Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 16:26:00 (1675)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Á þessu hausti er Alþingi fyrst starfrækt í einni málstofu. Segja má að þær venjur sem upp verða teknar verði því mótandi fyrir störf þingsins á ókomnum árum og þess vegna má með sanni undirstrika að það er veruleg ábyrgð á stjórnendum

þingsins að innleiða þær venjur sem til fyrirmyndar mega vera en ekki þær sem vitlausastar gætu orðið í meðferð mála í þinginu og skal nú nokkuð leiða rök að.
    Hér er á dagskrá frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta frv. tekur til mjög margra málaflokka. Skv. 23. gr. þingskapalaga um vísun til nefnda segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi.`` --- Nú verður að sjálfsögðu mat þingsins hvort þetta mál sé þess efnis að þarft þyki að nefnd íhugi. Ef þingið kæmist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki skynsamlegt að nefnd mundi íhuga málið væru menn leystir frá öllum vanda því að þá þyrfti ekki að taka ákvörðun um það til hvaða nefndar bæri að vísa málinu. Ég á heldur von á því að menn telji að málið sé af þeirri stærð að skynsamlegt sé að vísa því til nefndar. Þá kemur í beinu framhaldi: ,,Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.``
    Nú vandast málið því að við blasir að hér eru margir málaflokkar samtímis og sumir þeirra verða varla með réttu vistaðir undir heiti frv. sem ber það nafn eins og fram hefur komið ,,Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992``. Sem dæmi um það má nefna það sem kemur á 2. bls. frv. um breytingar á lögum nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis. Þetta mál getur ekki fallið undir ríkisfjármál 1992 nema því aðeins að það sé ákveðið af ríkisstjórn nú þegar að hafa kosningar á næsta ári. --- Og nú brosir hv. þm. og hæstv. heilbrrh. þegar hann gengur fram hjá stólnum. Ég held nefnilega að það hljóti að vera mjög venjumyndandi hvaða ákvarðanir menn taka í þeim efnum hvernig þeir vísa málinu til nefndar.
    Mér er ljóst að á undanförnum árum eru þó nokkur dæmi um afleita frumvarpssmíð í þeim efnum að menn hafa verið að hrúga saman málum eins og frv. til laga um ráðstafanir í kjaramálum eru dæmi um, flutt á 111. löggjafarþingi. Ekkert frv. hefur þó gengið jafnlangt og það frv. sem hér er.
    Ég vil beina þeim tilmælum til forseta hvort hann vilji tjá þinginu hug sinn í þeim efnum, hvort hugsanleg sé sú sátt í málinu að vísað verði til fleiri en einnar nefndar því frumvarpi sem hér er og nefndir fari yfir málasvið þess í samræmi við anda þingskapanna, þ.e. að skipting Stjórnarráðsins í málefnahópa ráði hvert mál fari. Þetta á ekki að tefja málsmeðferðina, ætti að verða til þess að menn gætu stytt umræðu í þinginu og má ætla að fyrr ynnist málið í nefndum því að hver nefnd hefði minna yfir að fara. Að mínu viti væri þingið með þessu móti að mynda sér mjög skynsamlega hefð til frambúðar þegar það þarf að glíma við frumvarp af þessu tagi sem e.t.v. gæti orðið seinna en ég ætla engu að spá um.