Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:14:00 (2047)

     Jón Helgason (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Ég tel ekki að ég hafi verið að fara í ræðustól áðan til að fá einhvern geislabaug í kringum mig eins og mér fannst hv. 2. þm. Norðurl. v. telja. Erindi mitt var aðeins það að koma með vinsamlega ábendingu til hæstv. forseta um framkvæmd þess atriðis sem vissulega var búið að ná samkomulagi um.
    Ég var spurður að því í þingflokki framsóknarmanna hvort ég gerði athugasemd við það ásamt öðrum þingmönnum þó að farið yrði að þingsköpum og 3. umr. fjárlaga yrði sett á dagskrá. Eins og hér kom fram átti hæstv. forseti auðvitað ekki annars úrkosti en að gera það. En það sem ég var að gera var að koma með ábendingu sem ég taldi að væri

leið til að framkvæma þetta samkomulag þannig að ekki yrði um algera hártogun á þingsköpum að ræða með því að umræðan væri hafin, formaður fjárln. segði einhver orð, hvort sem þau væru mörg eða fá, því mundi hann ráða, til þess að gera grein fyrir þessari stöðu. Þannig fannst mér að væri hægt að framkvæma þetta án þess að til leiðinda kæmi.
    Hér ræddi hv. 2. þm. Norðurl. v. um að atkvæðagreiðslan í gær og málsmeðferð hefði ekkert verið óvanaleg eða afbrigðileg. Það sem eftir stendur hjá mér eftir þá umræðu, sem er fyrst og fremst óvanalegt, er í fyrsta lagi yfirlýsing hæstv. forsrh. áður en hún byrjaði að menn skyldu ekki taka of mikið mark á atkvæðagreiðslum um ákveðna kafla frv. Ég man ekki eftir slíku. Og síðan hitt atriðið þegar hæstv. forsrh. hleypur hér upp í ræðustól og óskar eftir frestun á atkvæðagreiðslu eftir að aðalgrein frv. hafði verið samþykkt lögformlega og á réttan hátt þó að vissulega væri niðurstaðan eða útkoman athyglisverð eins og fyrr hefur verið sagt.