Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 01:33:00 (1888)

Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þá beiðni að hæstv. viðskrh. verði kallaður í salinn þannig að það megi skýrast hvað hér er á ferð. Ég hafði sannast að segja undirbúið allmyndarlega ræðu en þar sem orðið er áliðið nætur mun ég reyna að stytta mjög mál mitt. Mér eru skólamálin mjög hugleikin og ég hef tækifæri til þess að taka þau upp þegar bandormurinn svokallaði kemur hér til umræðu á nýjan leik þannig að ég ætla, eins og ég sagði, að reyna að stytta mál mitt eins og kostur er.
    En ég vil byrja á því að kynna brtt. sem ég flyt ásamt þremur öðrum þingmönnum og eru þessir þingmenn allir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í menntmn. en þeir eru auk mín Valgerður Sverrisdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Ólafur Þ. Þórðarson.
    Þessi tillaga okkar, sem er í 27 liðum, gengur einfaldlega út á það að þau skólagjöld, sem ríkisstjórnin áformar að leggja á nemendur á framhaldsskóla- og háskólastigi, verði felld niður. Ég tel nauðsynlegt að skýra þessa brtt. ögn nánar en eins og kunnugt er þá áformaði ríkisstjórnin að leggja á skólagjöld í framhaldsskólum að hámarki 8 þús. kr. og í skólum á háskólastigi allt að 17 þús. kr. Það sem við gerum hér í þessari brtt. er í fyrsta lagi að leggja til að sérstakur liður þar sem gert er ráð fyrir skólagjöldum í dagskólum framhaldsskólanna falli brott.
    Í öðru lagi leggjum við til að þar sem skólagjöld eru innheimt og stóð til að hækka þau gjöld sem nemendur öldungadeilda greiði lækki til þess horfs sem eðlilegt hefði talist áður en þessi skólagjaldaumræða kom til. Og í þriðja lagi leggjum við til að skólagjöld verði ekki innheimt í skólum á háskólastigi og reiknum þá upphæð, þ.e. sértekjur skólanna á háskólastigi þannig að þar sé bara um eðlilega innheimtu að ræða. Eins og mál standa nú fær t.d. Háskóli Íslands 2.000 kr. af þeim 7.700 sem innheimt eru í gjöld í þeim skóla, en afgangurinn rennur til félagsstarfsemi stúdenta. Ég vona að með þessu hafi ég skýrt hvað hér er á ferð.
    Þessi brtt. þýðir að sjálfsögðu að skólarnir munu hafa minna til ráðstöfunar. Það er gert ráð fyrir því að skólarnir innheimti þessar sértekjur og við getum að sjálfsögðu ekki sætt okkur við að skólarnir búi við þrengri kost en þeir gera nú. Þar af leiðandi boða ég það hér með að við munum flytja tillögu um tekjuöflun til þess að mæta þessum niðurskurði. Annað getur ekki talist eðlilegt.
    Ég vil þá víkja nokkrum orðum að fjárlögunum eins og þau líta út núna. Eins og málin standa þá er enn margt óljóst varðandi fjárlögin og það má eiginlega segja að með hverri mínútunni sem líður breytist þau stöðugt. Nú síðast er tekist á annars vegar um yfirlýsingu hæstv. viðskrh. um innflutning á mjólkurdufti og hins vegar yfirlýsingu hæstv. landbrh. um að slíkur innflutningur hafi ekki verið ræddur í ríkisstjórninni. Það verður að segjast eins og er að enn er allt í upplausn, enn vitum við ekki hvað verður um málefni fatlaðra og það eru ýmis önnur mál af þeim sem kynnt hafa verið á undanförnum dögum sem ráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem ekki sér fyrir endann á.
    Við 1. umr. fjárlaga bentum við á að ýmislegt í þeim forsendum sem ríkisstjórnin gaf sér gæti ekki staðist og við kvennalistakonur bentum á hve rangt væri að reikna álverið inn í forsendur fjárlaganna. Það kom síðan í ljós að ekkert yrði af álversframkvæmdum að sinni sem leiddi til þess að menn hafa orðið að reikna upp allar forsendur að nýju og búa sig undir enn frekari samdrátt en spáð hafði verið. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið með þeim hætti að hún boðar niðurskurð, hún boðar að hluta kostnaðar við þá þjónustu, sem ríkið veitir, verði velt yfir á fjölskyldurnar í landinu, þar á meðal námsmenn og sjúklinga. Hún ætlar að afla sér sértekna með ýmsu móti og þar tel ég að margir liðir séu ofáætlaðir. Hún leyfir sér að taka lögboðnar tekjur ýmissa stofnana og verja þeim til annarra hluta en mælt er fyrir um í lögum. Það á að setja lög á sjómenn sem þýðir auðvitað ekkert annað en kjaraskerðingu sjómanna. Það á að skerða barnabætur fólks með meðaltekjur og þaðan af hærri. Það á að velta gjöldum yfir á sveitarfélögin og það er boðað að vaxtabætur verði skertar.
