Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:04:00 (1854)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Það er afar fróðlegt að heyra viðbrögð hæstv. ráðherra í sambandi við óskir um að fá upplýsingar um í hverju tillögur ráðherrans eru fólgnar. Hverjir eru það sem næst á að leggjast á þegar hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra fellur frá því að færa málefni fatlaðra yfir á sveitarfélögin? Eru það kannski aldraðir sem eiga næst að verða fyrir barðinu á tillögum ríkisstjórnarinnar?
    Ég geri kröfur til þess að hæstv. ráðherra greini þinginu frá því hér við 2. umr. málsins um hvað er verið að ræða, því þó það sé gott og gilt að rætt sé við sveitarfélögin í landinu þá er það þó Alþingi sem á að taka ákvarðanir um mál. Ég held að það væri vænlegra fyrir hæstv. ríkisstjórn ef hún ætlar að koma fjárlögum ríkisins fram hér fyrir hátíðar, fyrir lok þessarar viku, eins og starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir, að koma hér og byrja að upplýsa um það í hverju undanhaldið er fólgið og hverjir það eru sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggjast á næst eftir að hún fellur frá því að taka á málefnum fatlaðra eins og kynnt hafði verið.