Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 16:08:00 (2119)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Enn einu sinni er iðnrh. farinn til útlanda til að skrifa undir eins og allir vita að hann hefur sérstaklega gaman af. Í þetta sinn ætlar hann að skrifa undir pólitíska stefnuyfirlýsingu, eins og það hefur verið kallað, um orkusáttmála Evrópu. Það má vel vera að hægt sé að túlka það svo að enginn ágreiningur sé um þetta mál. Þó finnst mér, þegar ég les í gegnum þessa texta, að það sé ekki alveg með þeim hætti þó að auðvitað voni ég að það verði fært til betri vegar þannig að allir geti orðið sammála.
    Því hefur verið haldið fram að eðlilegt samráð hafi verið haft hér á Alþingi varðandi þessi mál. Ég get ekki fallist á að það hafi verið alveg eðlilegt þó að það hafi auðvitað verið eitthvað. Þann 12. nóv. komu tilkynningar frá ráðuneytinu, þessi drög að sáttmála eða slitrur vil ég frekar kalla þau. Ef eitthvað eru slitrur, þá eru þetta slitrur því þetta var allt í fyrirvörum. Þetta voru margar greinar en eilífir fyrirvarar og verið að athuga þetta mál og hitt málið þannig að ómögulegt er að segja að það sem við fengum þá hafi verið endanlegt, enda var það sent nefndinni einungis til kynningar og okkur bent á að við gætum fengið afrit af þessum sáttmála ef okkur sýndist svo. Það útvegaði ég mér og ég fékk það þann 20. nóv. Síðan var það tekið fyrir á fundi iðnn. á miðvikudaginn var, 11. des. Þá mættu á fund nefndarinnar fulltrúar iðnrrn. og m.a. Jakob Björnsson sem hefur tekið þátt í undirbúningi þessa sáttmála. Á þeim fundi fengum við plagg sem átti að vera eitthvað meira unnið frá iðnrn., á ensku að vísu, þannig að við urðum auðvitað að hafa hraðar hendur við að lesa það sem þar kom fram og get ég ekki skilið að nokkur hafi ætlast til þess að iðnn. tæki afstöðu til þessa plaggs á þeim fundi, enda var ekkert farið fram á það.
    Við sem þar vorum reyndum samt að krafsa okkur í gegnum þetta plagg og gerðum ýmsar athugasemdir. Það var m.a. gerð athugasemd og spurt um atriði eins og t.d. þetta sem ég vil fá að lesa hér, með leyfi forseta, þegar talað er um á hvaða grunni þetta eigi að byggjast: ,,Það er byggt á reglunni um jafnræði og verðmyndun á markaðsgrundvelli.`` Síðan segir: ,,Í þessu skyni og í samræmi við þessar grundvallarreglur munu þeir grípa til aðgerða á þeim sviðum sem hér segir,`` --- og þegar talað er um ,,þá`` eru það þeir sem að þessum samningi standa --- ,,tryggja aðgang að orkulindum, könnun þeirra, virkjun og nýtingu á viðskiptalegum grundvelli.``
    Nú er því haldið hér fram að mismuna megi eftir þjóðerni. Síðar í þessum sama sáttmála segir hins vegar að þeir sem eru aðilar að honum takist á hendur að auðvelda þeim orkuframleiðendum sem áhuga hafa aðgang að orkulindum og virkjun þeirra. Í þessu

skyni muni þeir tryggja að reglur um öflun eignarréttar á orkulindum, könnun þeirra og virkjun séu almennt tiltækar og gegnsæjar. --- Síðar segir: ,,Í því augnamiði að auðvelda virkjun orkulinda og stuðla að margbreytni í vali á þeim takast undirskrifendur sáttmálans á hendur að forðast að setja reglur sem mismuna þeim sem reka orkumannvirki, sérstaklega reglur er lúta að eignarhaldi á orkulindum.``
    Ég veit ekki hvernig er hægt að lesa í þennan texta. Mín íslenska segir mér að það sem þarna stendur sé mjög skiljanlegt. Síðan fáum við í hendur texta þar sem því er haldið fram að hægt sé að skilja þetta svona og svona, en ég get ekki skilið þennan texta nema á einn veg. Ég fagna því að það er enginn ágreiningur hér uppi, ef það er rétt, en þá þarf líka að breyta þessum texta allverulega ef hægt á að vera að fallast á hann.
