Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 16:32:00 (1676)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
     ( KHG: Hefur þingflokksformaðurinn vit fyrir forseta?) Það vill nú þannig til, hv. þm., að þingflokksformenn hafa málfrelsi á við alla aðra þingmenn, um þingsköp jafnt sem annað. ( KHG: Forseti var spurður en ekki þingflokksformaðurinn.) Ég fæ nú ekki séð hvað þessum hv. þm. kemur við hvort ég er að taka til máls undir liðnum þingsköp, en ég ætlaði að leyfa mér að vekja athygli á því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur bent á athyglisvert atriði sem vissulega er ástæða til þess að gefa gaum.
    Ýmis fordæmi eru fyrir bandormum af þessu tagi eins og hann hefur bent á og það hefur þar skapast ákveðin venja. Hitt er annað mál að hin nýju þingsköp gefa færi á rýmri túlkun heldur en áður hefur verið. Ég veit ekki hvort hv. þm., sem vék máls á þessu hefur af því vitað, en það er áreiðanlega ekkert leyndarmál að það hefur komið fram á fundi formanna þingflokka frá hv. formanni þingflokks Alþb. ósk um að sú nefnd sem þetta mál fær væntanlega til meðferðar vísi einstökum málaflokkum til þeirra fagnefnda sem að öðru leyti gætu átt hlut að máli. Niðurstaðan varð sú að óska eftir því að hv. efh.- og viðskn., sem lagt er til að fái þetta mál til meðferðar, kanni hvort grundvöllur getur verið fyrir slíku og mér er kunnugt um það eftir samtöl mín við formann þeirrar nefndar, hv. þm. Matthías Bjarnason, að hann hefur fullan hug á því að standa þannig að afgreiðslu málsins.
    Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ég tel að þetta hafi verið fullkomlega réttmæt athugasemd hjá hv. þm. þó svo hún hefði e.t.v. frekar átt heima í umræðu um atkvæðagreiðslu þegar þar að kemur en inni í miðri efnisumræðu um málið.