Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 23:50:00 (2273)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
     Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. efh.- og viðskn. sem skilar sameiginlegu nál. á þskj. 299. Þetta mál, herra forseti, er flutt af hæstv. forsrh. eins og venja er og eðlilegt þar sem um safnfrumvarp eða bandorm er að ræða, en það breytir auðvitað ekki hinu að hinir einstöku kaflar þess lúta að málefnum fagráðherranna. Þess vegna er það mín fyrsta ósk, herra forseti, að þeir fagráðherrar sem hér eiga mál undir, sýni okkur þá tillitssemi að vera viðstaddir þessa umræðu eftir því sem nokkur kostur er. Ég bendi á að ég mun taka hlutina fyrir í þeirri röð sem kaflar frv. og brtt. meiri hluta gefa tilefni til þannig að einstakir ráðherrar geta þess vegna svolítið skipulagt það hvenær viðvera þeirra í hverju tilviki er æskileg. Ég mun ekki gera óskir um það að ráðherrar séu viðstaddir nema á meðan þeirra málaflokkur er gerður að umtalsefni. Þetta finnst mér, herra forseti, svo sanngjörn ósk og réttmæt að ég veit að ég þarf ekki að fjölyrða um það frekar og hún verður að sjálfsögðu virt og uppfyllt.
    Við sem hér störfum núna nánast sólarhringunum saman hljótum að gera þá kröfu til þess að ýmsir aðrir, þar á meðal hæstv. ráðherrar, sem þrátt fyrir allt hafa sennilega á vissan hátt meiri stjórn á sínum tíma nákvæmlega þessa sólarhringa en t.d. við nefndarmenn í efh.- og viðskn., hjálpi til í þessum efnum.
    Ég þarf ekki að rekja það hvaða ráðherrar þetta eru, en það byrjar á hæstv. menntmrh., sem vel að merkja er viðstaddur. Síðan koma þeir hver á fætur öðrum. --- Forseti, ef ég gæti fengið eitt eintak af þingskjalinu sjálfu og brtt. meiri hluta í ræðustól þá væri það vel þegið, ég er eingöngu með nál. því miður. Mér láðist að taka önnur þingskjöl með. Hér hefur mér borist aðstoð frá hv. þm. Vesturlands, formanni hafnasambands sveitarfélaga og fór nú vel á því að hann legði þessu máli lið og greiddi götu þess í gegnum þingið.
    En auðvitað er það fyrst og fremst hæstv. forsrh. sem ég beini máli mínu til í almennum dráttum sem hlýtur að vera viðstaddur. Ég ætlaði lítillega áður en ég fer að rekja nál. sjálft og afstöðu minni hluta að ræða um vinnubrögð og segja um þau efni nokkur almenn orð og þá hefði mér þótt vænt um að hæstv. forsrh. væri í salnum og sömuleiðis hæstv. félmrh. Hér eru málefni sem lúta mjög að samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna og þar hafa hlutir þróast með þeim hætti, virðulegur forseti, að ég held að það hljóti að vera fleirum áhyggjuefni en ræðumanni hvernig andrúmsloftið hefur þróast í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna síðustu sólarhringana og vikurnar. Ég óska því eftir því að hæstv. félmrh. verði sömuleiðis viðstaddur þegar ég ræði um þau efni ásamt hæstv. forsrh.
    Herra forseti. Efh.- og viðskn. hefur á þeim skamma tíma sem henni gafst reynt eftir föngum að kanna efni þessa frv. Það var sem betur fer fallist á þá tillögu stjórnarandstöðunnar við 1. umr. málsins að vísa helstu efnisköflum þessa safnfrumvarps eða bandorms til viðkomandi fagnefnda. Þess vegna mun ég hér í álitinu þegar ég rek afstöðu minni hlutans iðulega vísa í álit nefndanna í heild sinni eða meiri hluta þeirra eins og t.d. landbn. eða minni hluta eftir atvikum. Ég tel að sú málsmeðferð hafi verið þeim mun mikilvægari sem frv. er þannig upp byggt að þar ægir saman hreinum faglegum atriðum sem og hinum fjármálalegu. Ég tel líka t.d. að í tveimur tilvikum, í heilbr.- og trn. og allshn. þar sem náðist full samstaða, hafi þessi vinnubrögð sýnt og sannað gildi sitt, að þrátt fyrir allt gátu menn í einstökum nefndum þar sem þannig var að málum staðið náð samkomulagi um meðferð og afgreiðslur á þeim köflum sem til þeirra heyrðu. Að sjálfsögðu ber að fagna slíku.
