kynningu. Þetta nálgast það þegar fjmrn. í sparnaðaraðgerðum sínum á sl. hausti sagði upp einu áskriftinni að Víkurblaðinu. Íslenska ríkið var með eina áskrift að Víkurblaðinu á Húsavík. Og fjmrn. fann það snjallræði í sparnaðarðagerðum sínum á sl. hausti að segja henni upp. Að vísu komu svo til sögunnar hjón norður á Húsavík sem greiða nú áskrift fjmrn. að Víkurblaðinu þannig að fjmrn. fær áfram Víkurblaðið gefins og hjón norður í landi borga áskriftina.
    Þá kem ég að þeim kafla þessa máls sem kannski er á margan hátt hvað alvarlegastur og vitlausastur þar sem ég tel að hæstv. ríkisstjórn geri nú mest mistök af öllum í þessu frv. og af sinni málafylgju á þessu hausti og það er árásin á ríkisábyrgð launa vegna gjaldþrota. Mér er eiginlega alveg óskiljanlegt hvers vegna hæstv. ríkisstjórn kýs að undirbúa kjarasamninga í landinu með þessum hætti. Að ráðast með þessum hætti á þennan viðkvæma þátt í afkomuöryggi fólks í landinu, einmitt við þær aðstæður sem nú eru uppi þegar það liggur fyrir að gjaldþrotum fer mjög fjölgandi og óvissa er óvenjumikil í atvinnumálum, atvinnuleysi er vaxandi og margháttaðir erfiðleikar í atvinnulífinu. Þá --- einmitt þá --- velur hæstv. ríkisstjórn tímann til þess að ráðast á þessi réttindi og setja þau út í kuldann. Því eins og þetta frv. gengur frá hlutunum þá er í raun fullkomin óvissa um hvernig tekst að ganga frá nýskipan þessara mála þannig að lágmarksréttindi verði tryggð á þessu sviði. Hér er sem sagt ætlunin að vísa því yfir á aðila vinnumarkaðarins að sjá um að fjármagna sjóð sem taki yfir greiðsluskyldu ríkissjóðs á launum vegna gjaldþrota þar sem ábyrgð hefur verið fyrir hendi. Ríkið yrði að vísu samkvæmt þessu áfram með minni háttar upphæð inn í þetta samhengi en skv. upplýsingum í frv. þá er ætlunin að þetta mundi spara ríkissjóði útgjöld hátt í 400 millj. kr. frá því sem er á þessu ári. Færa þátttöku ríkisins í þessum kostnaði úr á sjötta hundrað milljónir og niður í hundrað.
    Þetta er gert einnig við þær aðstæður að það eru lausir kjarasamningar í landinu, nánast allir kjarasamningar í landinu lausir og vinnudeilur þegar uppi. Hvað er í raun og veru verið að segja hér við aðila vinnumarkaðarins og launafólkið sérstaklega? Þessum byrðum á að velta yfir á atvinnulífið, aðila vinnumarkaðarins, sem augljóslega þýðir að svigrúm til kjarabóta í þeim samningum sem fram undan eru eða yfir standa, eftir atvikum, verður sem því nemur minna. 400 milljónir hið minnsta teknar út úr dæminu, svona í forgjöf, áður en farið er að semja um kaupið. Fyrir utan þá óvissu sem að mínu mati skapast með því að afgreiða málin svona.
    Þetta er alveg furðulega framkoma nema hér sé á ferðinni sama hugsun og manni hefur fundist brydda á hjá samninganefnd ríkisins, að byrja á því að hóta mönnum öllu illu og bjóðast svo til að draga eitthvað af því til baka ef þeir verði nú góðir og semji um ekki neitt. Það er eiginlega eina skýringin sem ég finn.
