Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:39:00 (1986)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um atkvæðagreiðslu) :
     Herra forseti. Mér eru tveir kostir fyrir höndum. Annar er sá að taka þessa tillögu upp og fara nákvæmlega að þingsköpum. Hinn er sá að brjóta þingsköpin en fara betur með tíma þingsins. Ég ætla að láta á það reyna hvort mér líðst það síðarnefnda en ég vildi koma á framfæri þakklæti til hv. formanns fjárln. fyrir að hafa sýnt það hér í verki að hann hafi áhuga á því að skoða þetta mál og gekk svo langt að hann vildi afturkalla greinina en hefði orðið að afturkalla allt fjárlagafrv. til þess að ná þeim vilja sínum fram og ég hef skilning á því að hann ræðst ekki í svo viðamikið verk, enda ekki forráðamaður frv. En ég vil þakka hv. formanni fjárln. fyrir þetta og minna hann á það að Alþingi Íslendinga samþykkti þáltill. á seinasta vetri sem skapar skóla eins og þessum meiri verkefni, ekki aðeins eins og hann hefur pláss fyrir heldur margfalt meiri ef það er vilji hæstv. menntmrh. að fara að vilja Alþingis með framkvæmd þeirrar þáltill.