Skattskylda innlánsstofnana

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 13:05:01 (1945)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum. Í grg. kemur fram að hugmyndir svipaðar þeim sem fram koma í þessu frv. hafa verið lagðar fram áður og rökin fyrir því að menn vilja nú gera hina ýmsu fjárfestingarlánasjóði skattskylda eru þau samkvæmt grg. að þessir sjóðir búi við ákveðin forréttindi umfram aðrar útlánastofnanir.
    Nú er ég er ekki reiðubúin til þess að gera upp hug minn um þetta mál. Ég á sæti í efh.- og viðskn. og þar munum við að sjálfsögðu athuga þetta mál rækilega. En þær

spurningar sem ég er fyrst og fremst að velta fyrir mér eru þær hvort skynsamlegt sé að leggja tekju- og eignarskatt á sjóði sem eiga að sinna ákveðnum lögbundnum verkefnum. Ef þessir sjóðir fara að greiða tekjuskatt og eignarskatt þýðir það
væntanlega að þeir hafa minna fé til þess að lána þeim sem þeir eiga að þjóna. Ef maður tekur dæmi af slíkum sjóði, þá get ég nefnt Framleiðnisjóð landbúnaðarins sem gegnir því hlutverki m.a. að ýta undir nýsköpun í landbúnaði og er til þess ætlaður að mæta þeim miklu breytingum sem átt hafa sér stað í landbúnaðinum og aðstoða bændur við að skapa vinnu í stað þess samdráttar sem nú á sér stað í landbúnaðinum. Það má taka annað dæmi af Útflutningslánasjóði sem er lítill en vel rekinn sjóður. Hvað þýðir svona skattlagning fyrir þessa sjóði?
    Það er önnur spurning sem vaknar og varðar 2. gr. þessa frv. sem kveður á um hvaða sjóðir eigi að vera undanskildir sem auðvitað getur orkað tvímælis.
    Mér hefur borist í hendur bréf eða álit frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum út af Lánasjóði sveitarfélaga. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þetta álit því að ég hygg að í því komi fram þau álitamál sem fylgja þessu frv. Álitið hljóðar svo:
    ,,Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga mótmælir harðlega því ákvæði frv. er leiðir til skattskyldu Lánasjóðs sveitarfélaga. Lagt er til að Lánasjóði sveitarfélaga verði bætt í upptalningu þeirra sjóða sem undanþegnir verða skattskyldu skv. 2. gr. frv.
    Lánasjóður sveitarfélaga hefur eingöngu lánað til annarra sveitarfélaga en Reykjavíkurborgar. Lengst af hafa lánin runnið til framkvæmda við lögskyld verkefni sveitarfélaganna eins og til vatnsveitna, skólabygginga, gatna- og holræsagerðar o.s.frv. Á þessu og síðasta ári hefur þó meira en helmingur af ráðstöfunarfé sjóðsins farið til skuldbreytinga á óhagstæðum lánum skuldugra sveitarfélaga. Sú ákvörðun var tekin af sjóðstjórninni fyrir frumkvæði félmrh. sem skipar formann sjóðstjórnarinnar. Lánasjóðurinn hefur þannig reynst hinum minni og fátækari sveitarfélögum mikil hjálparhella og allar skerðingar á ráðstöfunarfé hans mundu fyrst og fremst bitna á þeim.
    Miðað við ársuppgjör sjóðsins fyrir árið 1990 hefði fyrirliggjandi frv. leitt til eftirfarandi skattskyldu sjóðsins:
    Tekjuskattur af hagnaði 1990, 45%, yrði 87,1 millj. kr. Eignarskattur af hreinni eign í árslok 1990, 1,2%, 31,7 millj. kr. Samtals 118,8 millj. kr.
    Áætlaðar skattgreiðslur vegna ársins 1991 næmu um 140--150 millj. kr. Slík skattlagning hefði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsemi Lánasjóðsins og viðleitni hans til að gegna þjónustuhlutverki sínu við sveitarfélögin í landinu, sérstaklega hin fámennari. Hún er líka mjög óeðlileg vegna margháttaðrar sérstöðu hans m.a.
    Lánasjóðurinn er ekki hreinn fjárfestingarlánasjóður heldur lánar hann einnig til skuldbreytinga og hefur rúmur helmingur af ráðstöfunarfé hans að undanförnu runnið til skuldbreytinga hjá illa stæðum sveitarfélögum. Lánasjóðurinn er eign sveitarfélaganna sem hvorki greiða skatt af tekjum né eignum. Lánasjóðurinn hefur að undanförnu eingöngu lánað út eigið fé en ekki haft milligöngu um endurlán. Lánasjóðurinn hefur leitast við að halda rekstrarkostnaði í algeru lágmarki og deilir rekstrarkostnaði með öðrum til að geta þjónað sveitarfélögunum betur. Lánasjóðnum er nú ætlað stórt hlutverk í fyrirgreiðslu við minni sveitarfélög til að þau geti orðið við nýjum og stórauknum kröfum ríkisvaldsins varðandi umhverfismál. Skattlagning sjóðsins er bein skattlagning á sveitarfélögin, sérstaklega þau sem verst eru stödd fjárhagslega.
    Í ljósi ofangreindra ábendinga er vonast til að horfið verði frá skattlagningu Lánasjóðs sveitarfélaga og að frv. verði breytt þannig að hún komi ekki til framkvæmda.``
    Þetta bréf er undirritað af Þórði Skúlasyni framkvæmdastjóra.
    Hér er sem sagt komið enn eitt dæmið þar sem verið er að leggja álögur á sveitarfélögin ef þetta frv., eins og það lítur út nú, verður samþykkt. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þarna eru ákveðin álitamál á ferðinni. En ég vil beina þeirri spurningu til

hæstv. fjmrh.: Hvað áætlar ríkið að þessi lagasetning skili miklum tekjum? Ég leitaði upplýsinga hjá starfsmanni fjmrn. sem fletti þessu upp og sagði mér að það væri reiknað með að þetta frv., ef að lögum yrði, mundi skila um 150 millj. kr. Hér segir Samband ísl. sveitarfélaga að bara skattlagningin á Lánasjóð sveitarfélaga muni skila 118,8 millj. kr. samkvæmt uppgjöri 1990 og 140--150 millj. kr. fyrir það ár sem nú er að líða þannig að eitthvað ber hér í milli og ég spyr fjmrh.: Hvað eiga þessi lög að skila ríkinu miklum tekjum?
    Eins og ég nefndi áðan munum við í efh.- og viðskn. kanna þetta mál mjög rækilega og þegar þar að kemur mun koma í ljós hvaða afstöðu við kvennalistakonur tökum í þessu máli.