Samstarfssamningur Norðurlanda

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 20:39:00 (2254)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. gerði í framsögu grein fyrir efni og þýðingu þessarar þáltill. og ætla ég ekki að rekja það frekar né heldur ætla ég að hefja hér almennar umræður um hina norrænu samvinnu. Það væri vissulega áhugavert en til þess er kannski hvorki staður né stund í þessum jólaföstuönnum þingsins, en til þess þurfa að gefast góð tækifæri áður en langt um líður. Þau munu gefast þegar skýrsla um þau mál verður lögð fram á þinginu. Ég mun sem samstarfsráðherra núna fljótlega eftir áramótin óska eftir fundi með Íslandsdeild Norðurlandaráðs einmitt til að ræða stöðu norrænnar samvinnu og þau tímamót eða þær krossgötur sem menn eru komnir þar að.
    Ég vil aðeins staðfesta það að sá skilningur, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lýsti hér áðan á því að tryggð sé eðlileg hlutdeild Íslendinga í trúnaðarstöðum í starfaskiptingu í Norðurlandaráði, er réttur. Ákvæði um þetta er að finna í starfsreglum kjörnefndar Norðurlandaráðs þar sem ég raunar hygg að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eigi sæti.
    Ég fagna því að hér skuli vera um algjört samkomulagsmál allra þingflokka að ræða, fagna sömuleiðis þeirri yfirlýsingu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, formanns utanrmn., um að nefndin muni afgreiða þetta mál fljótt. En þannig háttar til að formsins vegna, til þess að þessar breytingar geti tekið gildi á réttum tíma og samtímis alls staðar, þarf Alþingi Íslendinga að samþykkja tillögu um þessar breytingar nú fyrir áramót.