Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 13:37:00 (2227)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Okkur sem störfum í efh.- og viðskn. var það í sjálfu sér ljóst í gær að það var ætlun meiri hluta nefndarinnar að taka svokallaðan bandorm út úr nefndinni. Hitt er svo annað mál að þar hafa verið að koma fram upplýsingar sem komu okkur á óvart. Og það er alveg ljóst að það sem kom mest á óvart eru þau áhrif sem svokallaður skattur vegna löggæslu mun hafa á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er alveg ljóst að þar er um veruleg áhrif að ræða. Það má vel vera að hæstv. ríkisstjórn og sá meiri hluti, sem stendur að baki hennar, hafi engan áhuga fyrir að kanna þau mál til hlítar og sé nánast alveg sama um hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélögin. En það vill svo til að við sem skipum minni hluta nefndarinnar höfðum áhuga fyrir því að kynna okkur þetta betur en til þess var enginn tími. Það varð að taka málið út og við fengum nánast ekki ráðrúm til þess að ræða þetta til hlítar við fulltrúa sveitarfélaganna.
    Nú er það að sjálfsögðu á valdi meiri hluta nefndarinnar hvernig vinnubrögðum er hagað. Það er alveg ljóst að við munum kalla eftir upplýsingum um þetta mál hér í umræðum um málið. Og ef það þykja hentugri vinnubrögð hér á Alþingi af hálfu forsetadæmisins og ríkisstjórnarinnar, þá gott og vel. Þá fer tími þingsins í það.
    Síðan er rétt að geta þess, virðulegur forseti, að efh.- og viðskn. á eftir að fjalla um tekjugrein fjárlaganna. Það hefur ekki enn þá unnist tími til að fá Þjóðhagsstofnun til fundar til að fjalla um tekjugrein fjárlaganna og mér er ekki alveg kunnugt um hvernig því er háttað í hæstv. fjárln. Mér skilst að 3. umr. fjárlaga eigi að fara fram á morgun og það er alveg ljóst að efh.- og viðskn. verður að fá ráðrúm a.m.k. til að koma saman út af málinu. Og jafnvel þótt ekki sé tími til langra umræðna þar þá vænti ég þess að meiri hluti nefndarinnar muni a.m.k. ekki skila nál. nema kalla fund saman um það mál.
    Síðan er það svo að frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt snertir að sjálfsögðu tekjuhlið fjárlaganna og það mál er allt í uppnámi. Það frv. er þannig unnið að það stenst ekki tæknilega. Það hefur komið fram. Ekkert samráð hefur verið haft við aðila vinnumarkaðarins og alveg er ljóst að við höfum a.m.k. áhuga á því að flytja brtt. sem eru flóknar og ég treysti mér ekki til að ganga frá þeim nema fá sérfræðinga til fundar til að hjálpa við það. Ég veit ekkert hvaða sérfræðinga fjmrn. notar almennt til að hjálpa til við brtt. í fjárlagafrv. Maður heyrir það í sjónvarpinu að það séu einhverjir ákveðnir þingmenn hér sem eru hjálparkokkar í þeim efnum. Mér er ekki kunnugt um að þeir hafi sérfræðikunnáttu í þeim efnum og við hljótum að krefjast þess að þau mál séu a.m.k. kynnt í efh.- og viðskn. þó að ég viðurkenni að sjálfsögðu að hv. þm. sem er annt um mál hljóta að reyna að hafa áhrif á að þau séu færð til betri vegar. Það skil ég vel.
    Síðast en ekki síst var tekið út úr nefnd í gærkvöldi frv. til laga um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Það var gert skömmu fyrir klukkan tíu og ég spurði á þessum fundum hvernig menn hygðust haga störfum hér í dag. Hvort það yrði ráðrúm til að ræða þessi mál í dag út af öðrum málum. Það gekk mikið á að ljúka þeim. Ég talaði við aðra minnihlutamenn í örfáar mínútur og þegar ég kom inn á Alþingi til að ná í gögn var verið að slíta fundi sem væntanlega hefur verið þessi útbýtingarfundur sem þessu hefur verið deilt út á. En það hafa verið mjög snör handtök, svo ekki sé nú meira sagt. Það kom mér nokkuð á óvart því ekki var ljóst að verið væri að útbýta skjölum.
    Svo er í annan stað, hæstv. forseti, þannig með þetta frv. að í lögum stendur í ákvæði til bráðabirgða II., eftirfarandi grein:
    ,,Sjávarútvegsráðherra skal fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við þá endurskoðun.``
    Nú er það ljóst að ekki hefur verið haft samráð við sjútvn. um þetta mál, en látum það vera, málið er í hennar höndum. En upplýst hefur verið í nefndinni að það hefur ekkert samráð verið haft við hagsmunasamtök í sjávarútvegi. Nú vil ég spyrja hæstv. forseta: Telur forseti eðlilegt að taka hér fyrir mál þar sem Alþingi hefur lýst yfir vilja sínum að kröfu þingmanna á þeim tíma og þessi vilji er ekki virtur? Er hægt að taka þetta mál fyrir, hæstv. forseti, fyrr en vilji þingsins hefur verið virtur?