Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:32:00 (2242)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það var rétt sem fram kom í máli forseta að hér gekk allt með miklum myndarbrag í gær en stjórnarþingmenn þoldu það illa og þeir voru ekki fyrr komnir hér út úr húsi en þeir hófu önnur vinnubrögð. En í máli mínu áðan beindi ég spurningu til ráðherra. Nú er hæstv. forsrh. ekki viðstaddur sýnist mér og er fátt hér um ráðherra. Þeim þykir greinilega ekki mikil nauðsyn á því að fylgjast með umræðu um stöðu mála. En ég spurði hvar væri verið að vinna að breytingum á sjómannaafslættinum fyrst ekki er verið að vinna að þeim í efh.- og viðskn. Hvar fer sú vinna fram? Það kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að það væri verið að vinna að þessum málum og ég vil fá það upplýst. Hvar er verið að vinna að þessu?