    Hvernig var fyrsta tilboð samninganefndar ríkisins til opinberra starfsmanna? Það var að þeir væru í fyrsta lagi svo vænir að semja um kauplækkun og í öðru lagi ætlaði svo ríkið að vera svo vænt að rífa af þeim mörg helstu félagsleg réttindi opinberra starfsmanna. Það var tilboðið. Og hvaða tilgangur getur verið með svona löguðu annar en þessi, ef vera skyldi, að með því að hóta mönnum svona öllu illu þá sé hugsanlega hægt að gera þá ánægða með það að fá ekki neitt. Ég fæ í fljótu bragði ekki séð annan tilgang, ef einhver er, með svona framkomu.
    Ef litið er nánar á ríkisábyrgð á launum þá er þegar búið að stemma mjög stigu við útgjöldum ríkisins í þeim efnum. Það var gert og tókst eftir atvikum að lokum um það þokkaleg samstaða á árinu 1990 að breyta lögunum frá 1985 þannig að þrengja þó nokkuð aðgengi launamanna að þessari ábyrgð. T.d. var þá sett þak á þau hámarkslaun sem ríkissjóður greiðir þegar til gjaldþrota kemur. Í lögunum frá 1985 var það þannig að menn fengu greidd full laun, eins og þau höfðu verið hjá fyrirtækinu á síðustu mánuðum áður en það varð gjaldþrota, burt séð frá því hvort þau voru 50 eða 500 þúsund kr. á mánuði. Þetta þótti mönnum ekki réttlát eða skynsamleg ráðstöfun á opinberu fé og niðurstaðan varð sú að 1990 var þessu breytt í þá veru að núna nema hámarksgreiðslur ríkisins í þessum tilvikum þreföldum fullum atvinnuleysisbótum, sem mun vera einhvers staðar nálægt 150 þús. kr. á mánuði. Þessar og reyndar nokkrar fleiri breytingar voru gerðar á lögunum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot 1990. Um það tókst að lokum þokkaleg samstaða, verkalýðshreyfingin var að vísu óánægð með ýmsar hugmyndir sem þar höfðu verið uppi í nefnd sem að þessu starfaði en í tengslum við þjóðarsáttarsamningana var gengið frá þessum málum í sæmilegri sátt. Ég held að það segi í raun og veru allt sem segja þarf um þá skynsemi hæstv. ríkisstjórnar að vera nú að rífa þetta upp með þessum hætti.
    Ég fullyrði að það er ekki lengur um að ræða bruðl eða óeðlilega ráðstöfum fjármuna í sambandi við ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot nema síður sé. Þvert á móti er þegar búið að takmarka þannig þá ábyrgð að ég sé ekki að dæmi geti verið um mikla misnotkun eða óeðlileg útgjöld hins opinbera í því efni. Og þess vegna stendur það eitt eftir að breytingar hæstv. ríkissjórnar miða að tvennu, annars vegar að skerða enn frekar þessi réttindi og hins vegar að velta byrðunum af þeim yfir á atvinnulífið og þá auðvitað launafólk þegar upp verður staðið. Þann hluta þess auðvitað sem lakast er þá staddur og verst má við því eðli málsins samkvæmt.
    Þetta er að mínu mati alveg forkastanleg framkoma af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ég held að ríkisstjórnin gerði réttast í því að draga þennan kafla út úr frv. þegar í stað og frysta hann, a.m.k. þangað til að mál færu að skýrast hvað kjarasamninga snertir. Færi hann þá sömu leið og kafli hæstv. menntmrh. um grunnskólann sem hér er smyglað inn í frv.
    Ég mun ekki ræða í einstökum atriðum um greinar 11, 12 og 13 þar sem annars vegar er breytt ráðstöfun á fé Framkvæmdasjóðs fatlaðra með breytingu á lögum um málefni fatlaðra og heimilað að taka stærri hlut af fjármunum sjóðsins til viðhalds en áður hefur verið. Um það má margt segja og í sjálfu sér tel ég að það sé ekki hægt að halda því fram að þar sé um óeðlilega ráðstöfun eða óskynsamlega að ræða. Ég ætla ekki að tjá mig fyrir fram eða á þessu stigi um þau hlutföll sem þarna er boðið upp á, en auðvitað er það ljóst að það er lítið gagn að því að byggja glæsileg mannvirki ef þeim er síðan ekki hægt að halda við og þau grotna niður.
