Tilhögun þingfundar

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 11:11:00 (1940)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Um kl. 5 í morgun var ég hér á vaktinni en starfandi formaður þingflokks Framsfl. var þá horfinn af fundi. Ég heyrði það fljúga fyrir að hugsanlegt væri að beðið yrði um frestun á atkvæðagreiðslu. Mér flaug ekki í hug að ekki yrði boðað til samráðsfundar forseta í morgun til þess þá að afboða þennan fund núna, en ég tek undir með hv. 9. þm. Reykv. að úr því að stjórnarliðið fer eindregið fram á þessa frestun á umræðunni þá tel ég að við eigum að fallast á það. Að öðru leyti lýsi ég furðu minni á því að ekki skuli hafa verið boðað til formlegs samráðsfundar strax í morgun til þess að koma orðsendingum til þingmanna um þessa breytingu. Það var að sjálfsögðu ekki hægt að boða til neins slíks fundar í nótt um kl. 5.30 og koma því til þingmanna með neinum formlegum hætti.