    En síðan, áður en ég rek þetta frekar, er mér óhjákvæmilegt, herra forseti, að fjalla nokkuð um vinnuaðstæður sem efh.- og viðskn. voru skapaðar. Þar ber auðvitað hæst þá staðreynd að hæstv. ríkisstjórnin sjálf hafði ekki þegar frv. var tekið fyrir komið sér saman um mjög veigamikla þætti efnahags- og ríkisfjármálanna og reyndar leikur vafi á því að svo sé enn. Þetta leiddi til þess eins og alkunnugt er að fullkomin óvissa ríkti á þingi um stöðu veigamikilla mála. Frv. sjálft eins og það var fram lagt fól í raun

og veru einungis í sér útfærslu á þeim sparnaðarráðstöfunum og niðurskurði þeim sem boðaður var þegar í byrjun októbermánaðar með greinargerð fjárlagafrv. Þannig var það auðvitað ljóst að þegar það birtist í þinginu var það orðið úrelt og er svo enn frekar nú. Síðan bjuggum við við það á meðan við vorum í fyrsta lagi að ræða þetta frv. í þinginu og í öðru lagi að vinna við það í efh.- og viðskn. að ákvarðanir um viðbótarniðurskurð eða aðrar ráðstafanir bárust þingmönnum gegnum fjölmiðla, gjarnan eftir næturfundi og tóku síðan breytingum eða jafnvel gufuðu upp og urðu að engu á næstu sólarhringum. Þannig fór t.d. mikill tími í það í síðustu viku eins og menn þekkja að ræða einhliða ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að velta yfir á sveitarfélögin verkefnum á sviðum málefnum fatlaðra með tilheyrandi kostnaði upp á 400 millj. kr. auk 300 millj. kr. upptöku á tekjustofnum sveitarfélaga. Eftir mjög hörð viðbrögð gaf ríkisstjórnin þau áform upp á bátinn. Í stað þessa fóru síðan um síðustu helgi að kvisast fréttir af því að nú hygðist ríkisstjórnin láta leggja á nefskatt sem til málamynda yrði merktur útgjöldum ríkisins vegna löggæslu --- til málamynda að sjálfsögðu þar sem ekki stendur til að tengja það verkefni við sveitarfélögin hvað framkvæmdina eða forræði snertir. Þessi áform ásamt fleirum birtust svo nefndarmönnum stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn. í formi brtt. frá meiri hlutanum á mánudagsmorgun, þ.e. fyrir rúmum tveimur sólarhringum og gefur þá auga leið hver hefur verið aðstaða hv. þm. til að skoða þessi mál. Þetta þýðir að þeir hv. þm. sem voru ekki á hinum fræga útbýtingarfundi þar sem forseti átti eintal við sjálfan sig í gærkvöldi og mættu hér til fundar á venjulegum tíma í dag klukkan eitt, sáu þá í fyrsta sinn í formi brtt. meiri hlutans þau afdrifaríku og umdeildu atriði sem lúta t.d. að málefnum sveitarfélaganna í þessu frv. Þannig að hv. alþingismenn, sem eru hér að taka þátt í 2. og næstsíðustu umræðu um þetta mál á þinginu, hafa haft fáeinar klukkustundir til að skoða þessi afdrifaríku mál þar sem m.a. er verið að velta yfir á sveitarfélögin í landinu í formi fráleitrar, óréttlátrar og í raun óréttmætrar skattlagningar 700 millj. kr. útgjöldum. Þetta segir auðvitað allt sem segja þarf um þær aðstæður sem mönnum eru hér búnar til að taka vitibornar ákvarðanir um vandasöm málefni.
    Þessi upptalning, sem ég hef flutt, ásamt þeirri augljósu og algeru upplausn sem ríkt hefur á stjórnarheimilinu undanfarna sólarhringa og birst allri þjóðinni þannig að enginn velkist í neinum vafa um það hvernig þar er ástatt, ætti að nægja til að gefa mönnum hugmynd um þær óviðunandi aðstæður sem efh.- og viðskn. voru skapaðar.
    Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að gera að umtalsefni --- og verð þá að spyrja hæstv. forseta hvað líði nærveru hæstv. félmrh. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að ráðherra komi.) Það væri mjög æskilegt, hæstv. forseti, ef hægt væri að upplýsa hvort það gæti orðið fljótlega því ég ætlaði að koma hér að þeim hluta máls míns sem lýtur að viðskiptum og vinnubrögðum gagnvart aðilum eins og sveitarfélögum. Ég tel óhjákvæmilegt annað en að félmrh., sem til að mynda setur þau lög sem ég held hér á og heita sveitarstjórnarlög og birtust í Stjórnartíðindum og eru nr. 8/1986, það eintak sem ég held á. ( Gripið fram í: Þetta er ekki rétt, Alþingi setur lögin.) Nei, ég ætlaði að segja að undir hann heyra þessi lög, hv. þm. Ég var ekki alveg búinn með setninguna. Mín meining var sú að vekja á því athygli að undir félmrh. --- sem hér gengur í salinn --- heyra sveitarstjórnarlög og að hæstv. félmrh. verði einnig viðstödd þegar ég ræði þetta atriði sem ég nú kem að. Það er að gagnrýna þau vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessum málum öllum sem eru einkennandi, því miður, að hunsa í raun allt eðlilegt samráð og gefa samskiptavenjur, sem við lýði hafa verið milli ríkisvaldsins og samtaka og hagsmunaaðila út í þjóðfélaginu, upp á bátinn. Öllum bar saman um það sem komu til fundar við efh.- og viðskn., sveitarfélögunum, aðilum vinnumarkaðarins, hagsmunasamtökum ýmsum og einstökum hópum, að ekkert hefði verið við þá talað um þessi efni, sem þá vörðuðu, og jafnvel lögboðið samráð einskis virt eins og á við um skyldur ríkisvaldsins til samráðs við sveitarfélögin.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh.: Hvernig má það gerast að þeir atburðir verði í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna sem nú hafa orðið, í ljósi 116 gr. sveitarstjórnarlaga en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta. Það er XI. kafli laganna og ber yfirskriftina Samskipti ríkis og sveitarfélaga: ,,Ríkisstjórninni er rétt að koma á formlegu samstarfi við samtök sveitarfélaga með gerð samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga og með öðrum hætti. Ríkisstjórnin skal hafa náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um þau mál er varða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og önnur samskipti þessara aðila.`` Þar með endar sú grein. Hér eru margir hv. alþm. inni sem hafa kynni af sveitarstjórnarmálum, hafa jafnvel sumir setið í sveitarstjórnum og bera hag þess stjórnsýslustigs í landinu fyrir brjósti. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. hvernig þau útskýra framgöngu ríkisvaldsins gagnvart sveitarfélögunum og fjölmörgum fleiri aðilum undanfarna sólarhringa í ljósi þessa afdráttalausa lagaákvæðis. Afdráttarlausa lagaákvæðis. Það er ekki samráð við sveitarfélögin að ákveða einhliða að þeim fjarstöddum og forspurðum að rifta ákvæðum um verkaskiptingu þá sem við lýði er, eins og ákvörðun næturfundarins um málefni fatlaðra og Jöfnunarsjóð var. Og það er ekki samráð, sem fullnægir ákvæðum 116. gr. sveitarstjórnarlaga, að tilkynna sveitarfélögunum á fundi að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að leggja á þau

yfir 700 millj. kr. byrðar vegna meintrar löggæslu í landinu. Það er ekki samráð. Það eru einhliða ákvarðanir. Það eru einhliða tilkynningar.
