Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:19:00 (1972)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Þetta er að sönnu ákaflega dapurleg atkvæðagreiðsla sem hér fer fram vegna þeirrar miklu og döpru niðurlægingar sem ákveðnir hv. þm., um það bil fimm að tölu, framkvæma á sjálfum sér, ef svo má að orði komast. Það er rétt að vekja athygli á því að þessi hluti brtt. lýtur að því að leggja á skólagjöld í hinum almennu framhaldsskólum, fjölbrautaskólum og verkmenntaskólum vítt og breitt um landið. Þar eiga gjarnan í hlut þeir skólanemendur af landsbyggðinni sem eru á því skólastigi sem ekki nýtur

námslána og þar sem búseta manna mismunar mönnum hvað mest varðandi aðstöðu til náms í landinu. Það er þess vegna sorglegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að heyra hér þá þingmenn, sem hafa gumað af því í allt haust að þeir væru sú brjóstvörn sem mundi hnekkja því að skólagjöld væri innleidd með þessum hætti í íslenska skólakerfinu, nú bila og undirbúa það að gengið verði yfir þá við 3. og síðustu afgreiðslu málsins.
    Eins og hér var réttilega bent á er einn af ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar ekki inni á þingi þessa dagana með atkvæðisrétt heldur varamaður hans sem við höfum heyrt í þessari atkvæðagreiðslu birtast í hópi fimmmenninganna sem kjósa að hafa enga skoðun akkúrat núna þessa stundina á skólagjaldamálinu. Ég hygg að enginn fari í grafgötur um það hvar afstaða hæstv. umhvrh. muni liggja þegar hann kemur til með að bjarga lífi sínu og ríkisstjórnarinnar með því að styðja skólagjöldin við 3. umr. þegar þar að kemur eða ef. Þá verður of seint að gráta og iðrast beisklega fyrir þá sem nú hafa þegar heyrt hanann gala tvisvar. ( Forseti: Og hvað segir hv. þm.?) Þingmaðurinn styður að sjálfsögðu tillöguna og segir já.