Skattskylda innlánsstofnana

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 13:16:00 (1947)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Á þskj. 220 er frv. til laga um breyting á lögum um skattskyldu innlánsstofnana sem er eitt af nýjum skattafrv. núv. hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. fjmrh. hefur að vísu þegar komið hér og gefið til kynna að þetta frv. þurfi að taka til endurskoðunar og breytinga og þannig að hverfa að einhverju leyti frá þeim hugmyndum sem í því eru.
    Hæstv. ráðherra benti á það að á sínum tíma var lagt fram frv. í Ed. um skattlagningu innlánsstofnana þar sem þeir sjóðir sem hér eru upp taldir, flestir hverjir a.m.k., voru með. Það frv. var lagt fram án skuldbindinga af þáv. stjórnarflokkum, a.m.k. Framsfl og af þeim sökum var sú breyting gerð á frv. í Ed. sem hæstv. ráðherra gat um.
    Rökin sem hæstv. ráðherra notar fyrir því að nú skuli þessi breyting gerð eru þau að færa eigi þessa sjóði til samræmis við veðdeildir bankanna. En ég hygg að það megi

segja um alla þessa sjóði að þeir eigi nokkurn annan uppruna og starfsgrundvöll. Ég hygg að þeir hafi allir verið stofnaðir sem þróunar- og uppbyggingarsjóðir við veikburða atvinnugreinar þá. Auk þess að vera ætlað að útvega fjármagn, þá var þeim jafnframt falið að gera það með hagkvæmum kjörum og þannig að stuðla að uppbyggingu og framförum. Því miður er það svo enn --- eða kannski sem betur fer þurfum við enn á slíku hlutverki að halda að byggja upp og búa í haginn fyrir framtíðina og þess vegna er þetta hlutverk í fullu gildi enn. Það að auki er fjármagnsöflun þessara sjóða margra hverra á annan veg varið. Þeir fá framlög eftir ýmsum leiðum til viðbótar þeim tekjum sem þeir hafa af sínum útlánum.
    Ef ég aðeins nefni nokkra sjóði, þá er það þannig með Framleiðnisjóð landbúnaðarins að samkvæmt lögum er honum ætlað að fá ákveðið framlag á fjárlögum sem haldið hefur hingað til þó kannski sé komin þar nokkur spurning upp. Ef farið væri að skattleggja þessar tekjur, þá væri ríkið beinlínis að kippa til baka stórum hluta af hinu lögbundna framlagi og þá að sjálfsögðu ráðstöfunarfénu og er það þá til viðbótar þeirri skerðingu sem fram kemur í fjárlagafrv. nú og ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að sjóðurinn verði fyrir á næsta ári.
    Stofnlánadeild landbúnaðarins á sér langa sögu að baki. Til hennar hafa runnið tekjustofnar af afurðaverði, en á móti hefur hún lánað út á mjög lágum vöxtum sem hefur bæði stuðlað að því að jafna kjör bænda og líka að halda niðri vöruverði því ef reikna þyrfti hæstu vexti við uppbyggingu og endurnýjun fjárfestinga í landbúnaði, þá mundi framleiðslukostnaðurinn að sjálfsögðu hækka mjög mikið.
    Við þekkjum öll hvernig ástandið er í ferðamálum okkar. Það er sagður einn af álitlegustu vaxtarbroddum okkar atvinnulífs og kannski það eina sem sumir telja að nú séu sæmilegar horfur fram undan í. Þar hefur á hverju ári verið skorið niður hluti af því framlagi sem lög kveða á um að ríkið skuli leggja til Ferðamálasjóðs og það væri því hart ef ofan á þá skerðingu kæmi síðan skattlagning. En ég hygg að flestir sem til þekkja séu sammála um að það fjármagn sem veitt er til ferðamála á Íslandi skilar sér fljótt margfaldlega aftur. Við höfum nokkrir hv. þm. flutt þáltill., sem reyndar hefur ekki enn komist til umræðu eða til nefndar, um að gerð verði sérstök úttekt á því hvernig hægt væri að nýta sem best þá fjárfestingu sem fyrir er í ferðamálum með því að lagfæra þá þröskulda eða flöskuhálsa sem eru í ferðamálakerfi okkar. Að sjálfsögðu þarf nokkurt fjármagn til þess þó að það gæti verið um mjög hagkvæman hlut að ræða og því fjarri lagi að vera að skerða þennan veikburða sjóð sem óhætt er að segja miðað við þau verkefni sem hann hefur. Samkvæmt lögum um Ferðamálasjóð er heimild til þess að sjóðurinn leggi fram óafturkræft framlag til þeirra verkefna sem talin eru brýnust. En vegna lítils fjármagns hefur sjóðurinn ekki treyst sér til að gera það nema með sérstökum viðbótarfjárveitingum frá Alþingi en getan yrði auðvitað enn þá minni ef þarna yrði farið að skattleggja.
    Þannig væri hægt að halda áfram að benda á að um þessa sjóði gilda önnur viðhorf heldur en um hina almennu bankastarfsemi og því ákaflega hæpið, svo að ekki sé meira sagt, að ætla sér við þær aðstæður sem núna eru í okkar íslenska atvinnulífi að leggja þarna skatt á og draga úr því fjármagni sem við höfum til nýsköpunar og uppbyggingar og þróunar í atvinnulífinu.
    Það er vissulega ánægjulegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra að hann telji vel koma til greina að færa Lánasjóð sveitarfélaga yfir í 2. gr. frv., sem sagt undanþágugreinina, og sýnir það að ef málin eru rædd og sýnt fram á sanngjörn rök, þá eru þau tekin til greina. Vonast ég til að þannig verði með fleiri atriði í þessu frv. þegar það kemur til nefndar og ég vonast til þess að það verði ekki eingöngu fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem þangað verði kvaddir heldur fulltrúar frá öllum þessum sjóðum.