Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 21:14:00 (2265)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Til að skýra aðeins nánar hvernig þetta hefur gengið fyrir sig í dag og vegna orða hv. formanns efh.- og viðskn. er rétt að upphaflega var hugmyndin að kveðja efh.- og viðskn. saman klukkan þrjú í dag við þær aðstæður að hálfgert upplausnarástand ríkti í þinginu. Þar rak sig hvað á annars horn og tíma manna varð ósköp einfaldlega ekki ráðstafað þannig að þeir væru á tveimur til þremur stöðum samtímis. Þá var alls ekki ljóst hvernig framhald funda yrði hér. Það mun vera sá sem hér talar sem gæti átt nokkra sök á því að formaður nefndarinnar tók þá ákvörðun að fresta fundinum um klukkustund vegna þess að ég sendi þau skilaboð með starfsmanni efh.- og viðskn. að fengist klukkutíma hlé þá myndi takast að ganga frá nál. minni hluta efh.- og viðskn. í bandormsfrumvarpinu, hvað og var gert. Sú ákvörðun kom því þó til leiðar að það nál. komst í vélritun og fjölföldun í þinginu og liggur nú hér fyrir og er forsenda þess, hæstv. forseti, að unnt er að taka það mál á dagskrá. Þannig að ég held að við eigum ekki að sýta það að þetta tókst.
    Hins vegar er ekki þar með sagt að menn væru að biðja um eða samþykkja að efh.- og viðskn. fundaði á hefðbundnum þingflokksfundartíma enda er það afar sjaldgæft að gripið sé til þess ráðs að setja nefndarfundi eða annað starf í þinginu ofan í hina föstu fundatíma þingflokka.
    Í öðru lagi varðandi þá yfirferð á tekjuhlið fjárlagafrv., sem fram fór á fundi efh.- og viðskn. síðar í dag við afar knappar aðstæður, þá tek ég undir með starfandi formanni nefndarinnar að svo langt sem það náði var það ágæt yfirferð. Við fengum nokkuð greinargóða lýsingu hjá formanni Þjóðhagsstofnunar, forseta eða framkvæmdastjóra eða hvað hann heitir, og síðan starfsmönnum fjmrn. En ég ætla þá líka að lýsa í hverju þetta fólst: Í því eingöngu að þessir menn renndu yfir töflur, sem við höfðum fyrir framan okkur og okkur gafst kostur á að spyrja þá út úr eftir því sem við á staðnum og stundinni gátum glöggvað okkur á hlutum og borið fram slíkar spurningar. Umsvifalaust, er þeirri yfirferð var lokið, --- sem út af fyrir sig var ágætt --- var tilkynnt að nú yrði að taka málið út úr nefnd og skila nál. Ég þarf ekki að segja meira, virðulegur forseti, þetta segir í raun og veru allt sem segja þarf um þær aðstæður sem okkur voru þarna skapaðar. Það verður auðvitað að segjast eins og er að þetta er sorgleg niðurstaða framkvæmdar þeirra lagaákvæða í þingsköpum sem eru í 25. gr. og ég ætla að leyfa mér að lesa, forseti. Þau eru svona:
    ,,Til efnahags- og viðskiptanefndar vísar fjárlaganefnd frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps`` --- þ.e. 3. gr. fjárlagafrv. --- ,,Nefndirnar skila fjárlaganefnd áliti og tillögum svo tímanlega fyrir 2. umr. fjárlaga sem fjárlaganefnd ákveður. Efnahags- og viðskiptanefnd skal gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. Álit og tillögur nefndanna skal prenta sem fylgiskjöl með nefndaráliti fjárlaganefndar eða meiri hluta hennar við 3. umr. . . . ``
    Það sem hér hefur síðan gerst er að þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefur ekki unnist tími fyrr en í dag að hefja þessa vinnu við að skoða tekjugrein fjárlagafrv. Ég hef á undanförnum dögum og vikum, líklega í þrígang ef ekki fjórum sinnum, spurst um það, fyrst formann nefndarinnar og síðan starfandi formann, hvenær nefndinni gefist tími til að hefja þessa vinnu. Það tókst ekki eða var ekki sett á dagskrá fyrr en í dag. Þetta leiddi til þess, hæstv. forseti, að þessi vinna lá ekki fyrir við 2. umr. fjárlaga eins og á að vera samkvæmt lögum. Því miður mun sennilega hafa láðst að leita afbrigða fyrir því að 2. umr. fjárlaga gæti farið fram af því að þessari lagaskyldu var ekki fullnægt. Þá hef ég að sjálfsögðu litið svo á að betra væri seint en aldrei og það væri þá skárra en ekki að þessi vinna færi fram fyrir 3. umr. Í því ljósi verður auðvitað efh.- og viðskn. ekki aðeins að skila áliti um áhrif skattalagabreytinga heldur og um alla tekjugreinina, 3. gr. Og það er þetta nál. sem minni hlutinn hefur beðið um tíma til að fá að vinna í kvöld eða nótt.
    Það að vísa til yfirferðarinnar, sem fram fór í nefndinni 15. okt., nær ekki máli vegna þess að allir hv. alþingismenn vita hversu gerbreyttar forsendur eru nú á grundvelli nýrrar þjóðhagsspár og stórra tíðinda í okkar efnahags- og atvinnumálum eins og þeim að ekki verður af byggingu álvers og ýmsu fleira. (Forseti hringir.)
    Að lokum, hæstv. forseti, eru róleg orð hér, ég held að þetta sé einfaldlega þannig að allir séu að reyna að gera sitt besta við erfiðar aðstæður. Ein staðreynd verður auðvitað að vera hér öllum ljós og hún er þessi --- sem undirritaður hefur oft upplifað: Það má reyna að vera á tveimur stöðum í einu en það tekst aldrei að vera á þremur.