Aukatekjur ríkissjóðs

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:55:00 (1739)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það er skynsamleg ráðstöfun að flytja frv. til laga þar sem sértekjur ríkisins eru ákveðnar með lagasetningu af hálfu Alþingis. Ég vil þess vegna lýsa yfir stuðningi við þá leið sem hér er farin, tel að hún sé til mikilla bóta. Ég tel það hafi verið á ýmsan hátt erfitt fyrir einstaka ráðherra að hafa þetta vald í sínum höndum eins og verið hefur á undanförnum árum. Ég vil þess vegna mæla með því að þetta frv. verði afgreitt.
    Ég get hins vegar ekki sillt mig um það að rifja aðeins upp að þegar ég sem fjmrh. hækkaði ýmis af þeim gjöldum, sem nú er lagt til að verði staðfest, gagnrýndi Sjálfstfl. það mjög harkalega bæði innan þings og utan. Hann fer þess vegna stækkandi sá hópur fyrri yfirlýsinga Sjálfstfl. sem fellur marklaus þegar hann hefur tekið við ríkisfjármálunum. Ég ætla sér ekki að gera stórt mál úr því. Það er bara eins og annað sem Sjálfstfl. sagði í stjórnarandstöðu og dregur núna til baka þegar hann er kominn í ríkisstjórn, eitt í dag og annað á morgun, þessa skoðun utan stjórnar og aðra skoðun innan stjórnar.
    Hins vegar kannski rétt í nefndinni að fara yfir einstaka þessara liði sem þarna eru en ég sé ekki ástæðu til þess að víkja að því hér en beini því til nefndarmanna að líta yfir það. Að öðru leyti vil ég lýsa almennt yfir stuðningi við þá meginhugsun sem í þessu frv. felst og óska fjmrh. til hamingju með að vera kominn í hóp okkar hinna raunsærri manna, hættur þessum óábyrga málflutningi sem hann tíðkaði í stjórnarandstöðunni.