Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 21:23:00 (1756)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Þetta frv. lýsir vilja til að lækka vexti en því miður er ekki hægt að taka viljann fyrir verkið. Ég lýsi satt að segja furðu minni á því að hv. 7. og 8. þm. Reykn. skuli bera fram svona valdboðsfrumvarp á okkar tímum. Í þessu frv. felst að mínu áliti afturhvarf til fortíðar, stjórnarhátta sem allar þjóðir, sem við höfum samgang við, hafa sagt skilið við.
    Enginn ágreiningur er um það að æskilegt er að vextirnir lækki. En það má ekki líta fram hjá hlutverki vaxtanna sem verðs á fjármagnsmarkaði sem verður að spegla raunverulegar aðstæður og ekki síður beina fé til arðvænlegra verkefna. Ég tel að þetta hlutverk vaxtanna sé vanrækt í þessu frv. eða fram hjá því litið.
    Mikið hefur verið lagt út af vaxtaþróun líðandi árs og reyndar síðustu ára hjá frummælanda, hv. 7. þm. Reykn. og líka hv. 8. þm. Reykn. Lítum nánar á þessa þróun. Vaxtaþróunin á þessu ári hefur einkennst af þrennu. Í fyrsta lagi voru nafnvextir af óverðtryggðum ríkisvíxlum og skuldabréfalánum banka í lægra lagi á fyrstu mánuðum ársins, bæði miðað við verðlagsþróun og ástandið á lánamarkaðinum. Ég nefni sem dæmi að á öðrum fjórðungi þessa árs var raunávöxtum á skuldabréfalánum bankanna að meðaltali um 3% að mati Seðlabanka Íslands samanborið við 8,5% vexti af verðtryggðum skuldabréfalánum á sama tímabili.
    Í öðru lagi var raunávöxtun spariskírteina ríkissjóðs og raunvextir verðtryggðra lána hækkuð um nálægt 2% um mitt árið. Þetta gerðist eins og menn muna m.a. með því að ríkið lagaði sína vexti að öðrum verðbréfavöxtum. Nafnvextir óverðtryggðra skuldbindinga voru líka hækkaðir til samræmis við þessa hækkun á raunvaxtastiginu. Þetta raunvaxtastig hefur haldist síðan.
    Ég nefni svo í þriðja og síðasta lagi, í þessari stuttu lýsingu á því sem á dagana hefur drifið í vaxtaþróun, öra lækkun á nafnvöxtum óverðtryggðra skuldbindinga frá byrjun október samhliða mikilli hjöðnun verðbólgunnar. Bankarnir hafa lýst því yfir að þessir vextir muni halda áfram að lækka á næstu vikum.
    Þetta eru þrjú megineinkennin á vaxtaþróun ársins. Það er spá Seðlabankans um vextina fyrir árið í heild að raunvextirnir verði lítillega hærri en á síðasta ári, 1990, en ekki eins háir og árið 1988 þegar þeir fóru hæst. Þannig telur Seðlabankinn að skuldabréfalán bankanna verði að meðaltali með raunvexti um 9,1% samanborið við um það bil 8% á liðnu ári, 7,8% árið 1989 og 9,2% árið 1988. Ef við lítum svo á raunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfalána bankanna, er hún nú talin verða um 9,9% á þessu ári samanborið við 9,1% í fyrra, 4,7% árið 1989 og 11,8% árið 1988. Þetta er sannari lýsing á raunvöxtum, eins og þeir hafa verið í reynd fyrir íslensk fyrirtæki, en tala sem er miðuð við einhvern einn dag í nóvember eins og gert er í frv. eða athugasemdum með því og hv. frummælandi, 7. þm. Reykn., lýsti í sinni framsöguræðu.
    Athyglisverðasta talan í töflunni, sem hann vitnaði til í athugasemdum frv., er reyndar að mínu áliti verðbólgustigið sem þar er sýnt, 1,5%. Það er sú tala sem vextirnir munu nú miðast við ef við náum skynsamlegum kjarasamningum.