    Sama á við um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég ætla ekki að ræða þá hluti efnislega á þessu stigi en vil spyrja hæstv. forsrh., að gefnu tilefni því miður: Var haft samráð við sveitarfélögin um þessar breytingar? Hér er augljóslega fyrst og fremst um að ræða atriði sem hefur áhrif á stöðu sveitarfélaganna og greiðslubyrði þeirra í sambandi við félagslegt íbúðarhúsnæði. Úr því að hér hafa birst á undanförnum vikum fleiri en eitt og fleiri en tvö frv. þar sem hróflað er við málefnum sem lúta að samskiptum við sveitarfélögin, án minnsta samráðs við þau, sbr. frv. um tryggingagjald, þá hlýt ég að spyrja hæstv. forsrh.: Er þessi breyting lögð til í samráði við og ég tala nú ekki um með samþykki sveitarfélaganna í landinu?
    Síðan kemur að 15. gr. og þeim sem á eftir koma og lúta að breytingum á lögum um almannatryggingar. Um það mætti margt segja og mætti hafa sjálfstæða umræðu um þau ósköp þar sem eru heilbrigðismálin og frammistaða hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum. En ég veit að svo ber til að hér munu tala á eftir mér í umræðunni menn sem betur eru til þess fallnir að ræða þau atriði í einstökum greinum heldur en ég, svo sem eins og fyrrv. hæstv. heilbrrh. og ætla ég þess vegna að fara hratt yfir sögu.
    Í heildina tekið verð ég að segja að mér finnast þær breytingar sem þarna eru lagðar til flestar fremur ógeðfelldar, svo ekki sé meira sagt. Ég ætla að sleppa því að ræða þar um stærðargráður eða upphæðir í einstökum tilvikum þar sem rætt er um að leggja auknar álögur á sjúklinga vegna heimsókna á heilsugæslustöðvar eða til sérfræðinga. Ég ætla ekki að fjölyrða um aukinn kostnað sem foreldrar barna eiga að bera vegna tannlækninga, t.d. þeir sem eiga kannski sjö börn og þurfa að senda þau reglulega til tannlæknis. Ég tala nú ekki um ef menn eru svo óheppnir að lenda í þeim hópi sem orðalagið, þetta snjalla orðalag, sem er í 15. gr., á við, þ.e. að breytt verði ákvæðum og dregið úr því sem áður var sjálfkrafa réttur til að láta lagfæra meðfædda galla í tannbyggingu eða vegna slysa og sjúkdóma yfir í orðalagið að taka þátt í kostnaði ,,vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma``.
    Hæstv. ríkisstjórn sem sagt óskar sér þess hlutskiptis að hafa ekki þarna einfalda reglu við að styðjast sem gefi foreldrum eða börnum sjálfkrafa rétt til þess að slíkt sé lagfært ef um alvarlega meðfædda galla er að ræða. Nei, ekki aldeilis. Heldur á að setjast niður og að meta það hvort afleiðingarnar af þessum meðfæddu göllum séu nógu alvarlegar fyrir viðkomandi einstakling, stofni sálarheill hans í nógu mikinn voða eða trufli nógu mikið meltinguna í honum til þess að rétt sé að ríkið taki þátt í kostnaðinum. Ég verð að segja það eins og er að mér býður við svona hugsunarhætti. Hvað er hér á ferðinni? Hvers vegna í ósköpunum vilja menn fara að kalla yfir sig slíkar hörmungar eins og þessu hlýtur að fylgja, að ætla að fara út í að leggja mat á þess háttar hluti með þessum hætti? Hver er hugsunin, hver eru hin faglegu rök, hæstv. heilbrrh., fjarstaddur eins og venjulega, fyrir því? Hverjir eiga að meta það hvort afleiðingar meðfæddra galla séu nógu alvarlegar til þess að ríkið taki þátt í kostnaði við að lagfæra þær? Hvenær er gómur nógu klofinn til þess að rétt sé að ríkið hjálpi til við lagfæra hann o.s.frv.?
