Aukatekjur ríkissjóðs

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:01:00 (1741)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. sem tóku til máls við þessa 1. umr. fyrir þeirra undirtektir. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykn. að það var ákaflega oft gagnrýnt þegar viðkomandi ráðherrar tóku sig til og hækkuðu gjöld þegar um var að ræða sum gjöld en ekki önnur. Má t.d. benda á að síðasti fjmrh. gerði skurk í þessum málum á sínum tíma og hækkaði nokkur gjöld en hvarf síðan að sumu leyti frá því aftur vegna gagnrýni sem kom fram. Ég er sammála hv. 8. þm. Reykn. um það að áreiðanlega er betra að þessi ákvæði séu í lögum enda er þessi gjaldtaka á mörkum þess að vera skattheimta jafnvel þótt hún sé gjaldtaka fyrir tilteknar aðgerðir af hálfu hins opinbera. Ég man t.d. eftir því að almennt lækningaleyfi var hækkað en síðan lækkað aftur og hefur það auðvitað vakið upp spurningar um hvaða rök séu fyrir upphæðunum í þessu frv. og reyndar á sama hátt í þeim reglum sem giltu áður en þetta frv. var smíðað. Það eru ekki stórkostlegar breytingar gerðar á upphæðum á aukatekjum, sérstaklega leyfisgjöldum í þessu frv.
    Ef ég ætti að reyna að setja þetta í kerfi dettur mér helst í hug að það hafi þróast í gegnum tíðina á þann hátt, og sný ég mér þá að fyrirspurn hv. 18. þm. Reykv., að þeir háskólamenn sem hafa tækifæri til þess að sinna störfum með frjálsum hætti og ráða kannski vinnutíma sínum virðast greiða hærri gjöld en aðrir. Nú á það alls ekki við um verkfræðinga eða tæknifræðinga og skýringin á því að þeirra gjöld eru lægri en t.d. tannlækna er eingöngu sú að gjaldtaka fyrir verkfræðinga og tæknifræðinga var ákveðin í öðru ráðuneyti, í iðnrn. hygg ég, og gjaldtakan var, ef ég man rétt 1.500 kr. eða 2.500 kr., og til samræmis við aðrar stéttir eru þessi gjöld hækkuð talsvert umfram annað í þessu frv. Þetta er skýringin en ég skal viðurkenna að mér verður heldur þungt um mál og erfitt tungu að hræra þegar ég er beðinn um að skýra rökin í þessu frv. og reyndar um leið í þeim reglum sem gilda nú.
    Það sem einna helst breytist er að lægsta upphæðin er heldur hækkuð en lægstu upphæðirnar, sem fara eiginlega niður úr lágmarkinu, eru leyfisgjöld þar sem er um að ræða bráðabirgðaleyfi eða takmörkuð leyfi með einhverjum hætti, t.d. undanþágur ýmiss konar. Hins vegar er ekkert hreyft við upphæðum sem eru hæstar enda voru þær hækkaðar verulega í tíð síðasta ráðherra, hv. 8. þm. Reykn., eins og hann kom svo glögglega til skila í sínu máli. Það er ástæðan fyrir því að ákveðið var að hækka ekki þær upphæðir en taka frekar á þeim lægri enda er þar um að ræða talsverðan fjölda og gefur út af fyrir sig meira í aðra hönd.
    Annað, sem ekki hefur verið rætt í þessari umræðu, eru dómstólagjöldin. Þar er aðeins verið að fylgja þeirri stefnu sem kemur fram í frumvörpum sem þegar hafa verið flutt, bæði fjárlagafrv. og frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt. Þar er í sumum tilvikum um verulegar hækkanir að ræða en þó skýrir frv. ekki þá hækkun sem kemur fram í fjárlagafrv. að fullu vegna þess að jafnframt er um að ræða tilfærslur á tekjum sem áður voru hjá vissum embættum, aðallega sýslumannsembættum en færast nú í ríkissjóð. Það er skýringin á þessum mun sem kemur fram á tekjum eða tekjuauka samkvæmt þessu frv. miðað við það sem gildir í dag og upphæðinni sem er í fjárlagafrv.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að dvelja lengur við þetta frv. Ég vænti þess, og ekki síst eftir þessar góðu undirtektir, að frv. fái góðan og greiðan gang í gegnum þingið.