    Virðulegi forseti. Þessar tölur sem ég hef rakið og reyndar líka tölur um þróun vaxta innan ársins sýna glöggt að raunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfalána hefur sveiflast allt of mikið, óeðlilega mikið, samanborið við raunvextina af verðtryggðum lánum. Og ef við lítum enn á þróunina á þessu ári sjáum við að raunávöxtun óverðtryggðra skuldbréfa er um 12,1% á þriðja fjórðungi ársins. Það er spá Seðlabankans að þessi tala verði hvorki meira né minna en 13,9% á síðasta fjórðungi ársins. Þetta eru allt of háir vextir. Þessar sveiflur stafa annars vegar af því að við breytingar á vöxtunum hafa bankarnir ekki fylgt verðlagsþróuninni nákvæmlega eftir þar eð tregða er innbyggð í vaxtamyndunarkerfið, reyndar samkvæmt lögmáli fákeppni á markaði, eins og hv. 8. þm. Reykn. vék hér að, og svo hins vegar af mjög sveiflukenndri verðbólgu. Ég tel hins vegar góðar líkur á að takist okkur að tryggja áframhaldandi stöðugleika í verðlagsmálum verði þessar miklu og óæskilegu sveiflur í nafnvöxtunum og reyndar í raunávöxtun óverðtryggðra skuldbindinga úr sögunni. Þetta er hið æskilega markmið.
    Flm. frv. hafa réttilega bent á mikilvægi frumkvæðis ríkisins í vaxtamálum. En þeir hafa haldið því fram að vaxtahækkanir á ríkisvíxlum og ávöxtun spariskírteina ríkissjóðs, sem ákvarðanir voru teknar um skömmu eftir að núv. ríkisstjórn tók til starfa í vor, hafi haft lítil sem engin áhrif áhrif á söluna og einungis skrúfað upp vextina hér. Þetta er alls ekki rétt. Ég bendi hv. þm. á að í maíbyrjun var innlausn spariskírteina ríkisins á árinu umfram sölu þeirra komin í rúmlega 900 millj. kr. Á sama tíma hafði útistandandi fjárhæð ríkisvíxla lækkað úr um það bil 8 milljörðum í upphafi ársins og hafði reyndar farið enn hærra um haustið í 12--13 milljarða niður í 4,8 milljarða eða um 3,2 milljarða í lækkun á þessum 4 mánuðum. Þarna var því úr vöndu að ráða og sér hver maður að við svo búið mátti ekki standa ef takast átti að afla ríkissjóði einhvers fjármagns á innlendum lánsfjármarkaði.
    Það er miður að hv. 8. þm. Reykn., fyrrv. fjmrh., getur ekki hlýtt á þennan hluta ræðu minnar en við það verður að búa. Auðvitað brást fjmrh. Friðrik Sophusson við eins og aðrir aðilar sem stunda viðskipti á markaði. Hann bauð betri kjör, hann lækkaði verðið, með öðrum orðum hann hækkaði vextina. Ég tel að reynslan hafi sýnt að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Sala spariskírteina á árinu er nú nokkuð umfram innlausn og sala á ríkisvíxlum hefur glæðst það mikið að útistandandi fjárhæð þeirra hefur hækkað í rúmlega 10 milljarða kr. Og menn skyldu athuga að það er talsvert mikil velta í þessum pappírum og þess vegna þarf að halda trú á það verð sem boðið er á markaðnum til þess að ná upp hærri stöðu en áður var og halda henni.
    Ég vildi líka benda á að það hefur auðvitað fleira orkað á sölu þessara skuldaviðurkenninga heldur en vextirnir einir, eins og réttilega hefur verið bent á, m.a. af hv. flm. 7. þm. Reykn., þ.e. tekjurnar í samfélaginu, veltan, umsvifin, allt hefur þetta sín áhrif. Spurningin sem svara þarf er þannig ekki hvers vegna þessar sölutölur hækkuðu ekki með vaxtahækkuninni, eins og menn hefðu kannski getað gert ráð fyrir, heldur hver hefði talan ella orðið ef vöxtum hefði ekki verið breytt.