    Ég held að menn eigi bara að ræða um þessa hluti eins og þeir eru og þeir eru svona. Það er þetta sem er verið að tala um. Og fleirum en mér hefur orðið illa við þegar menn hafa farið að reyna að ráða í hvað felst á bak við þetta orðalag. Ég hef rætt það við nokkra starfsmenn í heilbrigðisstéttum og satt best að segja vekur þessi hugsunarháttur litla hrifningu þar á bæ. Er ekki stutt í það að við förum að skoða hvenær sjúkdómar eru nógu alvarlegir til þess að hið opinbera taki þátt í að lækna þá o.s.frv.? Út á hvaða braut erum við að fara? Hvert erum við að halda, góðir alþingismenn?
    Það sama á við um fjölmargt sem hér er lagt til. Við erum að fara út á nýja braut. Það skiptir mig í sjálfu sér engu máli hvort heimsóknargjald er hækkað úr 800 krónum í 1.500 eða 3.000, það er spurningin um grundvallarákvörðunina sem á að ræða. Er það góð vegferð, sem við erum að leggja upp í þarna, að láta almenning taka í vaxandi mæli, stig af stigi, aukinn kostnað á sig til þess að fá undirstöðuþjónustu í heilsugæslu? Ég segi nei. Ég held að reynsla þeirra þjóða sem hafa hrakist út á þá braut og ýst lengra og lengra út í þetta fen sé ekki þannig að við Íslendingar eigum að fara að gera tilraunir í þessum efnum.
    Hvernig er ástandið í heilbrigðismálum í Bandaríkjunum í dag? Hver er niðurstaðan hvað kostnað bandarísku þjóðarinnar af heilbrigðiskerfinu snertir? Hún er sú að kostnaðurinn þar er þrefalt meiri en í miklu betur rekinni heilsuþjónustu t.d. í Kanada. Það er útkoman. Það eru hinar köldu staðreyndir í málinu. Þegar upp er staðið verður kostnaður þjóðarbúsins í heild meiri fyrir lakari þjónustu. Og af hverju horfa menn ekki á það hver niðurstaðan er, hver útkoman er, hver árangurinn er, í stað þess að hengja sig í klisjur af þessu tagi?
    Ég vara við þessari vegferð sem hér er lagt upp í í heilbrigðismálum og reyndar á fleiri sviðum þar sem auknar álögur eru færðar yfir á almenna notendur, almenna þiggjendur í þessu kerfi. Ég óttast að þetta muni leiða okkur út í miklar ógöngur. Fyrir utan það að margt er óskynsamlega útfært í þessum efnum, t.d. ákvæðin um að heimilt sé að láta menn greiða hlutfallsgjald. Ég tel að það sé auðvitað lágmark, ef út í slíkt er farið, að þá sé jafnframt sett inn þak á hversu háar þær upphæðir geti orðið og það þak t.d. innan mánaðar. Það er það fyrirkomulag sem notað er í þessum efnum í Danmörku og víðar þar sem slíkt viðgengst á annað borð.
    Aðeins eitt að lokum um þennan heilbrigðiskafla og það varðar útboðin. Inn í 19. gr. er sett tillaga um breytingu á 48. gr. laganna, sem heimili Tryggingastofnun útboð og síðan í 21. gr. sambærileg breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu sem heimili útboð, tiltölulega almenn og opin útboð á rekstri í heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu. Ég vek athygli á því að orðalagið er þannig að þetta má nýta til þess að bjóða út hvað sem er á þessu sviði. Hæstv. forsrh. kemur að vísu upp og segir: Það er meiningin að menn hugsi sér að nota þetta t.d. til að bjóða út rannsóknarþjónustu utan stofnana. Gott og vel. Af hverju er það þá ekki sagt? Af hverju er verið að afla með lögum heimildar til að bjóða út hvað sem er í rekstri á sviði heilbrigðismála ef eitthvað annað vakir fyrir mönnum? Ég er mjög á móti þessu ákvæði, það verð ég að segja. Ég sat í stjórnarnefnd ríkisspítalanna í fjögur ár og í þeim hópi var mikill frjálshyggjumaður sem fyrsta árið var sífellt að tala um útboð. Hann vildi bjóða út alla skapaða hluti í heilsugæslu, lyfjainnkaup ríkisspítalanna og matseldina á ríkisspítölunum og þvottinn á ríkisspítölunum og guð má vita hvað --- ef ekki bara sjúklingana sjálfa. (Gripið fram í.) Af vinskap við hann ætla ég ekki að upplýsa það.
