Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 20:40:00 (2128)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Ég verð að taka undir það sem síðasti ræðumaður sagði, að það er í rauninni algjörlega óviðunandi að eiga að taka þátt í þessari umræðu um breytingar á tekju- og eignarskatti með efh.- og viðskn. á fundi. Það hlýtur að vera markmið okkar sem erum að tala að hafa áhrif á þetta frv. sem hefur verið lagt fram og ná fram á því einhverjum

breytingum. Þess vegna hlýtur að vera nokkuð mikilvægt fyrir efh.- og viðskn. að hlusta á þá umræðu sem hér fer fram þannig að þá sé tekið mið af því þegar farið er að vinna með málið í nefndinni. Ég geri mér svo sem enga grein fyrir því hvort hægt er að gera einhverja kröfu til þess að nefndarmenn sitji hér en mér finnst vægast sagt mjög óeðlilegt að tala án þess að þeir séu viðstaddir.
    Því hefur auðvitað verið haldið fram að undanförnu, og það ekki að ósekju, að nú séu mjög erfiðir tímar og allir verði að taka á sig auknar byrðar. Maður er svo sem ekki óvanur því að heyra þessi rök, sérstaklega þegar að því kemur að gera kjarasamninga, og ýmist er skorað á láglaunafólk í þessu samfélagi eða launafólk að rétta af rangan kúrs í efnhagsmálum, eins og með þjóðarsátt, eða færa stórsóknarfórn fyrir verkalýðsforustuna eða ríkisstjórn, eftir atvikum, eins og gerðist árið 1983. Nú er enn einu sinni komið að því að biðja launafólk í landinu að færa fórnir svo að rétta megi af rangan kúrs. Reyndar er talað við fleiri. Máli forsrh. og ríkisstjórnar er beint til fleiri aðila og í Mbl. nú fyrir skömmu er haft eftir forsrh., með leyfi forseta:
    ,,Það hefur verið viðhorfið við þessa tillögugerð [þ.e. tillögugerð hvað varðar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar] og það hljóta menn að sjá, ef þeir horfa á þær allar, að allir hljóta að verða að leggja sitt af mörkum til þess að þetta takist.``
    Hann talar um sveitarfélögin og segir:
    ,,Vissulega kallar þetta á visst aðhald hjá þeim eins og hjá öllum öðrum, eins og hjá ríki, fyrirtækjum og einstaklingum. Sveitarfélögin eru því hluti af þessum stóra hópi sem tekur þátt í því að axla þennan vanda.``
    Ég fór að velta þessu fyrir mér um daginn. Hverjir eru það --- ef við lítum á tillögur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og tillögur hennar í ríkisfjármálum --- sem eiga að axla þennan vanda? Hverjir eru þessir allir? Fyrst er að telja sveitarfélögin. Yfir á þau er velt um 1,2 milljörðum samkvæmt fyrirliggjandi frv. um tekju- og eignarskatt og bandorminum og þeim tillögum sem enn hafa ekki verið útfærðar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er talað um niðurfellingu á sjómannaafslætti, það eru sem sagt sjómenn sem eiga að taka á sig hluta af þessum vanda. Þar er talað um tölur allt frá 200 upp í 400 millj. kr. Þær tölur virðast nokkuð á reiki. Námsmenn eiga að taka á sig hluta af vandanum í gegnum Lánasjóð ísl. námsmanna. Þar er skorið niður um 500 millj. kr. og í burðarliðnum er frv. sem mun enn skerða kjör þeirra, ekki síst að námi loknu. Launafólk á að taka á sig hluta af byrðunum í gegnum hinn svokallaða ábyrgðasjóð launa og þar á að skera niður um 250 millj. kr.
