Skattskylda innlánsstofnana

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 02:28:00 (2172)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það var í sjálfu sér ágætt að hæstv. fjmrh. las þann kafla úr minni gömlu ræðu sem hann fór með hér áðan. Sá kafli gaf einmitt til kynna að ég hefði lagt málið þannig fyrir þingið að ég hefði vissar efasemdir um það að málið væri jafneinfalt og ýmsir vildu vera láta. Vandinn hefur bara verið sá fram að þessum næturfundi að hæstv. fjmrh. hefur ekki lagt málið þannig fyrir þingið fyrr en nú. Nú allt í einu kemur hann upp klukkan hálf þrjú um nótt og segir: Það liggur ekkert á þessu. Ég er að prófa hvernig nefndin tekur þessu. Þetta er æfing sem nefndin þarf að fara í gegnum, og vitnar í mig máli sínu til stuðnings. Gott og vel. Ef þetta er þannig, eins og gert var hér 1988 varðandi þann kafla, að þetta sé æfing fyrir nefndina, þá vil ég líka benda hæstv. fjmrh. á að ég reiknaði ekki með tekjum af þessari skattheimtu í fjárlögunum fyrir árið 1989. Það hlýtur þá að vera rökrétt, ef hæstv. fjmrh. vill fylgja þessu fordæmi til hlítar, að hann samþykki að þegar fjárlagafrv. verður afgreitt til 3. umr. verði dregið frá á tekjuhliðinni fyrir þessu. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt. Ekki er hæstv. fjmrh. búinn að segja svo lítið um að þetta verði að vera raunhæf og örugg og traust fjárlög sem verið er að samþykkja núna og síðan komi betri tíð og af sem áður var. Þess vegna fer hæstv. fjmrh. varla fram á það að tekjuhlið fjárlaganna sé byggð á frumvörpum sem eru í fullkominni óvissu. Ég tel því að þessi umræða, rúmur hálftími um miðja nótt, hafi þó skilað því að í fyrsta lagi þori hæstv. samgrh. ekki að segja orð um málið. Hann skammast sín greinilega fyrir að standa að þessu frv. nú. Í öðru lagi hefur hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýst því yfir að hann sé á móti þessu frv. eins og hann var 1988. Í þriðja hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að hann vilji að nefndin taki sér góðan tíma í að skoða þetta og liggi ekkert á að taka það aftur til meðferðar fyrr en einhvern tíma í janúar. Þá hlýtur í fjórða lagi niðurstaðan af þessari umræðu að vera sú að fjárln. dragi frá þær nokkur hundruð milljónir --- nú hristir hæstv. fjmrh. hausinn --- það er nefnilega það. Það á sem sagt að fara að falsa tekjuhliðina í fjárlagafrv. með því að reikna þar með tekjum af skattlagningu þegar frumvörpin eru í fullkominni óvissu. Hæstv. fjmrh. segir að þetta geti verið mjög flókið og erfitt mál sem nefndin eigi að skoða rækilega í þinginu. Ég trúi því bara ekki að þessi höfuðhristingur fjmrh. hafi í raun þýtt að hann meini það í alvöru að hann ætli að krefjast þess við 3. umr. að reiknað sé með tekjum inni í fjárlagafrv. af þessari skattlagningu. (Gripið fram í.) Það hefur aldrei verið gert, sagði hæstv. samgrh. og oft ratast kjöftugum satt orð á munn. Hæstv. samgrh. er kannski kominn í hlutverk barnsins í ævintýri H.C. Andersens. Þetta skrapp hins vegar þannig út úr ráðherranum að hann tók fyrir munninn og flýtti sér út úr salnum, því auðvitað sagði hann satt, hæstv. fjmrh. Og það var það sem við gerðum í desember 1988. Við reiknuðum ekki með tekjum af þessari skattlagningu inni í fjárlögunum fyrir árið 1989.
    Ég ætla ekki að ganga meira á hæstv. fjmrh. um það atriði í þessari umræðu. Hann hlýtur að sjá það þegar hann hugleiðir málið betur og ræðir við sína samstarfsaðila, bæði embættismenn og ráðherra. Það gengur auðvitað ekki að krefjast þess að reiknað sé með

tekjum af þessu í tekjuhlið fjárlagafrv. Það væri fáheyrt að bjóða þinginu það. Ég mun þess vegna ekki knýja á um það að hæstv. ráðherra komi aftur upp í stólinn. Hann hlýtur að sjá það þegar hann skoðar málið betur að það gengur ekki upp.
    Það ber að þakka fyrir, þótt þessi umræða hafi ekki leitt neitt í ljós um hvers vegna Sjálfstfl. hefur skipt um skoðun sem flokkur og þótt einstakir þingmenn flokksins hafi ekki skipt um skoðun, að þá hefur hún þegar skilað þeim árangri að þetta frv. verður lagt í salt fram yfir hátíðar. Það verður í pækli og svo mun það bara skýrast einhvern tíma á nýju ári. (Gripið fram í.) Það er hugsanlegt en það mun koma í ljós einhvern tíma á nýju ári hvort örlög þess verða hin sömu og hjá hæstv. núv. sjútvrh., hæstv. núv. utanrrh., þeim sem hér stendur. Núv. hæstv. fjmrh. er hér með boðinn velkominn í klúbbinn, að vera fjórði fjmrh. sem reynir að fara í þessa för en daga uppi einhvers staðar á heiðunum í málinu og við ætlum ekki að gera mikið úr því. Það hafa fleiri hlotið þau örlög og lotið lögmálum skynseminnar í þessum efnum. Hins vegar verður gaman að vita hvort embættismenn fjmrn. prófa það á næsta fjmrh. að koma með þetta mál inn í þingið.