Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:21:00 (1768)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Frú forseti. Enn vil ég spyrja hvort mér leyfist að svara tveimur andsvörum í senn til þess að greiða fyrir fundarstörfum.
    Hv. 8. þm. Reykn. innti mig eftir því hvort fyrirhugaðar væru breytingar á ýmsu því sem varðar kjörin og reglurnar sem gilda um húsbréf. Ég er nú orðinn vanur því að mönnum séu húsbréfin hugleikin í þeim flokki sem ég starfa svo mér kemur það ekkert á óvart að sífellt sé spurt um þetta sama mál. Ég vil þess vegna láta það koma fram að senn er von á skýrslu um húsbréfakerfið, reynsluna á þess fyrstu starfsmissirum og þá verða teknar ákvarðanir um þau atriði sem hv. þm. nefndi um ríkisábyrgðina og um það hvort þau skuli áfram telja með lausu fé innlánsstofnana. En það kom mjög skýrt fram í vor þegar ákveðið var að telja þessi skuldabréf að hálfu í lausu fé innlánsstofnana með

sama hætti og ríkisskuldabréfin, spariskírteini ríkissjóðs, að það væri tímabundin ákvörðun.
    Um málið sem hv. þm. ítrekað hefur kallað grundvallarkenningu Seðlabankans þá get ég gefið honum eitt ákaflega einfalt svar: Þetta er engin grundvallarkenning. Þetta er ákaflega einföld ábending um að það eigi að telja hið opinbera húsnæðislánakerfi með í opinbera geiranum þegar menn meta fjárþörf og áhrif á lánsfjármarkaði. Þetta er skoðun sem ég er að sjálfsögðu sammála, en það þýðir ekki að ég geti í einu og öllu fallist á greininguna sem fram er sett í skýrslunni sem dagsett er 4. des. Þetta, virðulegi forseti, vildi ég láta koma fram vegna andsvars hv. þm. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég vona að mér leyfist að segja hér örfá orð um það sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég vék mér ekki undan því að svara, ég svaraði.