    Þá komum við að barnabótunum. Þar á að skera niður um 500 millj. kr. og það kemur auðvitað verst niður á barnafjölskyldum í landinu. Skólagjöld í framhaldsskólunum, þar á að taka 140 millj. kr. og hver ætli beri það aðrir en fjölskyldurnar í landinu? Það er líka talað um skólagjöld í Háskóla Íslands upp á 109 millj. kr. Það er talað um að fjölskyldurnar í landinu taki á sig auknar álögur vegna tannviðgerða barna upp á 280 millj. kr. Það á að taka sérstakan niðurskurð í grunnskólunum upp á 40 millj. kr., svo að ekki sé minnst á 5% flatan niðurskurð sem þar er boðaður eins og annars staðar en mundi í grunnskólanum líklega þýða um 220 millj. kr. niðurskurð.
    Ef við tökum saman þessar álögur sem ég hef talið hér upp, sem varða bara launafólk og fjölskyldurnar í landinu --- eða launafólk og barnafólk, getum við sagt --- eru þetta auknar álögur upp 4,2--4,4 milljarða. Hæstv. forsrh. sagði sem sagt að allir ættu að bera auknar byrðar. Ég hlýt hins vegar að spyrja, eftir að hafa farið í gegnum þetta og eftir að hafa skoðað það frv. sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fram um tekju- og eignarskatt: Hvar eru byrðarnar sem þeir eiga að bera sem eru tekjuháir, búnir að koma börnum af höndum sér, hafa eignast sín hús meðan verðbólgan át upp skuldirnar og hafa fé aukreitis til að fjárfesta og kaupa pappíra? Hvar eru byrðarnar sem þeir eiga að bera, hæstv. fjmrh. og hæstv. form. fjárln.? Ég get ekki séð það í þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram. Ég fæ ekki betur séð --- svo að ég noti bara hin réttu orð yfir þetta --- en að vel stæðir karlmenn, sem vel gætu verið í kunningjahópi hæstvirtra ráðherra, miðaldra karlmenn, eigi engar byrðar að bera samkvæmt þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram. Tekjuháir, komnir með börn af höndum sér og hafa fé aukreitis; ég sé ekki að þeir eigi að bera neitt.
    Hvar er hátekjuskatturinn sem Jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur stundum talað um --- eða a.m.k. einhverjir þar innan borðs? Hvar er skattur á fjármagnstekjur sem þessir sömu menn hafa líka stundum talað um? Er þetta það sem Jafnaðarmannaflokkur Íslands, sem að vísu virðist vera fjarri góðu gamni, að undanskildum einum þingmanni, kallar jafnaðarstefnu? Er sú mynd sem birtist manni í tillögum ríkisstjórnarinnar jafnaðarstefna í framkvæmd?
    Og ég hlýt að spyrja: Af hverju er sparað á barnabótum? Af hverju í ósköpunum er sparað á barnabótunum? Af hverju er ekki lækkaður persónufrádráttur allra? Af hverju er þetta ekki tekið af persónufrádrætti allra, jafnt barnafólks sem annarra? Eða skattprósentan hækkuð, af hverju er það ekki gert? Af hverju er farið í barnabæturnar?
    Svarið við þessu er held ég afskaplega einfalt. Þessari ríkisstjórn finnst það pólitískt hættulegt að seilast í persónuafslátt allra eða hækka skattaprósentuna á öllum. Það er bannvara að hækka skatta, en lækkun barnabóta er auðvitað ekkert annað en skattahækkun á tilteknum þjóðfélagshópi. Það er ekkert annað þó að menn geti kallað það einhverjum öðrum nöfnum.