    Hæstv. forsrh. sagði hér á þingi fyrir stuttu síðan að menn yrðu að skilja það að Alþingi hefði löggjafarvaldið og gæti sett þau lög sem því sýndist með þeim hætti sem það kysi ef það bryti ekki í bága við stjórnarskrána, en þá gilda önnur ákvæði eins og kunnugt er um lagasetningu. ( ÓÞÞ: Stundum er þingið bundið af samningum sem það hefur gert.) Einmitt, hv. 2. þm. Vestf., en það er nefnilega rétt hjá hæstv. forsrh. að Alþingi hefur löggjafarvaldið og Alþingi hefur sett lög, hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh., um samráð við sveitarfélögin. Ef hæstv. forsrh. mætti vera að því að veita mér athygli, af því að hæstv. forsrh. ítrekaði og upplýsti okkur þingmenn um að Alþingi hefði löggjafarvaldið þá er ég sammála því og Alþingi hefur sett lög um skyldu til samráðs við sveitarfélögin í landinu. Þau lög eru alveg jafngild öðrum sem hv. Alþingi setur. Þess vegna er mikill þungi á bak við mína spurningu til hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh.: Hvernig gátu þeir atburðir gerst í samskiptum sveitarfélaga og ríkisins sem orðið hafa, í ljósi ótvíræðra ákvæða 116. gr. sveitarstjórnarlaga? Ég vona að þessi spurning hafi komist til skila.
    Margt fleira, herra forseti, varðandi vinnubrögðin væri ástæða til að fara hér rækilega yfir, eins og það að hæstv. ríkisstjórn virðist hafa tekið á síðustu vikum upp þá vinnureglu að virða að vettugi gjörða samninga ef því er að skipta. Ég hef vakið athygli á þessu áður, taldi þá upp nokkur tilvik sem ég mundi án þess að hafa þar nokkuð á blaði fyrir framan mig. Þetta syndaregistur hef ég ekki tekið saman á vönduðu rituðu formi en ég hugsa að minni mitt dugi til að bæta allmörgum liðum við sem ég hef á undanförnum dögum rifjað upp. En það er alveg borðleggjandi að hæstv. ríkisstjórn er að gera sig seka um það í fjölmörgum tilvikum, þar á meðal í þessu frv. og ákvæðum þess ef að lögum verða eða brtt. við það, að rifta einhliða samningum. Þar er munur á, hæstv. forsrh., að setja ný lög sem Alþingi getur að sjálfsögðu alltaf gert en Alþingi getur ekki rift lögmætum samningum og löggjörningum sem ríkisstjórn eða framkvæmdarvald hefur gert nema það grípi þá til neyðarréttar og hann sé virkur ella halda slíkir löggjörningar. Ríkisstjórn eða framkvæmdarvald eftir atvikum verður skaðabótaskylt og þá eru það dómstólar landsins, sem á grundvelli þrískiptingar stjórnsýslunnar, fara með þá hluti. Alþingi getur ekki tekið upp, án þess að stofna til hættu á skaðabótaskyldu, löggjörning á lögmæta gjörninga sem það hefur gert. Þess vegna er það augljóst mál, borðleggjandi, að ríkisstjórnin er með málatilbúningi sínum þessa dagana á þingi að stofna í hættu fjölmörgum samningum af þessu tagi. Þar á í hlut búvörusamningurinn gamli, sá sáttmáli ríkisvalds og bænda sem kom til með setningu búvörulaganna 1985 og samningur á grundvelli þeirra laga. Skerðingin á Framleiðnisjóði landbúnaðarins, sem er kveðið á um í þessu frv., er brot á þeim sáttmála. Það er augljóst mál að bændasamtökin og forsvarsmenn bænda eftir atvikum eða einstakir bændur gætu látið á slíkt reyna.
