Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:55:00 (1904)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hér flutti hæstv. landbrh. afar sérstaka ræðu og þar tel ég mig reyndar taka vægt til orða. Þar hrærði hann öllu saman, GATT-samningunum sem ekki hafa verið gerðir, búvörusamningunum og búvörulögunum sem eru það sem er í gildi núna og ber að fara eftir og hæstv. landbrh. ber að framfylgja.
    Ég vil líka vekja athygli á því að hann sagði: Þó að takist að ná því fram í viðræðum um EES að koma í veg fyrir innflutning á Smjörva og Léttu og laggóðu. Þetta stangast algerlega á við þær fréttir sem hæstv. utanrrh. og aðrir hæstv. ráðherrar núv. ríkisstjórnar færðu okkur er þeir komu og sögðu að búið væri að ganga frá samningi um EES og m.a. þannig að ekki væri leyfður innflutningur á búvörum. Ég býst við því að á næstu dögum eigum við eftir hafa langa umræðu um GATT-samningana og þá er ég tilbúinn til þess að ræða við hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar um hvað kynni að felast í þeim. En ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að í dag er ekkert í gildi um innflutning búvara annað en búvörulögin frá 1985 og sá búvörusamningur sem nú er í gildi. Það eru þau ákvæði sem hæstv. landbrh. ber að framfylgja og hæstv. ráðherra getur á engan hátt drepið málinu á dreif með tilvitnun í alþjóðasamning um tollamál sem e.t.v. verður einhvern tíma gerður.