    En hver var niðurstaðan? Stjórnarnefndin fór í mikla vinnu, tók fyrir hvert sviðið á fætur öðru í rekstri ríkisspítalanna og komst að því aftur og aftur og aftur að útboð ættu ekki við. Útboð væru stórvarasöm. Það var til að mynda farið rækilega yfir þvottinn á ríkisspítölunum og menn sögðu sem svo í byrjun: Það er nú engin ástæða til þess að ríkið sé að reka þvottahús. Það er gamaldags og úrelt, það er bara einhvers konar austantjaldskommúnismi að vera að því. Nei, við skulum bjóða út þvottahúsið. Svo var farið að skoða málið tæknilega. Og hvað kom í ljós? Jú, þetta langstærsta þvottahús landsins, sérhæft, það var enginn annar aðili til í þjóðfélaginu sem gat ráðist í að taka við þessari þjónustu nema ráðast fyrst í stórkostlegar fjárfestingar og kaupa inn dýr og sérhæfð tæki.
    Og hvað hefði gerst ef menn hefðu boðið þetta út? Einhver fjársterkur aðili hefði fengið þetta, keypt tækin. Hann hefði verið einn um það að geta veitt þessa þjónustu. Þvottahús ríkisspítalanna hefði verið lagt niður og eftir tvö ár hefði kostað stórfé að koma því aftur í gang. Og það hefði verið einn aðili í landinu sem hefði haft einokun á því að þvo fyrir stofnunina og þar með getað sjálfur farið að skammta sér verð fyrir. Þetta var niðurstaða stjórnarnefndarinnar og frjálshyggjumaðurinn féllst á að þetta væri auðvitað alveg rétt. Menn yrðu að skoða fleira heldur en upphafið í málinu. Það væri til lítils að ná kannski sparnaði í eitt ár ef það þýddi svo að menn væru ofurseldir og komnir í klærnar á einhverjum einum aðila sem hefði einokun á markaðnum og gæti farið að skammta sér verð eftir tvö eða þrjú. Það þýðir ekkert að vera að pissa í skóinn sinn í þessum efnum, það er alveg gagnslaust. Það er jafngagnslaust í þessu dæmi eins og í hinu bókstaflega. Og sennilega er meira gagn að því að pissa í skóinn sinn í frosti en að fara út í svona vitleysu.
    Þess vegna verð ég að segja það að ég tel að það vanti allan rökstuðning og allar forsendur til þess að ljáð sé máls á breytingu af þessu tagi. Því auðvitað er það grundvallarbreyting að taka inn í lögin um heilbrigðisþjónustu og um Tryggingastofnun ríkisins að þar sé almennt útboðsákvæði fyrir hendi sem hægt er að grípa til þegar mönnum sýnist svo og bjóða út hvað sem er. Það er alveg ljóst að einhverjar loðnar yfirlýsingar um að menn séu að hugsa sér að nota þetta í þetta eða hitt í byrjun, þær halda lítið í þeim efnum.
    Það sem maður óttast auðvitað að hér liggi á bak við sé að frjálshyggjuhugmyndirnar um að einkavæða heilbrigðisþjónustuna að einhverju leyti í gegnum svona ákvæði séu hér að skjóta upp kollinum. Gamla Thatcher sé hér afturgengin. Og það eigi að leiða okkur á stefnumót við fortíðina í heilbrigðismálunum einnig. Fara að prufukeyra thatcherískar hugmyndir í heilbrigðismálum --- sem hafa leitt Breta í meiri ógöngur á því sviði en flestar aðrar þjóðir. Og ég held að það væri ástæða til þess að láta þá menn leggjast inn á breskt sjúkrahús í nokkra daga, sem langar til að fara þangað og sækja sér fyrirmyndir um rekstur heilbrigðisþjónustu. Ég legg því til að þessi útboðsákvæði, hvað sem öllu öðru líður í þessu frv., verði felld eða þeim hent út.