    Í öðru lagi er augljóst brot á ferðinni, hvað nýja búvörusamninginn snertir, þar sem eru ákvæði og fyrirhuguð áform um að fresta greiðslum til bænda og færa tveggja mánaða greiðslur yfir áramót.
    Í þriðja lagi er augljóslega stofnað til hættunnar á því að samningur verði brotinn hvað varðar framkvæmdir við jarðgangagerð á Vestfjörðum. Nema að samkomulag takist við samningsaðilann sem er auðvitað ekki útilokað um breytingu á þeim samningi og þá er það gott og vel. Þannig á auðvitað að vinna að hlutunum að láta það liggja fyrir fyrst.
    Í fjórða lagi er ljóst, að ef frv. ríkisstjórnarinnar um innheimtu tryggingagjalds yrði að lögum, er þar á ferðinni augljóst brot á samningi ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um innheimtu staðgreiðslugjalda. Þar er í gild fullgildur samningur milli þessara aðila um þetta verkefni frá því í maí 1990. Afgreiðsla frv. um innheimtu tryggingagjalds í andstöðu við sveitarfélögin er brot á þeim samningi. Þetta er fjórða tilvikið.
    Fimmta tilvikið væri t.d. ef sá niðurskurður gengi fram, sem áformaður hefur verið, gagnvart Fljótsdalsáætlun sem byggir á sérstökum lögum sem Alþingi afgreiddi og gera ráð fyrir samningum við bændur um þátttöku í verkefninu. Það eru löggjörningar, yfirleitt útbúnir á löggiltan skjalapappír og margir þeirra þinglýstir af því þeir kveða á um réttindi og skyldur bændanna um þátttöku í þessu verkefni. Ríkið gæti augljóslega komið sér þar í vanda með einhliða riftun slíkra samninga fyrir það að standa ekki við sinn hluta skuldbindinganna.
    Í sjötta lagi hefur því verið haldið fram, og tek ég enga afstöðu til þess, að framlenging jöfnunargjaldsins, ef að lögum verður, verði lögbrot og a.m.k. samningsbrot gagnvart fríverslunarskuldbindingum okkar.
    Í sjöunda lagi tel ég að framgangan gagnvart sveitarfélögum í landinu sé brot á sáttmála ríkisvalds og sveitarfélaga um verkaskiptingu og samskipti þessara aðila. Að þar sé á ferðinni brot í þeim efnum.
    Í áttunda lagi má nefna samninginn um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem Alþingi fullgilti að tillögu félmrh. fyrir nokkru síðan. Það má örugglega halda því fram að framganga ríkisstjórnarinnar nú gagnvart

sveitarfélögunum valdi því að ríkisstjórnin stofni í hættu frammistöðu sinni gagnvart því að virða þann sáttmála. Tímans og aðstæðna vegna ætla ég ekki að lengja þessa tölu, hæstv. forseti, en ég er hér að ræða alvarlega hluti. Ég vona að hæstv. ríkisstjórn taki það eins og það er meint sem ábendingar til hæstv. ríkisstjórnar um að athuga sinn gang í þessum efnum.
    Að lokum mætti svo nefna auðvitað þær almennu aðstæður sem nefndin hefur búið við hvað tíma snertir til að vinna sín störf og hafa verið mjög erfiðar. Þar er ekki sérstaklega við nefndarformann eða nefndina sem slíka að sakast heldur fyrst og fremst þær kringumstæður sem tíminn og bág frammistaða hæstv. ríkisstjórnar hafa skapað.
    Það er auðvitað þannig, herra forseti, að ég get ekki annað en minnst einu sinni enn á þau skeyti sem hæstv. forsrh. sendi Alþingi á dögunum í ljósi þess sem síðar hefur gerst, ég get ekki annað. Það skal fúslega viðurkennt að þeim, sem hér talar, sárnaði. Mér fannst hæstv. forsrh. innleiða nýja og heldur hvimleiða siði þegar hann með öllum þunga síns embættis, hæstv. forsrh. þjóðarinnar, réðist að Alþingi Íslendigna. Í raun gerði hann það því miður. Veittist að því og viðhafði særandi ummæli um vinnubrögð á þinginu. Síðan hefur það verið svo að hv. þm. hafa hér upp til hópa unnið dagfari og náttfari að störfum sínum á þingi. Þannig er t.d. um alla nefndarmenn í fjárln. og efh.- og viðskn. bæði meiri hluta og minni hluta. Ég hlýt að spyrja t.d. fulltrúa meiri hlutans í þessum nefndum og aðra slíka sem unnið hafa við sambærilegar aðstæður í nefndum þingsins. Mér er fyrir sjónum hv. 3. þm. Austurl. Það er eins og mig minni að hann hafi stundum stundum upplifað slíkar aðstæður. Sárnaði engum fleirum en mér þessi ummæli? Telja engir fleiri þau hafa verið ómakleg af hálfu hæstv. forsrh. sem nú hefur haldið sýnikennslu í nokkra sólarhringa hvað varðar stjórnina á sínum her, hæstv. ríkisstjórn? Er hún þannig sú sýnikennsla að hún geri það að verkum að við sættumst á það að þar hafi sá talað sem hafði til þess stöðu? Eða þar hafi sá kastað steininum sem bjó í húsi með nógu þykkum og massífum og ógegnsæjum veggjum til að gera það? Ég held ekki, hæstv. félmrh., sem á hér leið fram hjá ræðustólnum. Ég ítreka enn einu sinni ósk mína til hæstv. forsrh. um að hann íhugi sinn gang og athugi hvort hann sjái ekki ástæðu til þess að velta þessum ummælum fyrir sér á nýjan leik og íhuga að draga þau til baka. Eða vill hæstv. forsrh., Davíð Oddsson 1. þm. Reykv., fara á spjöld sögunnar, ég fullyrði sem fyrsti forsrh. íslenska lýðveldisins, sem veitist með þeim hætti að Alþingi Íslendinga sem hann gerði. Ég kann þess ekki dæmi. Sé svo að fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík og núv. hæstv. forsrh. vilji merkja sig á spjöld sögunnar með þeim hætti að hafa viðhaft þessi meiðandi ummæli um stofnunina Alþingi Íslendinga vil ég minna á að fyrrv. meginforseti sameinaðs Alþingis innleiddi m.a. þá nýbreytni á Alþingi að prenta á þingskjöl, hvert eitt og einasta, hversu mörg ár væru liðin frá stofnun Alþingis. Það var alveg ljóst hvað vakti fyrir hæstv. forseta sameinaðs Alþingis á þeim tíma í þessu skyni. Hann taldi að þörf væri á því og það væri rétt að minna þingmenn og þjóð á það jafnan að hér ætti í hlut elsta og virðulegasta stofnun landsins, eldri en kirkjan. Jafngömul miðstjórnarvaldi á Íslandi, jafngömul skipulögðu þjóðríki á Íslandi. Það var einmitt þessi stofnun sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson taldi sig umkominn að veitast að.
