Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 18:43:00 (2216)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að það var ætlun mín að taka til máls við lok þessarar umræðu Umræðan þróaðist reyndar með þeim hætti fyrr í dag að ýmis þau sjónarmið sem komu fram í fyrri hluta umræðunnar féllu í skuggann fyrir snörpum orðaskiptum hv. 8. þm. Reykn. og hæstv. utanrrh.
    Hv. 15. þm. Reykv. flutti ræðu og spurðist fyrir um nokkur atriði og mér finnst ástæða til þess að nefna það þegar spurt er um rökin fyrir áframhaldandi gjaldtöku þá koma

þau fyrir í greinargerðinni með frv. á bls. 2 en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Uppsöfnunaráhrifa söluskatts gætir enn í rekstrarkostnaði iðnaðar af þrem orsökum, þ.e. vegna fasteigna sem komu til fyrir upptöku virðisaukaskatts, vegna viðhalds og endurbóta véla og vegna flutningatækja. Þjóðhagsstofnun hefur lagt mat á hversu mikil þessi áhrif eru. Samkvæmt niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar er áætlað að uppsafnaður söluskattur hafi numið 5,6% af framreiknuðu stofnverði rekstarfjármuna í iðnaði í árslok 1989. Söluskattur í afskriftum í hlutfalli við rekstrarkostnað er áætlaður rúmlega 0,2%. Að teknu tilliti til 6% raunvaxta af söluskattshluta til rekstrarfjármuna verður uppsafnaður söluskattur um 0,6% af rekstrarkostnaði iðnaðar. Samkvæmt Þjóðhagsstofnun er endingartími þeirra fjármuna sem hér um ræðir allt frá örfáum árum til 25 ára. Mest munar þó um fasteignir sem hafa endingartíma á bilinu 12--25 ár, miðað við gefnar forsendur.``
    Það sem þetta þýðir --- ég ætlaði nú að fara að segja á mæltu máli, ég held að það sé ágætlega skýrt --- er það að það er álit Þjóðhagsstofnunar að í varanlegum eignum iðnfyrirtækja sé verulegur uppsafnaður söluskattur og hann sé þar til staðar í rekstrinum á meðan þessar eignir hafa ekki verið afskrifaðar að fullu í bókhaldi fyrirtækja. Þetta voru meginrök hv. þm., fyrrv. fjmrh., þegar frv. var lagt fram fyrir ári og þessi rök eiga jafnvel við enn því það tekur áreiðanlega nokkur ár að greiða fyrirtækjunum muninn með þessum hætti sem hér er minnst á. Ég skal hins vegar viðurkenna að þessi rök, jafngóð og þau eru, hafa verið umdeild og ýmsir töldu þau ekki nægja til þess að halda áfram að taka inn gjaldið. Þó hygg ég að þetta hafi verið úrslitaatriði fyrir ári þegar þáverandi ríkisstjórn ákvað að láta gjaldið lifa í eitt ár í viðbót þrátt fyrir mótmæli hæstv. utanrrh. en þau mál voru skýrð ágætlega vel í dag í viðræðum hv. 8. þm. Reykn. og hæstv. ráðherra.
    Að öðru leyti má vísa til þess sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði um aðstöðugjaldið. Reyndar stóð aldrei til að leggja á jöfnunargjald vegna uppsöfnunaráhrifa í aðstöðugjaldinu, en það breytir hins vegar ekki því að aðstöðugjaldið hefur uppsöfnunaráhrif með svipuðum hætti og söluskatturinn hafði.
    Þá kem ég að málshöfðun á Íslandi. Ég hef satt að segja ekki kannað það mál ofan í kjölinn en í fljótu bragði sýnist mér að fyrirtæki hér á landi sem flytja inn vörur, sem bera jöfnunargjald, verði að greiða jöfnunargjaldið möglunarlaust enda eru þetta íslensk lög. Þeir sem geta haft uppi mótmæli eru fyrst og fremst aðilar í samkeppnislöndunum innan EFTA og í þeim ríkjum sem við höfum gert viðskiptasamninga við og þeir geta þá gripið til þess ráðs að kæra Íslendinga fyrir brot á viðskiptasamningum og þá verða viðkomandi þjóðir að beita svokölluðum gagnráðstöfunum sem nokkurn tíma tekur að koma í gang. Þessum gagnráðstöfunum hefur ekki verið beitt gegn Íslendingum og það er trú ríkisstjórnarinnar að það verði ekki gert, m.a. af þeim rökum sem fram koma í greinargerðinni, ef ljóst er að gjaldið er aðeins sett á til bráðabirgða og hverfur um mitt ár.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þetta mál. Ég vil aðeins í lokin þakka þann víðtæka stuðning sem fram hefur komið við þetta frv. Ég verð þó að hryggja áköfustu stuðningsmenn jöfnunargjaldsins með því að ekki stendur til að framlengja gjaldið nema til 1. júlí nk.