Almannatryggingar o. fl.

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:15:00 (1731)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Út af fsp. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur vil ég taka fram að í flestöllum ef ekki öllum tilvikum held ég að menn hafi þurft að bæta verulegum fjárhæðum við þær áætlanir sem gerðar hafa verið um greiðslu bóta skv. 10. gr. um málefni fatlaðra. Þar hafa lagaákvæðin um bótagreiðslurétt eða bótagreiðsluheimild ráðið niðurstöðunni en ekki áætlun fjárlaga. Það er gert ráð fyrir því að sá kostnaður sem var vegna 10. gr. um málefni fatlaðra verði allur færður yfir á Tryggingastofnun ríkisins í umönnunarbótaflokk. Hvort þar er áætlað mikið eða lítið er sjálfsagt að skoða, hvort menn telja að áætlunin samræmist þörfinni eða ekki. Auðvitað er alveg ljóst að það eru ákvæðin í þeim lögum sem verið er að óska eftir að sett verði sem koma til með að ráða fjárhæðinni, hvaða áform eða áætlanir sem menn eru með í fjárlögum. Síðan verður auðvitað um að ræða viðbótarkostnað ef menn halda barnaörorkunni áfram þrátt fyrir umönnunarbæturnar. En eins og hv. þm. Finnur Ingólfsson benti á áðan þá held ég að það sé ekki nokkur lífsins leið að áætla slíkan kostnað fyrir fram því hér yrði þá um að ræða heimildarákvæði til ráðherra eða öllu heldur til Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur þ.e. um viðbótargreiðslur umfram umönnunarbæturnar sem ómögulegt er að gera sér grein fyrir nú hverjar gætu orðið.