Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 12:18:00 (1702)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Herra forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. kom hér inn á tvö atriði sem hann vildi fá skýringar á. Annars vegar varðandi jarðalög. Um það er það að segja að eins og hv. þm. er kunnugt þá er uppi ágreiningur um það milli ríkisendurskoðanda og ríkislögmanns hver sé merking þess ákvæðis sem varðar jarðræktarstyrkina. Ríkislögmaður heldur því fram að tölur fjárlaga skuli vera afgerandi um þau atriði en á hinn bóginn telur Ríkisendurskoðun að í lögunum séu skuldbindandi ákvæði fyrir ríkissjóð.
    Í því frv. sem hér um ræðir er einungis gert ráð fyrir því að taka af vafa í þessum efnum. Málsgreinin er svohljóðandi:
    ,,Allur réttur til að framlaga samkvæmt lögum þessum er háður fjárveitingu Alþingis.`` Það er óhjákvæmilegt að Alþingi skeri úr þessum ágreiningi sem er milli framkvæmdarvaldsins og Ríkisendurskoðunar. Það er enginn annar aðili í landinu sem getur gert það. Og það er skoðun mín og ríkisstjórnarinnar að það sé eðlilegt að Alþingi ákveði hversu miklum fjármunum það vill verja til þessa verkefnis á hverju ári og síðan verði auðvitað að taka þá ákvörðun til endurskoðunar fyrir hver fjárlög en ekki að hafa hinn háttinn á eins og tíðkaðist hér fyrir einu ári að ætla of lágum fjárhæðum til þessara verkefna eins og fram kemur í frv. til aukafjárlaga þar sem gert er ráð fyrir 35 millj. kr. aukafjárveitingu til jarðræktarframlaga.
    Um hitt atriðið, Framleiðnisjóð, er það eitt að segja að vegna þess að þau kerfi tvö skarast, hið gamla og hið nýja, eftir hinum gamla búvörusamningi og hinum nýja, fellur óeðlilega mikið af útgjöldum á ríkissjóð á næsta ári. Samkvæmt hinum nýja búvörusamningi á að taka upp beingreiðslur til bænda 1. mars nk. en fella niður niðurgreiðslur. En samkvæmt hinum fyrri búvörusamningi var sá háttur hafður á að fjárveitingunum ríkisins til lækkunar á kindakjöti var varið til niðurgreiðslna. Í hinum nýja búvörusamningi er fitjað upp á ýmsu öðru sem bændur og forveri minn töldu að gæti orðið til hagræðis fyrir bændur. Á meðan kerfin tvö skarast þótti mér eðlilegt að Framleiðnisjóður tæki þátt í þeim hagræðingaraðgerðum sem búvörusamningurinn felur í sér, sem er auðvitað í samræmi við tilgang hans og í samræmi við ráðstöfun fjárins áður. Um þessi bæði atriði var rætt við samtök bænda þannig að þeim var kunnugt um þessi atriði. Ég skil á hinn bóginn vel að forustumenn bænda skuli halda sjónarmiðum bændastéttarinnar fast fram og reyna að gæta hagsmuna þeirra til hins ýtrasta og kannski meira en góðu hófi gegnir stundum. Þetta eru þær eðlilegu skýringar sem eru á þessu.
    Varðandi jarðræktarstyrkina, að ákvörðun Alþingis hverju sinni skuli gilda um fjárveitingar í þessu skyni sem öðrum. Sú þrönga staða sem ríkisfjármálin eru í núna er auðvitað vegna þess að það hefur verið eytt langt umfram þær heimildir sem Alþingi veitti til útgjalda úr ríkissjóði á síðasta ári og framkvæmdarvaldið hefur haldið sínu striki hvað sem hefur liðið vilja Alþingis hverju sinni, sem auðvitað gengur ekki.
    Það er ekki hægt að halda áfram með þeim hætti að slá útgjöldum eilíflega á frest. Það er einfaldlega stefnubreyting í þeim efnum og það er skýringin á þessum tveim atriðum.