    Þessar tillögur eru að sjálfsögðu mismunandi alvarlegar en það sem er kannski það alvarlegasta í þessu er aðferðin sem ríkisstjórnin beitir, hvernig boðaðar eru ýmsar aðgerðir og síðan kemur í ljós að ekki hefur verið talað við einn einasta aðila, ekkert samráð verið haft og þar með er öllu hleypt í bál og brand í þjóðfélaginu. Við upplifðum það t.d. í efh.- og viðskn. að þangað komu fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga til að ræða ákveðin mál við nefndina og þeir voru varla viðræðuhæfir sökum bræði, enda var því máli hreinlega frestað og þeir vinsamlegast beðnir að ræða saman, fulltrúar fjmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Það vakna margar spurningar varðandi þessar ráðstafanir og þá ekki síst hvað þessi mikla kjaraskerðing, sem ríkisstjórnin boðar með sínum aðgerðum, muni þýða fyrir fólk í landinu og hvaða áhrif þetta muni hafa á þá kjarasamninga sem fram undan eru. Hér hafa menn minnst á áframhaldandi þjóðarsátt en ég held að það gefi auga leið að þessar ráðstafanir muni einfaldlega þýða að hér verður ekkert úr neinni þjóðarsátt heldur er hér verið að bjóða heim miklum átökum á vinnumarkaði.
    Þá vaknar spurningin: Hvað hefði átt að gera í staðinn? Og ég vil enn og aftur ítreka þá skoðun mína að ég get ekki fellt mig við eða samþykkt þennan niðurskurð á meðan ríkisstjórnin nýtir sér ekki þá tekjuöflunarmöguleika sem ég tel vera fyrir hendi og þá er ég að tala um skatt á fjármagnstekjur, hátekjuskattþrep, lúxusskatta, bætta innheimtu og að tekið verði á þeim svartamarkaði sem hér þrífst og þýðir auðvitað að ríkið verður af allmiklum virðisaukaskatti.
    Ég ætla aðeins að víkja að einstökum tillögum í þeim brtt. sem lagðar hafa verið fram. Þá vekur auðvitað athygli að öll ráðuneytin fá hækkun á þeim lið sem heitir Yfirstjórn. Það vekur auðvitað þá spurningu hvort ekki hefði verið nær að ráðuneytin litu sér nær og reyndu að ganga á undan með góðu fordæmi og spara í sínum stjórnunarkostnaði.
    Í 4. tölulið tillagnanna er fjallað um almenna framhaldsskóla. --- Forseti. Mér þykir hæstv. landbrh. hafa hátt hér í hliðarsal, væri hægt að beina því til hans að hann hafi hljótt um sig. ( Forseti: Forseti reynir að sjá til þess að hljóð sé í salnum og hliðarsölum einnig.) Takk fyrir. --- Í 4. lið kemur fram að kostnaður við byggingarframkvæmdir er skorinn niður --- þetta er að vísu ekki mikill niðurskurður en ég þykist vita að þetta muni koma niður á þeim nýja framhaldsskóla sem stendur til að byggja hér í Reykjavík og það er mjög miður því það er alveg ljóst að það vantar heilan framhaldsskóla hér í borginni. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort þetta sé ekki rétt skilið.
    Ég vil aðeins víkja að þeim kafla þessara tillagna sem snýr að listasöfnunum og fagna því að þar hafa nokkrar stofnanir fengið örlitla hækkun sem vonandi fleytir þeim yfir erfitt ár en það hefur komið fram í umræðum áður að þar er um að ræða söfn sem lýstu því yfir að þau yrðu að loka ef ekki fengjust úrbætur. Eitt mál er mér ákaflega hugleikið. Það er Húsafriðunarsjóður. Hann fær nokkra hækkun í þessum tillögum en því miður alls ekki næga og ég vil enn einu sinni ítreka að nokkrar af okkar gömlu menningarbyggingum, og þá er ég sérstaklega að hugsa um gömlu torfbæina, eru illa á sig komnar. Þetta eru byggingar sem þurfa stöðugt viðhald sem hefur verið vanrækt á undanförnum árum og ég vil beina því alveg sérstaklega til alþingismanna að huga að þessu máli því að það er ekki aðeins að þarna séu mikil menningarverðmæti í húfi heldur hefur það mikið að segja fyrir ferðamannastrauminn í landinu að við höfum einfaldlega upp á eitthvað að bjóða og sýna.
    Í þessum tillögum er að finna nokkrar af þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin boðaði og

þar vil ég sérstaklega nefna greiðslur vegna búvöruframleiðslu. Beinum greiðslum til bænda á að fresta um tvo mánuði að því er fram hefur komið í fjölmiðlum og er þetta auðvitað brot á nýgerðum búvörusamningi. Ég lýsti þeirri skoðun minni í vor og ég stend við hana, að það hafi ekki verið rétt að ganga frá búvörusamningnum svo skömmu fyrir kosningar heldur hefði ný ríkisstjórn átt að koma frjáls og óháð að því máli, en þessi samningur var gerður og við hann á að standa. Ef menn vilja gera breytingar sem þessa, á jarðræktarlögunum eða öðru því sem samningar eða lög kveða á um, þá á að gera þær með eðlilegum hætti, taka upp samninga við viðkomandi aðila, taka upp lögin og endurskoða þau. En þessar pennastriksaðferðir sem hér er ítrekað beitt eru að mínum dómi algerlega óþolandi og lagasetning sem ekki á að líðast en ég veit að hér eru allir flokkar, nema að sjálfsögðu Kvennalistinn, sekir um slík vinnubrögð.