    Þannig háttar til að minni hlutinn, herra forseti, skilar hér sameiginlegu nál. en samkvæmt venju er það þó þannig að fulltrúar einstakra flokka munu gera nánari grein fyrir afstöðu sinni og sinna flokka í þessum umræðum og þeir áskilja sér jafnframt rétt til að flytja eða fylgja einstökum brtt.
    Ég vík þá að 1. kafla frv. Mun þá gleðjast hæstv. menntmrh. því ef hann gerist syfjaður eftir að ég hef lokið yfirferð minni um 1.--3. gr. frv. mun það af minni hálfu ekki verða átalið þó hann hverfi til rekkju. ( Gripið fram í: Ekki af þinni hálfu.) Ekki af minni hálfu af því mér er annt um heilsu og krafta hæstv. menntmrh. svo lengi sem hann notar slíkt til góðra verka og vonandi sér hann að sér á næstunni.
    En það er skemmst frá því að segja, herra forseti, að minni hlutinn er andvígur þeim breytingum sem 1.--3. gr. frv. gera ráð fyrir á lögum um grunnskóla og við mótmælum því sérstaklega að grundvallarbreytingum í skólamálum sé lætt með í þessu frv. í skjóli af ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Þessar breytingar hafa sannanlega óveruleg kostnaðaráhrif í för með sér og þeim fylgir í reynd mjög lítill sparnaður, sérstaklega hvað snertir útgjöld á næsta ári, umfram það sem hvort eð er væri hægt að ná fram á grundvelli heimilda sem fyrir hendi eru. Ýmsum öðrum ákvæðum er og breytt sem alls ekki snerta útgjöld ríkisins og varða eingöngu aðra en ríkið, þ.e. sveitarfélögin og svo kannski kennara og nemendur.
    Það er alveg öruggt, herra forseti, og fyrir því eru gögn sbr. fylgiskjal I með þessu nál., að það er mat allra uppeldis- og kennslustétta í landinu sem og minni hlutans að í þessum breytingum felist afturför í skólamálum. Ég vísa í umsögn minni hluta menntmn. og tvö bréf frá Kennarasambandi Íslands og eitt frá Kennarafélagi Reykjavíkur. Minni hlutinn leggur þess vegna til að þessum hluta frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þaðan sem hann kom. Hæstv. menntmrh. getur þá tekið það með ef hann hyggst flytja hér, eins og myndugum menntmrh. sæmir, frv. til laga um breytingar á lögum um grunnskóla. Væri meiri reisn yfir því ef þetta fyrsta skólamálafrv. hæstv. menntmrh. væri á hans eigin vegum, flutt af honum sjálfum og fyrir því mælt með einhverjum gildum rökum.

    Það skal nefnt að þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til við 1. gr. frv. eru að stafliðir b og c falli brott og þannig fái ákvæðin um grunnskólaráð og heimild til ráðningar aðstoðarskólastjóra að vera í friði í grunnskólalögunum. Þessar breytingar eru vissulega til bóta en þær ná því miður svo skammt að engu breytir um kaflann í heild og andstöðu minni hlutans við hann.
    Tímans vegna fer ég hér hratt yfir sögu, herra forseti, og reyni að stytta mál mitt sem mest og fjölyrði því ekki meira um þessi ákvæði grunnskólalaganna sem í frv. er hreyft við. Ég veit að þau eru mörgum hér mjög hugleikin og þess vegna gæti vel farið svo að aðrir hv. þm. sem eru betur að sér um þessi efni, til að mynda nefndarmenn í menntmn. þingsins, sæju ástæðu til að fylla betur inn í umræður um frv. hvað þetta snertir.
