Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 03:29:00 (1913)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Þannig háttar til að hér hefur staðið um nokkurt skeið umræða um fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 1992 og ráðherrar hafa verið beðnir um að svara ýmsum spurningum. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur svarað þeim spurningum sem til hans var beint og þannig greitt fyrir málum og er núna í þeim skilningi sjálfstæður maður í samræmi við það rit sem hann hefur í hendinni. Aftur á móti eru ýmsir ráðherrar sem ekki hafa látið svo lítið að svara fyrirspurnum. Það á ekki við um hæstv. menntmrh. og ekki heldur hæstv. fjmrh. Það á hins vegar við um hæstv. samgrh., hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh. sem var t.d. spurður nokkurra spurninga um þá skatta sem verið er að leggja á sjávarútveginn. Ég vildi mælast til þess við virðulegan forseta að hann sæi til þess meðan ég lýk ræðu minni sem ég hef núna fljótlega eftir að hafa lokið athugasemdum við þingsköp, að meðan ég flyt þá ræðu þá hvetji hann sem óðast þessa ráðherra alla til að svara þeim fyrirspurnum sem fyrir þá hafa verið lagðar hér í dag. ( Gripið fram

í: Og hæstv. félmrh.) Sömuleiðis var nokkrum atriðum beint til hæstv. félmrh. hér fyrr í dag sem er mjög nauðsynlegt að verði svarað vegna þess að í ræðu hennar komu fram fjölmörg atriði og yfirlýsingar sem nauðsynlegt er að skoða aðeins nánar í ljósi þeirra svara sem hún hugsanlega gefur. Þess vegna vil ég í allri vinsemd fara fram á það við forseta okkar að hann geri nú gangskör að því að ræsa ráðherrana þannig að þeir geti svarað sem óðast þeim spurningum sem fram hafa verið lagðar þegar ég hef lokið ræðu minni sem ég mun flytja eftir að hafa rætt gæslu þingskapa sérstaklega sem nú er lokið af minni hálfu.