    Ekki er margt að segja um breytingarnar eða ákvæðin um lög um eiturefni og hættuleg efni og önnur sem á eftir koma eru minni háttar, að mínu mati, bæði varðandi skráningu fasteigna og Iðnlánasjóð.

    Þá er komið að hinum hefðbundna ,,þrátt-fyrir-kafla`` sem svo hefur heitið um árabil og gjarnan staðið í frv. til lánsfjárlaga. Því miður verður að segjast að þar er nú svipaður grautur í sömu skál og verið hefur um árabil og er það víst þannig að hendur flestra eru þar flekkaðar, að hafa gripið inn í ákvæði sérlaga um útgjöld til einstakra málaflokka með skerðingarákvæðum af þessu tagi. Ég ætla þess vegna ekki að segja að hæstv. ríkisstjórn beri þarna meiri sök en aðrir heldur deili hún henni með þeim sem á undan hafa gengið í flestum tilvikum. Hvað formið snertir a.m.k. er það svo, og mér finnst sjálfsagt að vera heiðarlegur í þeim efnum, að þar er því miður ekki um það að ræða að í fyrsta sinn sé gripið til slíkra aðferða. Það á hins vegar ekki við í öllum atriðum hvað innihaldið snertir og þar er að sjálfsögðu ástæða til að skoða hvern hlut fyrir sig í ljósi ríkjandi aðstæðna.
    Þar eru vissulega heldur dapurlegir hlutir á ferðinni í bland, svo sem smásmugulegur niðurskurður til ýmissa menningarliða. Nefni ég t.d. Menningarsjóð ríkisins, sem er ekki feitur göltur að flá en á nú samt að skerða um 6 millj. kr. Og ég hlýt að nefna 34. gr. þar sem hæstv. ríkisstjórn ræðst með harkalegum hætti á Framleiðnisjóð landbúnaðarins og sker hann niður um helming eða meira, jafnvel ríflega það, frá því sem lögbundin ákvæði búvörulaga gera nú ráð fyrir. Þetta er að sjálfsögðu að því leyti til verra en flest annað sem þarna er á ferðinni að í því felst í raun samningsrof af hálfu ríkisins. Þannig háttar til að framlög í Framleiðnisjóð landbúnaðarins, eins og þau eru samkvæmt gildandi lögum, eru hluti af og voru hluti af samningum ríkisvaldsins og bænda um ráðstafanir í landbúnaðarmálum sem miðuðu ekki síst að því að draga úr offramleiðslu hefðbundinna búvara og aðlaga framleiðsluna að þörfum innlends markaðar. Í staðinn lagði ríkisvaldið fram fé til stuðningsaðgerða í landbúnaðinum, fyrst og fremst í gegnum Framleiðnisjóð með búvörulögunum, ákvæðum í búvörulögum frá 1985 og síðari breytingum á þeim lögum. Ríkisstjórnin hefur sem sagt ákveðið að rjúfa þennan hluta þessa samkomulags með þessum hætti og mundi þó ýmsum sýnast að ekki væri síður þörf nú fyrir fjármuni til stuðningsaðgerða þeim miklu breytingum sem yfir ganga í íslenskum landbúnaði og strjálbýli um þessar mundir. Ég hlýt að harma að ríkisstjórnin velji þennan kost með þessum hætti og að hún skuli láta sveðjuna ganga svona djúpt, að taka í burtu meira en helminginn af fjármunum sjóðsins sem þýðir að ráðstöfunarfé hans á næsta ári verður hverfandi lítið þar sem talsverður hluti þess sem eftir stendur mun ganga til að greiða þegar tilfallnar skuldbindingar hjá sjóðnum. Þetta mundi heita á mannamáli að verið væri nánast að gelda Framleiðnisjóð landbúnaðarins og það er vissulega dapurleg niðurstaða í ljósi allra aðstæðna.
