Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 04:45:00 (1920)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Fram hefur komið í ræðum hv. þm. fyrr í þessari umræðu að sú leið sem menn kalla flatan niðurskurð hefur áður verið farin. Í fjárlögum árið 1989 var þessi leið farin, reyndar í mun smærri stíl en nú er stefnt að.
    Í heilbrigðismálunum varð niðurstaðan sú að á þremur sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu þ.e. bara í Reykjavík, kom þessi niðurskurður þannig niður að jafnmörg rúm voru tekin úr notkun á tveimur sjúkrahúsum, á Landspítalanum og Borgarspítalanum, og voru í notkun á Landakotsspítala. Hvað þjónustu varðar hefði mátt loka þeim spítala en reka hina

með fullum afköstum. Þetta verður auðvitað líka sú leið sem nú verður farin vegna þess að hún er einföldust fyrir stjórnendur sjúkrahúsanna. Með því er verið að segja: Það á að draga stórkostlega úr þjónustunni á sjúkrahúsunum. Og því spyr ég forsrh., af því að hann lét að því liggja í ræðu sinni áðan að það yrði hægt að tryggja að þetta kæmi með þeim hætti niður að þjónusta yrði tryggð, hvernig ríkisstjórnin hafi í hyggju að tryggja að ekki verði dregið úr heilbrigðisþjónustunni.