    Annar flm. þessa frv., hv. 8. þm. Reykn., var fjmrh. í síðustu ríkisstjórn. Þá beitti hann sér fyrir því, og lagði mikla áherslu á það, að ríkissjóði skyldi afla lánsfjár á innlendum markaði í stað þess að taka lán í útlöndum. En til að það tækist þurfti ríkissjóður auðvitað að laga sig að markaðsaðstæðum og bjóða þau kjör á ríkisvíxlum og spariskírteinum sem þurfti til þess að tryggja sölu þessara verðbréfa. Það gerði hv. 8. þm. Reykn. sem þá var fjmrh. og fór upp og niður, reyndar oftast upp á þessu ári sem við erum að ræða hér, árinu 1990 og fyrri hluta árs 1991, til þess að tryggja þessa sölu. Þetta kallaði hann þá ekki vaxtaskrúfu. Það geri ég ekki heldur. Það næst ekki árangur með öðrum hætti en þeim að beita þessum aðferðum. Ég veit að hv. 8. þm. Reykn. skilur þetta vel þótt hann kjósi nú að halda öðrum sjónarmiðum á lofti. Af orðum þingmannsins nú mætti þó e.t.v. ráða að vaxtastigið á ríkisverðbréfunum skipti ekki höfuðmáli heldur hver það væri sem seldi pappírana. Svo frjálslega lýsti hann árangrinum við sölu skuldabréfa ríkisins í fjármálaráðherratíð sinni.
    Ég var þar í ræðu minni, virðulegi þingmaður, að ég lýsti því að hv. 8. þm. Reykn., sem þá var fjmrh., hafi lagt mikið upp úr því að afla ríkissjóði lánsfjár á innlendum markaði og ekki hikað við að taka þær ákvarðanir sem taka þurfti til þess að lækka verðið á vörunni sem selja skyldi, skuldabréfum ríkisins, þ.e. hækka vextina. Þannig hafi líka náðst

nokkur árangur þótt nokkuð hafi líka verið slöku við slegið á fyrstu mánuðum ársins 1991 þannig að staða ríkisvíxla var komin hættulega lágt um mánaðamótin apríl/maí og reyndar tregða í sölu ríkisskuldabréfa síðustu vikur þessa tímabils.
    Í athugasemdum með frv., sem við ræðum nú, er gerður samanburður á raunvöxtum á Íslandi og raunvöxtum í öðrum löndum. Það er ályktun flm. að raunvextir á Íslandi hafi um nokkurt skeið verið mun hærri en erlendir raunvextir og því þurfi að lækka raunvexti á Íslandi með valdboði. Það gefur auga leið að samanburður af þessu tagi er ákaflega vandasamur. Hann verður það ávallt. Í fyrsta lagi vakna spurningar um það hvaða lönd eigi að bera saman. Í öðru lagi er í samanburði af þessu tagi ekki tekið neitt tillit til mismunandi efnahagsaðstæðna í þeim löndum sem borin eru saman, hvorki hvað varðar almennt ástand efnahagsmála né ástand og uppbyggingu skipulags á fjármagnsmarkaði.
    Í greinargerð Seðlabankans frá 4. des., um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum, kemur hins vegar fram --- og það vil ég að komi fram í þessari umræðu --- að þegar bornir eru saman vextir af verðtryggðum skuldabréfalánum banka á Íslandi og raunvextir þeir, sem helst eru sambærilegir í öðrum löndum, kemur í ljós að raunvextir hér á landi eru ekki að marki frábrugðnir því um þessar mundir sem gerist á öðrum Norðurlöndum og í hinum smærri Evrópuríkjum. Víða erlendis hafa menn reyndar kosið að búa fremur við háa raunvexti en hverfa frá vaxtafrelsi og markaðsbúskap. Dæmi um þetta má finna í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Auðvitað eru ekki allar breytingar og þróun í þessum löndum jafnlukkulegar. En þó tel ég það yfir allan vafa hafið að enginn í þessum löndum vill hverfa að valdstýringu vaxta á ný.
