Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 03:03:00 (1909)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að réttlæta eitt né neitt. Það sem ég sagði áðan var að efnahagsástæður hljóta að koma misþungt niður á þorra landsmanna og vitaskuld er rétt að þetta var hvorki auðveld né skemmtileg ákvörðun. Á hinn bóginn veit ég að hv. þm. skilur það jafn vel og ég að nauðsynlegt er, eins og nú standa sakir, að herða að ríkissjóði á öllum sviðum og sem mest í von um að með þeim hætti takist að ná raunvöxtum verulega niður á næsta ári sem auðvitað mun létta verulega á bændastéttinni. Ég held að okkur báðum sé það jafnljóst að einmitt fyrir þann atvinnurekstur, sauðfjárbúskapinn, kemur sér betur en flest annað að hægt sé að halda vöxtum niðri.