    Það er skoðun mín að tímabært sé, og löngu tímabært, að breyta formi barnabóta þannig að það sé ekki verið að seilast í þessar bætur með jafneinföldum og auðveldum hætti og gert er núna. Það er tímabært að breyta þeim á þann veg að hverju barni fylgi persónuafsláttur sem sé fast hlutfall af persónuafslætti fullorðinna. Með öðrum orðum, þetta hlutfall breytist þá ekki nema krukkað sé í persónuafslátt allra þegna þessa lands, fullorðinna og barna þá jafnt. Mér finnst það í raun fáránlegt að þeirra framfærslukostnaður --- við erum að líta á barnabætur sem mat eða einhvers konar viðurkenningu á því að það fylgi því framfærslukostnaður að vera með börn á sínum snærum --- sé ofurseldur stöðugum breytingum og því að stjórnvöld séu að krukka í hann. Mér finnst það vanvirðing við börn og vanvirðing við framfærendur barna. Þess vegna ættu barnabætur að vera í því formi að persónuafsláttur fylgi börnum jafnt og fullorðnum, þó að barnaafslátturinn sé þá ekki jafnhár heldur ákveðið hlutfall af persónuafslætti fullorðinna. Þar með ætti neikvæður tekjuskattur vegna barna að koma út til greiðslu sem barnabætur til hinna lægst launuðu. Þar fyrir utan væri hægt að vera með tekjutengt barnabótakerfi fyrir þá lægst launuðu, ef menn vilja gera enn betur, og ég tel það mjög eðlilegt að reynt sé að tengja þetta einhvern veginn við tekjur að vissu marki.
    Ég ætlaði nú að benda ágætum kunningja mínum í Alþfl. á ýmislegt sem menn úr grasrótinni þar hafa verið að skrifa um þessa hluti og það væri kannski ekki úr vegi að kratarnir styngju nefinu ofan í grasrótina annað slagið og sæju hvað þar er að finna því að þar er vissulega margt markvert á ferðinni. Og mig langaði bara að benda á, fyrst að hér er staddur norðanmaður úr Alþfl., greinar sem Finnur Birgisson, arkitekt og jafnaðarmaður á Akureyri, hefur skrifað um þessi mál og eru mjög merkilegar.
    Íslenska velferðarkerfið gerir ekkert sérstaklega vel við barnafólk þó að menn haldi það stundum. Barnabætur eru ekki sérlega háar eða merkilegar, og þó að þær séu það ekki verð ég að segja að öll þjónusta við barnafólk er enn verri en barnabæturnar. Það eru til ótal skýrslur um það hvernig þessum málum er fyrir komið hér á landi og hægt að bera það saman við stöðu barnafólks í nágrannalöndum okkar. Ég gerði einu sinni sjálf úttekt

á tveimur skýrslum sem Hagstofa Íslands á hlutdeild í og þær varða fólk á Norðurlöndum og heita annars vegar ,,Familieydelser i Norden 1989`` og ,,Social tryghed i de nordiske lande``. Þar eru þessir hlutir á öllum Norðurlöndunum bornir saman.
    Ef skoðaðar eru ráðstöfunartekjur barnafólks, og þá er ég að tala um launatekjur barnafólksins að viðbættum barnabótum og skattaívilnunum eða öðrum föstum tekjum sem tengjast börnum og veittar eru á Norðurlöndunum, þá kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Við getum tekið dæmi af einstæðri móður með 6 ára barn, annars vegar og útivinnandi hjónum með 6 og 9 ára börn hins vegar. Í báðum tilvikum er reiknað með meðaltekjum iðnverkakvenna og karla. Segja má að Ísland komi vel út úr samanburðinum þegar um einstæða móður er að ræða, en reiknað er með að um 24% af ráðstöfunartekjum hennar stafi af bótum af ýmsu tagi. Hlutfallið fyrir Danmörku er 18%, Finnland 22%, Noreg 24% og Svíþjóð 20%. Í þessu sambandi er hins vegar rétt að geta þess að ráðstöfunartekjur einstæðra mæðra í öllum þessum löndum eru engu að síður hærri en hér á landi, einfaldlega vegna þess að kaupið er hærra þar.
    Þegar kemur að útivinnandi hjónum lítur dæmið ekki eins vel út fyrir Ísland eins og í hinu. Opinber framlög vegna barna eru aðeins um 4% af ráðstöfunartekjum hjóna hér á landi en 5% í Danmörku, 7% í Finnlandi og 8% í Noregi og Svíþjóð. Við erum því mun aftar á merinni hvað það varðar en önnur Norðurlönd.