    Ef við lítum svo hins vegar á raunávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa og berum hana saman við raunvextina erlendis kemur fram nokkuð önnur mynd í þessari andrá. Niðurstaðan af þeim samanburði er sú að nafnvextir á Íslandi séu í hæsta lagi um þessar mundir og afar mikilvægt að mínu áliti að þeir lækki hratt á næstu vikum samfara hjöðnun verðbólgunnar. Þetta er jafnmikið hagsmunamál fyrir atvinnufyrirtækin sem og almenning. Ég legg hins vegar á það mjög mikla áhersu eins og reyndar hefur komið hér fram í máli annarra ræðumanna að handaflið, og þá á ég við í merkingunni bein íhlutun af því tagi sem þetta frv. felur í sér, á ekki við. Vextirnir þurfa að lækka með frjálsum ákvörðunum og það er mín skoðun að þeir muni gera það á næstunni ef okkur tekst að halda þannig á ríkisfjármálum og kjaramálum sem tryggir þann árangur. Í því sambandi er mjög mikilvægt að það ríki trúnaður og trú á því að sá stöðugleiki í verðlagi og launum, sem er að nást um þessar mundir, haldist næstu missirin. Þetta, virðulegi 8. þm. Reykn., er lykilatriði á sama hátt og lækkun vaxta er lykilatriði. En það er einmitt með betra jafnvægi í ríkisfjármálum og frekari opnun íslenska fjármagnsmarkaðarins að raunhæfar forsendur skapast fyrir raunverulegri lækkun raunvaxta.
    Vegna orða hv. 7. þm. Reykn. vil ég taka það mjög skýrt fram að það er misskilningur að Bush forseti Bandaríkjanna hafi lækkað vextina þar í landi með valdboði, handafli. Þeir hafa verið lækkaðir með markaðsaðgerðum. Það má deila um þær aðgerðir eins og flest mannanna verk en þeir hafa ekki verið þvingaðir niður með stjórnvaldsfyrirskriftum. Það sem hér þarf að gerast er að við þróum markað sem leyfi slíkar aðgerðir til þess að koma fram stefnumálum stjórnvalda í vaxtamálum.
    Af því sem ég hef þegar sagt, virðulegi forseti, má að sjálfsögðu ráða að minn ágreiningur er ekki við markmið þessa frv. Minn ágreiningur er heldur ekki að marki við sumt í greiningunni á aðstæðum á íslenskum fjármagnsmarkaði og þá á ég ekki síst við það sem hv. 8. þm. Reykn. sagði hér um fákeppnina. Nei, það er meginhugsunin í þessu frv. sem er athugaverð. Pólitísk fjármagnsstýring heyrir sögunni til. Ef menn ætla að halda vöxtunum undir jafnvægisstigi verða þeir líka að vera viðbúnir því að skammta fjármagnið. Það

tel ég að við séum ekki og ég tel að það séu hv. flm. þessa frv. reyndar heldur ekki sjálfir. Ég segi það af því að frv. ber það mjög greinilega með sér að nokkurt hik er á þeim félögum sem þetta frv. flytja, þeim hv. 7. og 8. þm. Reykn. Þeir hafa hér komið fram með eins konar bráðabirgðafrv. Frv. gerir sem sé ráð fyrir beinum afskiptum af vöxtunum en aðeins í eitt ár þar til erlendrar samkeppni fer að gæta á innlendum markaði. Þetta væri líkast því að Austur-Evrópuþjóðirnar hefðu reynt að réttlæta herta skömmtun, miðstýringu og millifærslur með því að það væri stefnt að markaðsbúskap hvort sem væri innan árs. Þessi rök halda ekki vatni. Ég tel þess vegna að í frv. sé tillaga um að ráðast á einkenni meinsins en engin tilraun gerð til þess að grafast fyrir um ræturnar. Til að ná fram varanlegri lækkun raunvaxta þarf að mínu áliti tvennt til að koma, annars vegar að dregið verði úr lánsfjárþörf ríkissjóðs. Þetta undirstrika reyndar hv. 8. þm. Reykn. og hv. 18. þm. Reykv. Og hins vegar að íslenski fjármagnsmarkaðurinn verði opnaður enn frekar en þegar hefur verið gert og skilyrði sköpuð fyrir óheftri samkeppni innan lands líka. Ríkisstjórnin hefur að undanförnu unnið að því ötullega að draga úr lánsfjárþörf ríkisins og hún mun líka minnka verulega á næsta ári.
    Ríkisstjórnin hefur líka beitt, í framhaldi af aðgerðum fyrri ríkisstjórnar, fjölmörgum aðgerðum til þess að opna fjármagnsmarkaðinn, gera hann frjálsari. Það væri sorglegt afturhvarf til fortíðar að taka nú upp pólitíska stýringu og fjármagnsskömmtun. Það var horfið frá þessum ráðum fyrr á þessari öld í flestum löndum sem við berum okkur saman við af þeirri einföldu ástæðu að þessar aðferðir dugðu illa. Þær gáfust illa.
