Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 17:23:00 (1681)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. lét að því liggja áðan í sinni ræðu að sú stefna sem hann ræki í heilbrigðis- og tryggingamálum væri á margan hátt með svipuðu sniði og fyrri ríkisstjórn hefði haft. Ég held að þetta sé kannski sá málaflokkur þar sem skýrast kemur í ljós munurinn á stefnu þessara tveggja ríkisstjórna, ef frá eru talin atvinnumálin.

    Ráðherrann kvartaði mjög yfir samskiptum sínum við tannréttingasérfræðingana og ég ég skil það vel. Þeim kynntist ég á sínum tíma og þar er við erfið mál að eiga. Þeir sögðu sig undan samningi, eins og hann gat um, og síðan hefur sú deila staðið um hvernig ætti að útfylla eitt ákveðið eyðublað. Það er svo merkilegt að deilan snýst ekki um neitt annað en það hvernig þetta blessaða eyðublað, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur lagt til að þeir eigi að skila með sínum reikningum, skuli útfyllt. Heilbrrh. hefur auðvitað margar leiðir til þess að beita þessa menn þeim þvingunum sem þarf til þannig að þetta eyðublað verði útfyllt. Það er hann hins vegar uppgefinn við að gera og kemur það skýrt fram í 15. gr. þess frv. sem hér er til umræðu að með frv. er verið að hætta allri greiðsluþátttöku trygginganna í almennum tannréttingum. Það var alls ekki stefna fyrri ríkisstjórnar. Stefna fyrri ríkisstjórnar í þeim efnum og fyrri heilbrrh. var sú að flokka tannréttingarnar eftir mikilvægi og greiða 100% í þeim tilfellum þar sem um meðfædda galla eða um sjúkdóma væri að ræða en síðan yrði skekkjan flokkuð í ákveðna flokka og greidd í samræmi við það. Þarna er því um grundvallarbreytingu að ræða.