Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:40:00 (2009)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég minnist þess ekki meðan ég hef setið hér á Alþingi sem þingmaður Austurl. að fjvn. og nú fjárln. þingsins hafi ekki tekið tillit til þess ef þingmenn kjördæmisins hafa óskað eftir því að lítils háttar breytingar yrðu á milli liða. Ég vil því spyrja hv. þm. Karl Steinar Guðnason, 6. þm. Reykn., formann fjárln., hverju það sæti að ekki sé tekið tillit til þessa eins og venja hefur verið og vil minna á það, ef það er ástæðan að hér sé um nýja framkvæmd að ræða, að hér er um stofnun að ræða sem er starfandi og jafnframt um . . . Ég get gert hlé á máli mínu. Ég beini tilmælum mínum til formanns fjárln. en ég sé að (Gripið fram í.) Ég ætlast nú samt til þess að hann hlusti, þótt heilbrrh. sé órólegur undir þessu. Ég hef heyrt það að hæstv. heilbrrh. hafi sagt hér við menn að ef þetta komi inn, þá skuli hann sjá til þess að ekkert fari af stað í þessu kjördæmi. Það er náttúrlega ekki hægt að þola svona vinnubrögð, hæstv. heilbrrh. Og ég minni á að áður hefur komið fjárveiting til þessarar framkvæmdar og ég vil beina því til fjárln. að hún taki þetta mál fyrir með eðlilegum hætti og láti sér í engu varða hótanir ráðherra í þessu máli.