    Svo kem ég að því sem er kannski dálítið tæknilegra, virðulegu þingmenn, og það er að íhlutun á grundvelli núgildandi 9. gr. laga um Seðlabankann er vægast sagt næsta erfið í framkvæmd vegna þess að hugtökin í henni og reyndar þau sem nú er gerð tillaga um eru næsta fljótandi. Hugmyndir um það að skerpa enn frekar þessi ákvæði, gefa stjórnvöldum enn víðtækara vald til að hlutast til um vextina með beinni íhlutun, með hámarksákvæðum, ganga þvert á beitingu vaxtanna sem stjórntækis í nútímahagkerfi. Vextirnir verða að taka mið af framboði og eftirspurn og ástæðan fyrir háum raunvöxtum á Íslandi er fyrst og fremst halli á ríkissjóði og mikil eftirspurn eftir lánsfé vegna húsnæðislánakerfisins í þriðja lagi, og það er ekki minnst um vert, óvissa um framgang efnahagsmála á næstunni, bæði hér á landi og annars staðar. Ég vil þó benda á það að nafnvextirnir eru nú á hraðri niðurleið. Ég er á þeirri skoðun að með fortölum sé hægt að flýta þeirri þróun eins og reyndar hefur verið rætt í tengslum við kjarasamningana. Ég bendi á að hömlum á fjármagnshreyfingar er nú þegar að hluta aflétt og á næstu árum verða enn frekari skref stigin í þessa átt. Það er vissulega ástæða til þess að hugleiða það vandlega hvort við eigum að hraða okkar för enn í þessa átt. Þetta mun þýða að vaxtastig á Íslandi mun ráðast af vöxtum í öðrum löndum og sérstök vaxtastefna íslenskra stjórnvalda gagnvart atvinnuvegum okkar verði miklu síður framkvæmanleg en verið hefur. Ég tel ekki mikla eftirsjá í því. Ég held, virðulegi 2. þm. Vestf., að það væri býsna hagleg geit að burstagerð blindra gæti fengið vexti á heimsmarkaðskjörum.
    Það er ástæða að mínu áliti til þess að íhuga hvort Seðlabankanum ætti að vera heimilt að setja kvaðir á innlánsstofnanir um jafnvægi milli verðtryggðra inn- og útlána með verðtryggðum og óverðtryggðum viðskiptum. Misvægi innlána og útlána á óverðtryggðum og verðtryggðum kjörum er ástæða fyrir verulegum sveiflum á nafnvöxtunum eins og þróun síðustu 2--3 ára hefur sýnt óþægilega skýrt. Ákvæði af þessu tagi mundu jafna kjör verðtryggðra og óverðtryggðra lána að miklum mun. Það er líka vert umhugsunar hvort óhæfilegur vaxtamunur eigi ekki að falla undir samkeppnislög sem nú er verið að móta. Það er ljóst að með auknu frjálsræði, m.a. gagnvart erlendum fjármálastofnunum, hverfur hættan á óhæfilegum vaxtamun að mínu áliti vegna þess að þá líðst íslenskum lánastofnunum ekki að halda uppi óhóflegri álagningu. Samkeppni hér innan lands er nú þegar að skila árangri m.a. í lækkuðum raunverulegum kostnaði í bönkunum, fækkun starfsmanna, sölu húseigna og viðleitni ýmissa fjármálastofnana að bæta sér upp með vaxtamun tekjutap m.a. vegna óvarkárra útlána. Þetta gengur ekki mikið lengur. Menn verða nú að mæta samkeppninni.
    Hv. 7. þm. Reykn. og þó alveg sér í lagi hv. 8. þm. Reykn. töluðu heilmikið um húsnæðislánin. Ég vildi þess vegna láta koma fram nokkrar grundvallarupplýsingar og skýringar á því sem þar hefur verið að gerast. Það er mjög mikilvægt að umræða um þetta mál sé rekin á grundvelli staðreynda. Lítum á þessar tölur. Hrein lánsfjárþörf húsnæðiskerfisins hefur aukist úr 14,5 milljörðum kr. árið 1990 í 21,5 milljarða á þessu ári og ég tek það fram að þessi síðasta tala er áætlun. Nú er áætlað að hrein lánsfjárþörf húsnæðiskerfisins verði um 15,7 milljarðar kr. á næsta ári. Sú fjárhæð kemur reyndar fram í lánsfjárlagafrv. Og ég vildi benda hv. 8. þm. Reykn. á það af því að hann minntist á þessa tölu hér að það er mjög athyglisvert að þetta er heldur lægri tala en Seðlabankinn leggur mikla áherslu á í sinni greinargerð en þar er nefnd, ef ég man rétt, að það sé æskilegt að stefna að því að þessi lánsfjárþörf fari ekki fram úr 16 milljörðum kr.
