Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 17:36:00 (2029)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Það hefur kannski verið ofætlun til hæstv. forsrh. að hann hefði manndóm til þess að snúa því sem hér hefur gerst í dag ekki í stráksskap. Það er auðvitað alveg ljóst að þessi ríkisstjórn var mynduð á grundvelli þess að hún hefði traustan þingmeirihluta á Alþingi. Það voru meginrökin sem formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., flutti þjóðinni til skýringar á því hvers vegna hann hefði ákveðið að mynda þessa ríkisstjórn. Landið þyrfti á að halda ríkisstjórn með traustan þingmeirihluta, það væri hornsteinn þessarar ríkisstjórnar. Hún gæti afgreitt erfið mál í þinginu vegna þess að hún hefði til þess fylgi.

Ég held að það sé ekkert fordæmi fyrir því hér um margra áratuga skeið að ríkisstjórn fái ekki meiri hluta þingmanna til þess að greiða 4. gr. fjárlagafrv. atkvæði þannig að meiri hluti þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni treysti sér ekki til þess að greiða megingrein fjárlagafrv. atkvæði. Ég ætla ekki að fara í neitt strákslegt orðaskak við hæstv. forsrh. Hann verður auðvitað að hugleiða í einveru og ró hvað hér hefur gerst. Ef hann vill leggja í þá för að halda áfram að reyna að stjórna íslenskri þjóð á miklu erfiðleikatímabili með það bakland sem hér hefur komið í ljós, þá það. En í sérhverju siðmenntuðu lýðræðislandi hefði forsætisráðherra og forustumenn stjórnarflokkanna tekið sér alvarlegan umhugsunarfrest þegar í ljós hefði komið að þeir hefðu ekki stuðning meiri hluta þingsins í annarri atkvæðagreiðslu fjárlaga við það sem er burðarás fjárlagafrv.
    Við munum hins vegar sjá hvað gerist hér eftir helgi en það er eindregin skoðun mín að ríkisstjórn, sem reynist ekki hafa stuðning meiri hluta þingmanna fyrir meginhluta fjárlagafrv., á engan annan kost en að segja af sér. Hvort hún getur tekið sér nokkra daga í viðbót til þess að láta á það reyna hvort hún nær í slíkan meiri hluta það er svo annað mál. En það er alveg ljóst að á þessum degi, hæstv. forsrh., hefur komið fram í formlegri atkvæðagreiðslu á Alþingi að þú hefur ekki þann meiri hluta.