    Ef við skoðum svo útgjöld sem myndast hjá hinu opinbera vegna framlaga og þjónustu sem er beinlínis í þágu barnafólks er myndin sú að um 2,7% af vergri þjóðarframleiðslu á Íslandi en um 4,2% af vergri þjóðarframleiðslu í Svíþjóð eru útgjöld sem myndast hjá hinu opinbera vegna framlaga og þjónustu sem beinlínis er í þágu barnafjölskyldna. Þessar tölur eru ekki síst athyglisverðar í því ljósi að barnafjöldi er yfirleitt meiri í íslenskum fjölskyldum en sænskum. Þannig fæddust 17 börn á hverja 1.000 íbúa á Íslandi árið 1987 en aðeins 12,5 í Svíþjóð og samt erum við með lægra hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu í opinber útgjöld til barnafólks og ættum í rauninni að vera með hærra hlutfall, miðað við barnafjölda á hverja 1.000 íbúa.
    Mig minnir að það hafi verið í fyrra eða hittiðfyrra að sagt var frá því í fjölmiðlum að kannanir sýndu að íslenskar barnafjölskyldur væru mun óánægðari með kjör sín en slíkar fjölskyldur annars staðar á Norðurlöndum. Það kemur ekkert á óvart. Það þekkja allir sem standa í þeim sporum hversu erfitt það er og slítandi að vera með ung börn í íslensku samfélagi í dag.
    Hins vegar er þessi óánægja sem kom fram í könnununum aðvörun og hún er áminning til stjórnvalda og hún ætti að vera þeim hvatning til að gera betur en þau hafa gert hingað til. En því miður ber frv. um tekju- og eignarskatt það með sér að það stendur alls ekki til að gera betur en hingað til, þvert á móti. Það stendur til að höggva enn í sama knérunn. Barnabætur eru nú lækkaðar samkvæmt frv. en þó þannig að það á að vera gert ráð fyrir aukinni tekjutengingu þannig að barnabótaaukinn hækki á hvert barn. Tekjutengingin er þó ekki meiri en svo, eða kemur ekki þeim lægst launuðu betur til góða en svo að einstæð tveggja barna móðir með 720 þús. kr. tekjur og eignarskattsstofn undir tilskildu lágmarki fær 10 þús. kr. hækkun á ári út úr þessum tilfærslum sem verið er að gera. Það eru nú öll ósköpin. Á móti verður auðvitað að líta á það að skerðingin, sem á að koma niður á þeim sem meiri tekjur hafa er slík að 67% allra hjóna með börn verða fyrir skerðingu.
    Ef við lítum annars vegar á hvernig þetta kemur út fyrir hjón með tvö börn sem eru með um 1.100 þús. í tekjur og eignarskattsstofn undir 8 millj., þetta eru hjónin sem eru í algjöru lágmarki, þá hækka hjá þeim barnabætur og barnabótaauki samanlagt um 6.000 kr. á ári. Núllpunkturinn, þ.e. þegar það skiptir ekki máli hvort kerfið er, það gamla

eða það nýja, er við 2,2 millj. kr. í árstekjur. Síðan byrjar skerðingin strax eftir það og hún er komin að fullu til framkvæmda við 2,4--2,5 millj. kr. í árstekjur. Skerðingin er svo brött að þegar fólkið er komið í 2,4 millj. kr. í árstekjur fær það sömu barnabætur og sömu skerðingu á sig og hin sem hafa 3,5 millj. í tekjur. Þessi skerðing er umtalsverð vegna þess að hún er 35,4%.
    Ef við lítum svo á dæmi sem hvergi er gefið í þessum tölum, ef ég man rétt, um hjón með fjögur börn, er núllpunkturinn hjá þeim, þ.e. þegar það skiptir ekki máli hvort það er nýja kerfið eða gamla sem þau eru í, við 2,4 millj. kr. í árstekjur. Hvaða árstekjur eru það fyrir hjón með fjögur börn? Þau komast ekki af með minna ef þau eiga að framfleyta fjölskyldunni. Það er því algjört lágmark. Skerðingin hjá þessum hjónum, með fjögur börn, er komin fram að fullu við 2,7 millj. kr. í árstekjur, þ.e. núllpunkturinn er er 2,4 millj. kr. og skerðing að fullu við 2,7 millj.