    Ég ætla þess vegna ekki að fara að blaða í fylgigögnum þeim sem eru birt sem fylgiskjal I með frv. þessu. Það er rétt að vekja athygli hv. þm. á því hvernig nál. þetta er upp byggt, líka með hliðsjón af því að það hefur ekki enn borist prentað sem þskj. heldur er einungis fjölfaldað eða ljósritað. Fylgiskjölin eru númeruð og er fylgiskjal I umsögn minni hluta menntmn. um þennan kafla frv. og þessar greinar ásamt bréfum frá kennarafélögum Íslands, Kennarafélagi Reykjavíkur og Kennarasambandi Íslands.
    Ég kem þá að 2. lið nál. sem fjallar um breytinguna á jarðræktarlögum, nr. 56/1987, sem er jafnframt 4. gr. þessa frv. Þar vísar minni hlutinn til umsagnar landbn. en meiri hluti landbn., skipaður þeim Agli Jónssyni, hv. 3. þm. Austurl., Kristínu Ástgeirsdóttur, Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, Guðna Ágústssyni og Sigurði Hlöðvessyni, leggur til að þessi 4. gr. frv. verði ekki lögfest. Í því ljósi leggur minni hlutinn til að þessum hluta frv. verði og vísað til ríkisstjórnarinnar. Hér hefur meiri hluti landbn. orðið sammála um þetta atriði, leiddur af formanni landbn., sem því miður er genginn út úr þingsalnum en er hér ekki langt í burtu. Að sjálfsögðu hefur það mikið vægi að þessi virti sérfræðingur Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum, sem jafnframt nýtur þess trúnaðar Sjálfstæðisflokksins að vera formaður landbn., sem leggur þetta til. Ég geri satt best að segja miklu meira með það sem í áliti meiri hluta landbn. felst en það sem minni hlutinn á þeim bæ leggur til, með fullri virðingu fyrir honum. Ég leyfi mér að gera mannamun á hv. 3. þm. Austurl., vegna reynslu hans og bakgrunns í íslenskum landbúnaði, og þeim hv. nefndarmönnum meiri hlutans, þ.e. stjórnarmeirihlutans öðrum, sem þarna lentu í minni hluta í landbn. og eru engir aðrir en hv. þm. Geir H. Haarde, Árni Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson og Sigbjörn Gunnarsson. Ég tek það fram að það er með fullri virðingu fyrir þeim og djúpstæðri þekkingu þeirra á landbúnaðarmálum sem ég segi þetta. Ég hef tilhneigingu til að gera þar vissan mannamun hvað afstöðu til landbúnaðarmála snertir þegar í hlut á, á móti þeim, hv. 3. þm. Austurl., Egill Jónsson.
    Ég fjölyrði þá ekki meira um þennan hluta frv., kaflann um jarðræktarlögin. Ég tel að úr því að svona tókst til í nefndarstarfi landbn. væri það farsælt ráð að vísa þessu máli á nýjan leik til hæstv. ríkisstjórnar og biðja hana vinsamlegast um að vinna það betur og koma með það í öðrum og geðfelldari búningi inn í þingið þannig að betri samstaða gæti tekist um afgreiðslu þess.
    Í þriðja lagi --- ég tek það fram að vegna þess hvernig mál raðast upp í frv., herra forseti, er ég ekki búinn að fjalla um landbúnaðarmál vegna þess að þau koma aftur á dagskrá í síðari kafla frv. Ég bið því hæstv. landbrh. að hafa veður af þessu, item þar sem hann gegnir embætti samgrh., en þau mál koma hér víðar fyrir á eftir.
    Ég kem þá að ákvæði frv. sem er 3. tölusetti liður nál. og lýtur að breytingum á lögum nr. 38 frá 1990, um stjórn fiskveiða. Þessi 5. gr. frv. felur það í sér, ef að lögum verður, að svonefnt veiðieftirlitsgjald verður tvöfaldað og mun þá standa að fullu undir veiðieftirliti sjútvrn. Þetta hefur í för með sér að um 40 millj. kr. útgjaldaauki færist yfir á herðar sjávarútvegsins. Hér er því miður enn á ferðinni tillaga um aukin útgjöld og auknar álögur á sjávarútveginn og atvinnulífið. Nú munu einhverjir segja að ekki sé þar baggamunur þar sem eru skitnar 40 millj. sem íslenskur sjávarútvegur þurfi þarna að axla. Þess vegna segir í nál. að við venjulegar aðstæður mundi breyting af þessu tagi ekki teljast stórvægilegt mál fyrir greinina sjávarútveg.