    Ég vil líka nefna 21. lið brtt. Þar er um að ræða lið sem heyrir undir sjútvrn. og heitir Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi. Þessi liður var lækkaður í fjárlögunum og hann er enn lækkaður hér og finnst mér þetta vera dæmi um mjög sorglegar áherslur á tímum þegar virkilega reynir á að menn finni leiðir til þróunar, tilrauna og markaðsöflunar í stað þess að skera niður með þessum hætti.
    Þá má líka nefna í framhaldi af því liðinn Starfsmenntun í atvinnulífinu sem er lækkaður um 10 millj. Einnig þar er um að ræða mjög mikið nauðsynjamál, ekki síst á tímum þegar atvinnuleysi er vaxandi og ekki veitir af að fólk fái endurmenntun og geti leitað nýrra möguleika.
    Það er ekki allt vont í þessum tillögum og ég vil sérstaklega nefna að framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er hækkað. Það kemur auðvitað til af illri nauðsyn en það er þó gott að menn horfast í augu við staðreyndirnar.
    Ég ætla ekki að tína mikið meira til heldur ætla ég að stökkva yfir í síðustu liðina af þessum tillögum og nefna sérstaklega 105. lið þar sem um er að ræða niðurgreiðslur á vöruverði. Þarna er náttúrlega um það að ræða að verið er að varpa ákveðnum kostnaði út í samfélagið. Þarna er komið, ef ég man rétt, hið margumrædda mjólkurduft og ég ítreka að við viljum gjarnan fá skýringu frá hæstv. viðskrh. Hér kom hæstv. landbrh. og lýsti því yfir að þetta mál hefði ekki verið rætt í ríkisstjórninni og ég óska þess að viðskrh. upplýsi okkur um það hvort þetta sé rétt.
    Að lokum vil ég nefna síðasta liðinn, 110. lið, Launaliðir. Þar er hinn flati niðurskurður um 6,7%. Mér er það algerlega hulin ráðgáta hvernig ráðuneytin ætla að ná því markmiði að lækka launaliði um 6,7% og tengist þetta auðvitað ummælum hv. formanns fjárln. í ræðu hans um opinbera starfsmenn sem fulltrúar BSRB og BHMR voru að mótmæla í fjölmiðlum í kvöld, en í ræðu hans var gert mikið úr því hve opinberir starfsmenn hefðu greiðan aðgang að ógreiddri yfirvinnu og ekki annað að skilja en í ríkiskerfinu væri mikið launasukk. Það kann að vera að dæmi séu til um slíkt en hins vegar er það svo að stærstu hópar opinberra starfsmanna, þar nefni ég t.d. kennara og starfsfólk heilbrigðiskerfisins, vinna sína vinnu. Þar er að vísu gífurleg yfirvinna, allt of mikil yfirvinna en hún er öll unnin. Þar er ekki um að ræða neinar sporslur þar sem ekki liggur vinna að baki, alla vega eftir því sem ég veit best. Ég þekki náttúrlega best til í skólakerfinu og þar er ekki um neitt slíkt að ræða, enda vinnuálag gífurlega mikið þannig að ég vil mótmæla þessum ummælum hv. formanns fjárln.
    Að lokum langar mig að beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvernig hann hyggst ná þessum kostnaði niður í sínu ráðuneyti vegna þess að langsamlega stærsti hópur launþega sem undir hann heyrir eru einmitt kennarar. Ég sé að það eru auðvitað til ýmsar leiðir en þær geta ekki þýtt annað en niðurskurð á kennslu. Og við stöndum frammi fyrir því að kennsla er að mínum dómi of lítil í grunnskólanum. Hún er lögbundin í framhaldsskólanum. Þar verða nemendur einfaldlega að taka ákveðinn fjölda eininga og ég ætla rétt að vona að hér séu ekki komnar á kreik einhverjar hugmyndir um að skerða það nám sem þarf til stúdentsprófs. Mér þætti afar fróðlegt að fá að heyra það frá hæstv. menntmrh. hvernig hann hugsar sér að ná þessum niðurskurði sem fyrirskipaður er samkvæmt þessari tillögu.
    Ég hef, virðulegi forseti, stytt mjög mikið mál mitt og hefði viljað fjalla sérstaklega hér um skólamálin, eins og ég nefndi í upphafi, en að lokum vil ég segja að sú mynd sem við höfum nú af fjárlögum þessarar ríkisstjórnar er afar dökk og boðar mjög erfiða tíma sem ég held að væri hægt að milda ef menn hefðu viljað og ef menn hefðu verið reiðubúnir til þess að beita til þess nauðsynlegum aðgerðum.