    Þetta finnst mér vera, eins og ég hef oft talað um hér, jöfnun niður á við. Það er verið að taka meðaltekjuhópana í þjóðfélaginu og reyna að ná einhverju af þeim til þess að jafna allt niður á við. Ég held að þetta sé mjög hættuleg stefna vegna þess að hún elur á óánægju meðaltekjufólks sem alltaf verður fyrir barðinu á tekjutengingunni. Það er þetta fólk sem kemst ekki í félagslega kerfið í húsnæðismálum. Það þykir vera of tekjuhátt þó að það sé kannski ekki með meiri tekjur en svo að það eigi í hreinu basli með afborganir í húsbréfakerfinu. Það lendir þarna á milli vita. Það nýtur ekki dagvistarþjónustu nema í mjög takmörkuðum mæli vegna þess að það er gift, það er hjónafólk, og það nýtur engrar þjónustu við börnin sín þegar þau eru komin á skólaldur umfram það sem skólakerfið býður upp á. Það er þetta fólk sem þarf að borga dagvistun á einkaheimilum dýrum dómum, eða fyrir um 25 þús. kr. á mánuði ef það kaupir fulla dagvistun á einkaheimili í dag. Og breyttar barnabætur, sem hæstv. fjmrh. er nú að boða, hrökkva fyrir einu og hálfu til tveimur daggjöldum hjá dagmóður á ári. Það eru nú öll ósköpin sem þetta fólk fær.
    Ég mótmæli harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á barnabótum fyrir mína hönd og fyrir hönd Kvennalistans alls. Ég verð að segja það að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með það hversu linkulega viðbrögð hafa víða verið við þessum niðurskurðaráformum á barnabótunum. Við höfum tekið eftir að það er mjög sterk andstaða við skerðingu á sjómannafrádrætti úti í samfélaginu, enda eru þar mjög sterkir þrýstihópar að verki. Sjómenn eru sterkur hópur sem getur virkjað marga með sér og t.d. hefur Alþýðusamband Íslands tekið undir með sjómönnum. Ekki svo að skilja að ég skilji ekki vel þessa andstöðu sjómanna. Ég skil hana vel vegna þess að málið ber þannig að að það á að skerða þeirra kjör með tilskipun. Í þessu tilviki er stjórnað með tilskipunum eins og svo oft áður. Ég skil vel andstöðuna. Ég verð hins vegar að segja að ég er ósátt við það að sterk hagsmunasamtök úti í samfélaginu skuli ekki hafa verið jafnskelegg í andstöðu sinni við skerðingu barnabóta. Af hverju þykir mönnum það svo miklu frekar koma til álita en skerðing á sjómannaafslætti? Af hverju bregðast menn ekki jafnhart við þegar þessi hópur á í hlut? Þetta veldur vonbrigðum.
    Ég ætla hins vegar ekki að hafa þetta mál mikið lengra. Ég kom hingað upp aðallega til að tala um barnabæturnar og ég mun gera mitt til þess að ná fram einhverjum breytingum á þessu þannig að það verði ekki höggvið í þennan knérunn. Ég ætla að biðja menn í ríkisstjórnarflokkunum um að hætta öllu hræsnisfullu tali um mikilvægi fjölskyldunnar á sama tíma og þeir standa að því að grafa undan henni --- ekki bara þeir, ég er þá ekki að tala bara um ríkisstjórnarflokkana, heldur marga aðra --- og gera líf barnafólks í þessu landi alveg óheyrilega erfitt. Og ég nenni ekki að hlusta í þingsalnum á hjal um velferð á varanlegum grunni þegar vegið er að sjálfum grunninum.