    Herra forseti. Það er spurning hvort hæstv. sjútvrh. er víðs fjarri við þessa umræðu. ( Forseti: Ráðherrann er ekki víðs fjarri. Það er verið að nálgast hann.) Einnig er það auðvitað spurning hvort hæstv. forsrh. getur sýnt okkur þann skilning að vera hér viðstaddur, svona að breyttu breytanda, þar sem hann er forsjármaður þessa frv. Við teljum í minni hlutanum að við þær aðstæður sem íslenskur sjávarútvegur býr við í dag og einkennast af miklum taprekstri og með hliðsjón af stórauknum álögum á sjávarútveginn og sjómenn, sem ríkisstjórnin er með á prjónunum, þá sé ekki rétt að íþyngja enn, þó ekki sé í miklu, sjávarútveginum með þessari tillögu. Maður hlýtur að spyrja hæstv. ríkisstjórn að því stundum við svona aðstæður hvað vaki fyrir mönnum með, mér liggur við að segja, nánasarhætti af þessu tagi. Hvers vegna er núna valið að skella öllu veiðieftirlitinu yfir á sjávarútveginn við þær aðstæður að hann er að taka á sig gífurlegan aflasamdrátt? Hann býr við bullandi taprekstur, honum eru ætlaðar stórauknar álögur á næsta ári eins og þær að greiða 525 millj. kr. fyrir veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs sem sjávarútvegurinn nýtur sem

atvinnugrein ókeypis á þessu ári og hæstv. sjútvrh. ætlar að úthluta ókeypis fyrir yfirstandandi kvótaár. Er það ekki nóg, hæstv. sjútvrh., að ætla að rífa út úr sjávarútveginum 525 millj. kr. á síðari hluta næsta árs fyrir veiðiheimildir sem greinin hefur hingað til að breyttu breytanda haft til ókeypis afraksturs? Af hverju er ekki reynt að sýna sanngirni og draga þennan tittlingaskít til baka af því að hann pirrar menn. Það er nánasarlegt, satt best að segja, að vera að raska með þessum hætti hlutum sem samkomulag tókst um á síðasta ári og á undangengnum árum að hafa með tilteknum hætti, að menn deildu þarna til helminga með sér byrðunum af eftirlitinu, atvinnugreinin og hinn sameiginlegi stóri sjóður okkar landsmanna, ríkissjóður. Þess vegna leggjum við sem sagt til að þessu máli verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. Það mundi ekki breyta miklu í dæminu hjá hæstv. ríkisstjórn þó að sýnd yrði sanngirni í þessu efni. En það verður auðvitað að lokum að vera mál hæstv. ríkisstjórnar eða meiri hlutans hvernig þau vilja með þetta fara. Það verð ég að segja að ekki sýnist mér það skynsamleg pólitík og herstjórnarlist hjá hæstv. ríkisstjórn að vera að nudda með svona núningsfleti á atvinnulífinu og sjávarútveginum eins og andrúmsloftið hefur verið að þróast þar undanfarna daga og vikur. Þeir hafa sennilega ekki heyrt í mörgum sjómönnum eða forsvarsmönnum lítilla sjávarútvegsfyrirtækja úti á landi undanfarna daga, hæstv. ráðherrar, eða hvað? Það verður a.m.k. ekki ráðið af viðbrögðum þeirra hvað þessi mál snertir.
    Í fjórða lagi, herra forseti, kemur mjög kostulegur hluti þessa frv. sem hefur verið eins og ljós í myrkrinu fyrir undirritaðan því hann hefur ævinlega komið mér í gott skap þegar ég hef séð hann. Það er hvorki meira né minna en 6.--8. gr. frv. og um hana er fjallað í 4. tölusetta lið í nál. minni hlutans. Þetta var fyrirhuguð breyting, sem hæstv. ríkisstjórn lagði til, á lögunum um kosningar til Alþingis. Glaðnar nú yfir sjútvrh. og öðrum viðstöddum mönnum. ( Gripið fram í: Dómsmrh.) Hæstv. dómsmrh. og hæstv. sjútvrh. En hvar er hæstv. forsrh., ég ætlaði nefnilega að eiga við hann smá viðræður um þetta mál áður en við kveðjum það alveg og það fellur út úr umræðunni sem e.t.v. gerist við atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr. Þannig segir í nál. minni hlutans, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, að meiri hlutinn leggi til í brtt. sínum að greinar 6.--8., sem snerta auglýsingakostnað í tengslum við alþingiskosningar, falli brott. Minni hlutinn er samþykkur þessari brtt. en telur það athyglisvert að frá ríkisstjórninni sjálfri skyldu koma hugmyndir um að draga úr ríkisútgjöldum á næsta ári með því að breyta framkvæmdaatriðum varðandi alþingiskosningar. Það var að sjálfsögðu stórskemmtileg uppákoma að hæstv. ríkisstjórn skyldi í sparnaðarfrv. sínu leggja til að kæmi til alþingiskosninga á næsta ári yrði auglýsingakostnaður minni en að óbreyttu. Við hljótum að hafa gaman að því, hv. alþm. og ekki síst stjórnarandstæðingar, að velta vöngum yfir þeim óhjákvæmilegu hugrenningartengslum sem þarna verða við það að hæstv. ríkisstjórn hafi, þegar hún setti þetta á blað, séð fyrir sér verulegar líkur á alþingiskosningum á næsta ári. Þess vegna var ákveðið í sparnaðarkastinu að óþarfi væri að vera að auglýsa í þessum kjördæmisblöðum og landsmálablöðum eins og Eystrahorni. Það væri ástæðulaust að sá snepill fengi að birta framboðslistann með hv. 3. þm. Austurl. á ef hann hyggst bjóða sig fram aftur. Það væri sko nóg fyrir þá í Hornafirði . . . ( Gripið fram í: Hvað á þetta ,,ef`` að þýða?) Það er náttúrlega ástæðulaust að vera með ef í þessu sambandi enda hafa ítrekaðar stjórnarskrárbreytingar ekki náð að koma, hv. 3. þm. Austurl., út af þingi eins og alkunnugt er.