    Auðvitað mætti nefna þarna marga fleiri liði sem eru heldur illa leiknir. Ég nefni aðeins einn og það eru framlög til ferðamála. Undanfarin tvö, þrjú síðustu ár hefur tekist þrátt fyrir allt að þoka nokkuð upp á við framlögum ríkisins til Ferðamálaráðs eða öllu heldur minnka stuldinn á tekjum Ferðamálaráðs af hagnaði Fríhafnarinnar og hefur orðið veruleg raunaukning á þeim fjármunum sem Ferðamálaráð hefur haft handa á millum undanfarin tvö ár. Þetta er að mínu mati þeim mun dapurlegra sem það er nokkuð ljóst að ferðaþjónustan er einn fárra atvinnuvega, því miður, einn fárra atvinnuvega sem jafnt og þétt hefur vaxið undanfarin ár og árið 1991 verður væntanlega metár í þessum efnum þar sem gjaldeyristekjur íslensku þjóðarinnar af ferðaþjónustu fara eitthvað á tólfta milljarð kr. og er hún þar með líklega orðin þriðji eða fjórði stærsti gjaldeyrisaflandi landsins í hópi atvinnugreina. Auðvitað er dapurlegt ef við þurfum að búa þannig að okkar, ég vil nú ekki segja einu atvinnugrein, sem þó er í vexti og hefur ákveðna og nokkuð álitlega framtíðarmöguleika, að við þurfum að skera niður til hennar fjármagn. Það er samdóma álit allra sem til þekkja að það sé mikil þörf fyrir fjármuni í fyrirbyggjandi aðgerðir vegna aukins ferðamannastraums til landsins og það er satt best að segja dapurlegt að áform um að

auka þessar tekjur í áföngum, eins og menn höfðu sett sér í stefnumörkun á sviði ferðamála á tveimur sl. árum, skuli nú ganga til baka. Það verður í öllu falli ekki rökstutt með því að þar sé um að ræða einhvern fjáraustur, eins og hæstv. forsrh. er tamt að orða það, í einhverja botnlausa hít í gjaldþrota atvinnugrein. Það er ekki svo. Hér er fyrst og fremst um það að ræða hvort þjóðin hefur efni á því að leggja eitthvað lítils háttar af mörkum til þess að forða náttúru landsins frá skaða vegna vaxandi átroðslu erlendra ferðamanna og aukins fjölda þeirra ár frá ári. Hin hlið málsins er óumdeild, þarna er á ferðinni ein fárra vaxandi atvinnugreina sem skilar miklum og vaxandi verðmætum í okkar þjóðarbú.
    Ég lofaði hæstv. forsrh. að stríða honum ekki vegna þeirra ákvæða sem hann ræddi nokkuð, um eyðingu refa og minka, og ekki eru í þessu frv. að mér skilst en eru hins vegar í athugasemdum og þar eru boðaðar breytingar á þessu frv. Það mun ég að sjálfsögðu ekki gera og sé þá ekki ástæðu til að ræða það ákvæði úr því að það er væntanlegt inn í þingið í frumvarpi. Við munum þá bara gera það síðar þegar þar að kemur, svona eitthvað lítillega. En sá sem hér talar hefur stundum haft augu á þessu ákvæði og þó að ýmsum þyki þetta jafnvel efni til að hafa í flimtingum, þá er ekki endilega svo. Staðreyndin er sú að, ef um það er að ræða að færa greiðslubyrðina yfir á sveitarfélögin, þá lendir hún þar sem síst skyldi, eðli málsins samkvæmt, þar sem það eru víðlendustu og strjálbýlustu sveitahreppar landsins sem mesta greiðslubyrðina bera af þessari starfsemi. Þess vegna er ekki svo að t.d. sé hægt að velta miklum kostnaði við eyðingu refa og minka yfir á Borgarsjóð Reykjavíkur sem þyldi alveg að taka á sig nokkra aukningu. ( Gripið fram í: 12.000.) Já, 12.000 kr. Það er upplýst hér að útgjöld Reykjavíkurborgar hafi verið 12.000 kr. af þessum sökum á síðasta ári eða svo. Það mun að vísu vera eitthvað um svona kvikindi í Húsdýragarðinum en væntanlega er ekki ætlunin að útrýma þeim og þess vegna ekki líkur á því að mikil útgjöld falli á borgarsjóð í þessum efnum. En ég vil minna á þetta atriði og áskil mér rétt til að ræða það síðar þegar þar að kemur að hér koma inn í þingið ný ákvæði um skipan mála hvað varðar eyðingu refa og minka. Ég vona að unnið verði að undirbúningi þess máls af skynsemi og með tilliti til þess hvaða aðilar eiga þarna í hlut. Þá á ég ekki við hlutskipti minksins og refsins heldur sveitarfélaganna sem þurfa að taka á sig kostnaðinn af greiðslum í þessu sambandi.
