Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 17:07:00 (2021)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Hér hefur gerst sá einstæði atburður að fimm þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa lýst því yfir að þeir sitji hjá við atkvæðagreiðslu um megingrein fjárlagafrv. --- 4. gr. fjárlaganna er sjálfur kjarni fjárlagafrv.
    Ég man ekki nokkurt dæmi þess að hópur stjórnarþingmanna ákveði að sitja hjá við megingrein fjárlagafrv. Þær tölur sem hér birtust eftir atkvæðagreiðsluna báru það með sér að það var minni hluti, hæstv. forsrh., þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem studdi 4. gr. fjárlagafrv. Í öllum venjulegum lýðræðisríkjum, virðulegi forsrh., eru aðeins ein viðbrögð til af hálfu forsrh. við slíkri niðurstöðu og það er að biðjast þegar í stað lausnar fyrir ríkisstjórn sína.
    Virðulegi forsrh. Ég skil vel að forsrh. sé upptekinn af viðræðum við formann Alþfl., hæstv. utanrrh., því hér hefur það gerst að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur minni hluta þingsins á bak við sig í afgreiðslu á meginhluta fjárlagafrv. Þar með er komið í ljós að þessa hæstv. ríkisstjórn skortir þingmeirihluta til þess að standa að afgreiðslu fjárlaganna með þeim hætti að meiri hluti þingmanna treysti sér til þess að greiða megingrein fjárlagafrv. atkvæði. Hafi hæstv. forsrh. einhverja sómatilfinningu, sé hæstv. forsrh. annt um lýðræðislegar leikreglur, sé stjórnarflokkunum annt um það að landið fái trausta ríkisstjórn, þá eru í siðmenntuðum lýðræðisríkjum aðeins til ein viðbrögð, virðulegi forseti og hæstv. forsrh., þ.e. að gera nú hlé á þessari atkvæðagreiðslu, ljúka henni ekki og að hæstv. forsrh. dragi rétta ályktun af þeim stjórnmálaatburði sem hér hefur gerst.