Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:33:00 (1745)

     Guðni Ágústsson :
     Hæstv. forseti. Ég vil með örfáum orðum leggja áherslu á að þetta frv. fái þinglega meðferð og menn átti sig á því hversu stórt og mikilvægt mál er hér á ferðinni. Það er sannfæring mín, eins og sést hér hversu margir hafa lagt lið fyrsta flm. þessa frv. Ég held að menn verði að átta sig á því að íþróttirnar, og kannski ekki síst afreksmannaíþróttir, hafa mikil áhrif bæði með þeim hætti að ná fjöldanum af stað og ég er í engum vafa um að afreksmenn í íþróttum eru leiðtogar í starfi. Þeir eða þær, sem þeim fágæta árangri ná að vera í fremstu röð í sinni íþróttagrein í heiminum, hafa mikil og heillavænleg áhrif á líf og lífsviðhorf barna og unglinga. Þessa verður gjarnan vart, þegar slíkt gerist að einhver Íslendingur nær langt í sinni grein, þá fer af stað mikil hreyfing í íþróttahúsunum.
    Það má segja að afreksmaðurinn sé kyndilberi sem með iðni sinni og afrekum hleypir lífi og fjöri í starfsemi áhugamannafélaganna um allt land. Íþróttaæska þessa lands er vel varin gegn mörgu því sem nú ógnar okkar samfélagi mest. Sá unglingur sem ekki eignast áhugamál eða ver tómstundum sínum vel verður fremur fórnarlamb óreglunnar. Íþróttahúsin, sundlaugarnar og íþróttavellirnir eru bestu samkomustaðirnir í hverju bæjar- eða sveitarfélagi. Í slíkum mannvirkjum er fólgin mikil trygging fyrir forráðamenn barna og unglinga.
    Afreksmaðurinn sem jafnvel árum saman hefur varið frítíma sínum í sína íþróttagrein og nær langt á heimsmælikvarða kallar oft, eins og ég sagði áðan, með afreki sínu hundruð eða þúsundir barna og unglinga inn í þessi mannvirki til þjálfunar og þátttöku í hollu félagsstarfi.
    Ég gæti nefnt ótalmörg nöfn afreksmanna í íþróttum en þegar þeir koma á samkomur sér maður að börnin og unglingarnir þyrpast að þeim til að fá eiginhandaráritun, til þess að dást að afrekum þeirra og heita því í foreldrahúsum og hvar sem er að þau muni feta í fótspor þessara miklu íþróttamanna. Því er það svo að í þjóðfélagi okkar höfum við kannski ekki áttað okkur nógu vel á því að við þurfum að leggja þessum leiðtogum lið því þeir eru að ryðja brautina fyrir þúsundir barna og unglinga til þess að snúa sér að hollu áhugamáli. Því held ég að þetta frv. hér, sem ekki er nú stórt í sniðum eða lætur mikið yfir sér, gerir aðeins ráð fyrir að í stofnsjóð muni renna sem nemi fernum árslaunum háskólamenntaðra kennara. Það er ekki stórt þegar maður hugsar um að á sl. tíu árum hafi ríkisstarfsmönnum fjölgað um tvo heila starfsmenn hvern dag sem líður. Við þurfum að átta okkur á mikilvægi íþróttanna og segja sem svo: Þessa kyndilbera verðum við að styrkja því að þeir forða börnunum frá hættunni sem er á veginum fram undan.     Ég er sannfærður um að á mörgum sviðum gætum við lagt slíkum sjóði meira til, sparað á öðrum sviðum eins og hér hefur verið sagt ef menn vilja fá tekjur á móti þegar menn skapa útgjöld. Mér skilst að ráðstefnurnar sem verið er að halda hér á Hótel Borg og Hótel Sögu kosti frá 3 og upp í 5 millj. kr., þannig að það er fljótt að hlaupa á upphæðum og kannski auðvelt að spara ferðalög og ráðstefnur og setja fremur í sjóð til að styrkja efnilega íþróttamenn sem sannarlega liggur fyrir að hafa mjög heillavænleg áhrif á börn og unglinga.

    Ég vænti þess að sú nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, ræði við marga aðila í þjóðfélaginu um þetta mikla mál og að þetta þing taki ákvarðanir í þeim efnum. Það er enginn vafi á því að margir okkar efnilegustu íþróttamenn hafa gefist upp fyrir þeim erfiðleikum sem fylgja því að standa í baráttunni stuðningslitlir og horfið af vettvangi þess vegna ótímabært. Því held ég að slíkur sjóður gæti ýtt undir að enn fleiri Íslendingar muni ná langt í íþróttum á heimsmælikvarða.