    En hverfum aftur að aukningunni árið 1991. Fyrsta ástæðan fyrir þessari miklu aukningu er sú að húsbréfakerfið og lánakerfið frá 1986 hafa verið rekin samhliða og verða rekin samhliða til loka þessa árs.
    Í öðru lagi voru á þessu ári veitt sérstök greiðsluerfiðleikalán að fjárhæð 2 1 / 2 --3 milljarðar kr. Og í þriðja lagi hefur orðið veruleg aukning á útlánum úr Byggingarsjóði verkamanna en lán þessa sjóðs hafa aukist um 2 milljarða milli áranna 1990 og 1991. Ákvarðanirnar, sem hafa mótað þessa þróun, eru að sjálfsögðu á ábyrgð fyrri ríkisstjórnar fyrst og fremst. Ég tek minn hluta í því máli að sjálfsögðu á mig en ég ætlast til hins sama af hv. 8 þm. Reykn. og hv. 7. þm. Reykn. sem ásamt mér og öðrum, þar á meðal hæstv. félmrh., tóku þær ákvarðanir sem réðu þessari skörun kerfanna. Nú hefur hins vegar lánakerfinu frá 1986 verið lokað, að mínum dómi allt of seint, og ekki eru lengur veitt þessi sérstöku greiðsluerfiðleikalán. Þetta eru skýringarnar á því að á næsta ári mun draga mjög verulega úr lánsfjárþörf húsnæðislánakerfisins. Ég vil vekja athygli á því að við þurfum að líta á þennan umþóttunarvanda, þessa yfirgangstíð, þegar tekin er upp ný skipan í húsnæðismálum sem flestum hugsandi mönnum ber saman um að horfi til heilla þegar kerfið hefur verið fest í sessi. Ég vil líka vara við því að túlka tölur um aukningu lána í húsbréfakerfinu krónu fyrir krónu, eða milljarð fyrir milljarð ef menn vilja heldur tala í stórum tölum, á móti sambærilegum fjárhæðum í öðrum útlánum eða lántökum ríkissjóðs. Það er vegna þess að í húsbréfakerfinu er veruleg eiginfjármögnun, innri fjármögnun, og auk þess hefur hluti húsbréfalánanna farið til þess að fjármagna að nýju skuldir húsbyggjenda við aðrar lánastofnanir. Þetta, virðulegi forseti, vildi ég láta koma fram.
    Hv. 18. þm. Reykv. hitti að mínu áliti naglann á höfuðið í sinni hógværu og hyggilegu ræðu. Hún sagði ef ég man rétt: Það er varasamt að binda vextina á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir. Hún mælti með því að ríkið freistaði þess í senn að draga úr sinni eigin eftirspurn eftir lánsfé, og það á að sjálfsögðu við allar ákvarðanir ríkisins, jafnt þær sem varða fjármál ríkisins í þröngri merkingu sem hið opinbera húsnæðislánakerfi, og beita frumkvæði ríkisins til lækkunar raunvaxta þegar aðstæður leyfðu. Ég vil endurtaka, virðulegi forseti, að takist okkur að ná fjárlagahalla niður fyrir 4 milljarða, takist okkur að draga svo mikið úr lánsfjárþörf hins opinbera sem að er stefnt, og þar tel ég enn húsnæðislánin með, og ef við sjáum fram á í sömu andrá sáttargerð um sanngjörn kjör, kyrrlát kjör, þá munu bæði nafnvextirnir og raunvextirnir lækka til muna á fyrstu mánuðum nýja ársins. Það mun gerast ef við stöndum saman um þær ákvarðanir hér í þinginu sem við berum beinasta ábyrgð á.
    Virðulegi forseti. Þetta skulu vera mín lokaorð. Ég styð ekki þetta frv.