Almannatryggingar o. fl.

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:11:00 (1730)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Það eru tvær spurningar sem ég vil bera fram við hæstv. ráðherra. Ég vil þakka honum góð svör áðan. Fyrri spurningin er þessi: Hefur þessi tilfærsla á 10. gr. verið rædd við Sjálfsbjörg, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp? Er þetta gert í samráði við þessa aðila? Í öðru lagi held ég að ég hafi skilið það rétt sem fram kom í máli ráðherrans, ef svo er þá líst mér vel á fyrirkomulagið sem hann lýsti, að það verði sem sagt Tryggingastofnun ríkisins eða tryggingayfirlæknir þeirrar stofnunar sem sjái um hið faglega mat á örorkunni en tillögur um umönnunarþörf komi frá svæðisstjórnunum. Þetta held ég að eðlilegt sé að gera með þessum hætti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að í frv. því sem fyrrv. heilbrrh. lagði hér fram í þinginu er gert ráð fyrir því að barnaörorkan félli niður.
    Á þeim tíma er við vorum að endurskoða þessi lög komum við ekki auga á annað en að umönnunarbæturnar tækju að fullu allan þann bótarétt sem barnaörorkan hefur haft fram undir þetta. Nú kann vel að vera að það hafi ekki verið nógu nákvæmlega skoðað á sínum tíma. Eftir á að hyggja kann það að vera skynsamlegt að halda þessu ákvæði í 12. gr. inni í frv. og ekki síst ef ekki verður orðið við þeim óskum sem ég setti fram áðan um að uppihaldsstyrknum og ferðakostnaðarreglunum verði breytt getur verið mikilvægt fyrir hæstv. ráðherra að hafa heimild í lögum til að greiða uppbætur á umönnunarbæturnar í gegnum barnaörorkuna. Þá á ég við að oft verða aðstandendur þessara barna fyrir verulegum aukakostnaði, vegna þess krankleika sem hrjáir barnið, vegna lyfjakostnaðar, ferðakostnaðar og annars slíks. Hefði ráðherrann þarna heimild til uppbóta ef hann vildi hafa það inni í lögunum.
    Ég sagði áðan að ég teldi að það yrði ekki mjög kostnaðarsamt fyrir ríkið að verða við þeim óskum sem fram koma í frv. okkar framsóknarmanna. Mér sýnist að ferðakostnaðarútgjöldin, á verðlagi ársins 1990, gætu orðið um 15 millj. kr. og uppihaldsstyrkurinn gæti orðið á fyrsta og öðru ári 50 millj. kr. eða útgjöld upp á u.þ.b. 65 millj. kr. En þetta er nú reyndar á verðlagi ársins 1990 og hefur sjálfsagt eitthvað hækkað síðan.
    Að lokum þetta: Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með þetta mál inn í þingið. Ég segi að það nær of skammt en það horfir þó til bóta að því leyti til að ég tel mikilvægt að samræma þennan rétt. Aðstandendur og þau börn sem fá greiðslu samkvæmt 10. gr. búa við mikið óöryggi af þeirri ástæðu að 10. gr. í málefnum fatlaðra nær alls ekki yfir kostnað við þennan hóp, heldur var það barnaörorkan sem er í
kringum 9.000 kr. á mánuði á meðan greiðsla skv. 10. gr. er 47.110.