    Það kom líka fram á fundi iðnn. um það sem segir í fyrsta kaflanum um markmið, að innan ramma fullveldisríkja og fullveldisréttar þeirra á orkulindum sínum o.s.frv. --- það vefst að vísu fyrir mér að þýða það. Jakob Björnsson upplýsti að í upphafi verið talað um annan texta í þessu sambandi. Þá vildu þeir, hinir sem að þessum sáttmála ætluðu að standa, túlka þann texta á þann veg að þá væri ríkjum ekki heimilt að hafa einokun. Ég veit ekki betur en að við séum einmitt með ríkiseinokun hér á virkjun orkulinda og ef ekki verður hægt að fallast á það að setja þetta orðalag inn á þeim forsendum getur maður ekki skilið þennan texta öðruvísi en að okkur sé ekki heimilt að hafa það fyrirkomulag sem við höfum núna. Ég átta mig því ekki alveg á því hvar þetta mál er statt.
    Ég er ósátt við ýmsa fleiri þætti í þessum sáttmála sem ég hef ekki komið á framfæri áður. T.d. finnst mér umhverfisþátturinn mjög veikur. Þess vegna er margt sem þarf að athuga í þessu máli áður en hægt er að undirrita þennan sáttmála. Ég túlka orð bæði hæstv. forsrh. og hæstv. umhvrh. á þann veg að þeir séu sammála þeim fyrirvörum sem við höfum nú gert og teljum að verði að vera mjög skýrir af okkar hálfu ef við eigum að geta undirritað samninginn. Ég vil mótmæla því sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. í Ríkisútvarpinu í gær þar sem hann segir að iðnn. þingsins hafi fjallað um þetta mál í vikunni --- það er að vísu alveg rétt --- og ,,hafi ekki gert athugasemdir við að við tækjum þátt í þessu með þeim hætti sem hann hafi lagt til og ríkisstjórnin hafi samþykkt.`` Þetta er orðrétt eftir honum haft, með leyfi forseta.
    Mér þykir þetta mjög einkennileg túlkun hæstv. iðnrh. á umfjöllun iðnn. --- hann var að vísu ekki viðstaddur þar sjálfur en einhvers staðar hefur hann fengið þær upplýsingar að við höfum fallist á þetta án athugasemda. Ég held að fleiri geti staðfest að margir höfðu uppi athugasemdir, ekki ég eingöngu og aðrir miklu meiri athugasemdir en ég. Það er því algjör rangtúlkun af hálfu hæstv. iðnrh. að segja að við höfum fallist á þennan sáttmála eins og hann liggur nú fyrir. Þess vegna koma yfirlýsingar hæstv. forsrh., um að hann geti mjög vel fallist á það sem kom fram í máli hæstv. frummælanda, mjög mikið á óvart. Hins vegar fagna ég því mjög og ég er mjög ánægð að heyra það og reikna með að þessu verði breytt til betri vegar.
    Í þessu sambandi bendi ég samt á að í sama viðtali við hæstv. iðnrh. í gærkvöldi spyr fréttamaðurinn, Ingimar Ingimarsson, með leyfi forseta: ,,En opnar þessi sáttmáli að einhverju leyti á möguleika erlendra aðila til þess að fjárfesta í orkufyrirtækjum á Íslandi?`` Jón Sigurðsson iðnrh. svarar: ,,Það má segja það að hann geri það.`` Það passar því ekki alveg við þær yfirlýsingar sem hér hafa komið. Ég vona að þá sé það ekki rétt hjá hæstv. iðnrh. sem hann segir í þessu viðtali.
    Það sem mér finnst skipta máli er að haft sé eðlilegt samráð við þingið um þennan sáttmála því að það er alveg greinilegt að margt í honum orkar mjög tvímælis og þarf nánari athugunar við. Ég tel því eðlilegt að bæði iðnn. þingsins sem og utanrmn., sem lögum samkvæmt á að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, fjalli

um þennan sáttmála og fari ofan í þau ákvæði hans og breyti þeim eða geri þá fyrirvara sem Íslendingar vilja gera til þess að þeir geti fallist á það sem í honum felst.