Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:13:00 (2236)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Mér finnst þarft og gott að menn ræði saman sín á milli um framkvæmd og tilhögun þinghaldsins en mér finnst satt að segja að það þurfi líka að vera lágmarkstrúnaður á milli manna. Mér finnst líka að lágmarksvirðing þurfi að vera á milli manna. Ég tel að þrátt fyrir allt hafi það tekist í hópi okkar þingflokksformanna. En ég verð að segja að mig rekur í rogastans að hlusta á ræðu hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Ég verð að segja að mér þykir illt að sitja undir því að fá á mig ásakanir um að hafa, eins og ég skrifa orðrétt eftir henni, sent út röng gögn til þeirra aðila sem ég bað um umsagnir um þetta frv. Hún orðaði það svoleiðis. Því er rétt að það komi fram að það sem ég sendi út var frv. til laga, sem liggur fyrir, um breytingar á Hagræðingarsjóðnum ásamt þeim brtt. sem fram höfðu komið í nefndinni. Það var það sem ég sendi út. Í greinargerð með því frv. eru dregnar skýrum línum þær breytingar sem eru á frv. frá fyrri lögum þannig að þeir sem hafa lesið það ættu ekki að velkjast í vafa um hvað þarna var að gerast. Mér finnst verulega slæmt að heyra hér frá félaga mínum úr sjútvn. og úr hópi þingflokksformanna, sem ég á marga fundi með á hverjum degi, ásakanir um að ég hafi sent út röng gögn. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Ég veit ekki á hvaða plani svona

umræða er að verða, hv. þm. Anna Ólafsdóttir.
    Hvað varðar þennan útbýtingarfund er rétt að það komi líka fram að hann var ræddur á fundi formanna þingflokkanna með forseta. Og ég held að það sé rétt að menn tali tæpitungulaust hérna og komi sér að efninu, því efni sem hv. þm. Finnur Ingólfsson vék að áðan: Hvenær ætlum við að ljúka þinghaldi fyrir jól?
    Það hefur komið skýrt fram, bæði úr hópi stjórnarandstöðuþingmanna og eins frá hv. þm. stjórnar og jafnvel ráðherrum, að við erum ýmsir í þessum sölum e.t.v. lítið eitt bugaðir af reynsluleysi. Ég kann svo sem ekki þær hefðir sem menn vinna hér eftir. Ég er bara vanur því að ef menn eru að semja þá gera þeir það. Það var þess vegna sem ég beitti mér fyrir því eftir umræður í þingflokki Alþfl. að lagt var fram tilboð til stjórnarandstöðunnar, til formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar, um hvernig bæri að haga þinglokum fyrir jól og ég óskaði formlega eftir því í gær að þessu tilboði yrði svarað. Þetta tilboð var lagt fram, ef ég man rétt, síðasta laugardag. Ég óskaði formlega eftir því að þessu tilboði yrði svarað. Það svar hefur ekki komið enn þá. Þegar ég innti eftir því á fundi formanna þingflokkanna fyrr í dag, hvenær væri von á því og af hverju menn vildu ekki koma með gagntilboð, var því svarað að það væri erfitt því mörg mál væru á floti. Það er afstaða sem ber að virða, ég skil hana. Mér finnst líka að þá skuldi
a.m.k. þeir sem reyndari eru í hópi þingflokksformanna, reyndari en við nýsveinar sem erum mjög bugaðir af reynsluleysi, okkur það að segja okkur að allt sé á floti og þess vegna komi ekkert gagntilboð.
    Málið er einfaldlega þetta: Við verðum að semja um það hvenær við ætlum að ljúka þessu og hvernig við ætlum að gera það. Í þeim samningum verða menn auðvitað, og ég lýsi því yfir fyrir hönd míns flokks, að slá af einhverjum hlutum en það verður að gerast á báða bóga. Ég lýsi því líka yfir að ég tel að rétt sé að við gerum hlé á þessum fundi og formenn þingflokkanna setjist niður og við förum yfir þessi mál, könnum hvort ekki sé rétt og mögulegt að fara að þeirri vingjarnlegu ábendingu hv. þm. Finns Ingólfssonar að menn komi sér saman um þinglok. Þingmaðurinn er yfirleitt tillögugóður og þetta er með betri tillögum sem hann hefur komið með langa hríð.