    Herra forseti. Ég held að ég hafi þá nokkurn veginn tæmt þau efnisatriði sem ég ætlaði mér að ræða í þessari fyrri ræðu minni ef svo skyldi fara í umræðum um þennan bandorm, sem sumir hafa nú jafnvel kallað höggorm --- og vísa þá væntanlega til sögunnar um aldingarðinn Eden og hlutskipti höggormsins þar sem var ekki gott og leiddi ekki gott af sér eins og allir þekkja og þó. Óvíst er hvar við værum í dag ef þau hefðu ekki forðað sér úr aldingarðinum, forfeðurnir. --- En ég get ekki leynt því að mér finnst hér á ferðinni heldur dapurlegur vitnisburður um samhengisleysi hæstv. ríkisstjórnar hvað tök á efnahagsmálum snertir. Þetta frv. hefði í raun alls ekki átt að koma hér á dagskrá fyrr en og samtímis því --- og þá væntanlega í breyttu formi --- að ríkisstjórnin hefði náð einhverri niðurstöðu í viðleitni sinni til að taka á í efnahagsa- og atvinnumálum og gera þar ráðstafanir, og ekki fyrr en fyrir lægju niðurstöður um frekari áformaðan niðurskurð ríkisútgjalda á næsta ári, sem við hv. alþm. höfum því miður, a.m.k. þeir sem hér eru, eingöngu fregnað af í fjölmiðlum enn þá. Það er augljóslega tvíverknaður að vera að ræða um þessa hluti hér og nú, hafandi ekkert í höndunum um það sem væntanlegt er. Satt best að segja er það augljóslega svo, nú þegar kominn er --- gott ef ekki 6. des., herra forseti, það er a.m.k. eitthvað í nágrenni við það, að öll vinnan að fjárlögunum og öðrum efnahagsfrumvörpum hér inni er í fullkominni óvissu og uppnámi vegna stöðu mála. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna. Það er ekki ræðuhöldum eða þingskapaumræðum hér á Alþingi að kenna. Það er vegna þess að ekki hafa komið frá hæstv. ríkisstjórn þær niðurstöður og þeir hlutir sem þaðan eru þó boðaðir og sem við þurfum að fá til að geta tekið á þessum málum. Ég ímynda mér að það hljóti að vera alveg nákvæmlega eins inni í hv. fjárln. eins og það er í efh.- og viðskn. að í raun og veru hangi þessir hlutir allir í lausu lofti þangað til einhverjar niðurstöður fást í þessi efni og því fyrr sem það gerist því betra.
    Úr því að hæstv. ríkisstjórn velur engu að síður að láta þetta frv. koma til umræðu, og taka tíma í að ræða það hér á hinu háa Alþingi, þá er ekki að fást um það. Við teljum það væntanlega ekki eftir okkur, alþingismenn, að gera það. En augljóslega verður ekki meira að gert en að ljúka umræðu um þetta mál og senda það til nefndar. Þar hlýtur það að bíða þangað til hægt er að taka til við að vinna þessa hluti uns hæstv. ríkisstjórn hefur komið sér saman um einhverjar aðgerðir og ráðstafanir í efnahagsmálum, ef hún þá gerir það.