    Þeir í Hornafirði geta lesið um framboð hv. 3. þm. Austurl. í Lögbirtingarblaðinu og það er ástæðulaust að vera að styrkja útgáfu Eystrahorns með fokdýrum auglýsingum. Það sama á að sjálfsögðu við um Víkurblaðið á Húsavík o.s.frv. Þetta var stórsnjallt ráð og stórmannlegt, eða hitt þó heldur, hjá hæstv. ríkisstjórn og þeim vel samboðið sem þetta settu fram.
    Þá er ekkert annað eftir en að nefna þá djörfu sparnaðarákvörðun hæstv. fjmrh., að segja upp einu áskrift fjmrn. að Víkurblaðinu á Húsavík sem gripið var til í septembermánuði nánar tiltekið. Þau miklu tíðindi bárust norður yfir heiðar til Húsvíkinga að fjmrn. hefði í sparnaðarskyni sagt upp einu áskriftinni að Víkurblaðinu. Tóku sig þá saman velviljaðir menn og góðhjartaðir á Húsavík og slógu saman fyrir áskriftinni og gefa nú fjmrn. áskrift að Víkurblaðinu. (Gripið fram í.) Ég tel ástæðu til að koma því hér á framfæri og ítreka að þessu er nú svo háttað með Víkurblaðið og áskrift þess til fjmrn. að hún er greidd af sæmdarhjónum norður á Húsavík. (Gripið fram í.) Víkurblaðið er gefið út af ágætum ritstjóra, Jóhannesi Sigurjónssyni á Húsavík, og er myndarlegt framtak hans og manna sem á bak við hann standa að þessari útgáfu og stutt dyggilega af íbúum kaupstaðarins og nágrannasveita. Það fer inn á svo til hvert heimili á þessu svæði og er þar af leiðandi auðvitað langöflugasti fjölmiðill sem til er á viðkomandi svæði og að mínu mati er brotinn réttur, svo ég tali í fullri alvöru um þetta mál í smástund, á íbúum þessa byggðarlags. Að íbúarnir skuli ekki í sínum fjölmiðli fá þá þjónustu að framboðslistar við alþingiskosningar séu þar birtir eins og annars staðar. Það er auðvitað lítilsvirðing við þessi mikilvægu málgögn sem eru landsmálablöðin og héraðsfrétta- og kjördæmablöðin skuli ekki njóta jafnréttis við aðra fjölmiðla í landinu í þessu efni. Það er nánasarlegt, það er ekki stórmannlegt og satt best að segja veldur manni vonbrigðum það skilningsleysi sem í slíkum hugsunarhætti birtist. En kannski taka sig saman góðir menn og gera bót á vegna þessarar yfirsjónar, fallast á tillögu meiri hlutans sem er studd af minni hlutanum um að þetta falli út úr

frv. Það þýðir ekki að við í minni hlutanum gerum ekki alveg eins ráð fyrir því að alþingiskosningar geti orðið á næsta ári og einhver útgjöld hljótist af því. En það verður þá bara að hafa það. Við komum hreint fram og segjum alveg eins og er. Það verður bara að hafa það þó að alþingiskosningarnar, hvort sem þær verða í mars, apríl eða maí á næsta vori, kosti nokkur hundruð þúsund eða 1--2 millj. kr. meira. Upp úr því hefst þó það að auglýsingin um framboð hv. 3. þm. Austurl. birtist í Eystrahorni. Er þá ekki til einskis okkar streð á þinginu ef við komum því fram.
    Í fimmta lagi, herra forseti, ræðum við í nál. minni hlutans um 9. og 10. gr. frv. og þær greinar í brtt. meiri hlutans sem að því máli snúa, þ.e. hugmyndunum um svonefndan ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að í brtt. meiri hlutans eru enn fremur ákvæði sem lúta að þessum hluta frv., þ.e. ákveðnar viðbætur og frekari útfærslur á því hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst fara með þessi mál. Í frv. sjálfu, eins og það var upp sett og birt hér fyrir þingið, var gert ráð fyrir því að sett yrðu sjálfstæð lagaákvæði eða lög um nýjan ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Af uppsetningu frv. verður hins vegar ekkert ráðið um það hvernig samspil þessa nýja sjóðs og gildandi laga um ríkisábyrgð á launum átti að vera. Ástæða væri til að spyrja hæstv. ráðherra, sem mundi vera félmrh. og ber ábyrgð á lögum um ríkisábyrgð launa vegna gjaldþrota, hvernig í ósköpunum þetta var hugsað. Ástæða væri e.t.v. til að spyrja hæstv. forsrh. --- og fer nú að fara í taugarnar á mér, herra forseti, að ekki einn einasti hæstv. ráðherra skuli geta tollað hér í þingsalnum meðan þessi mál eru rædd. Ég er meira en reiðubúinn, herra forseti, ef þessu heldur svona áfram að gera hlé á máli mínu og bíða þess að þeir hæstv. ráðherrar sem ég hef óskað eftir að séu viðstaddir sýni okkur, sem höfum verið að vinna hér sólarhringunum saman, þá lágmarkstillitssemi að tolla í þingsalnum. ( Gripið fram í: Ertu ekki búinn að gefa menntmrh. frí hér?) Ég er að tala um mál sem heyrir undir félmrh. og frv. er flutt af hæstv. forsrh. Ég hef formlega úr ræðustóli gefið hæstv. menntmrh. leyfi til að ganga til sængur fyrir mitt leyti. En af sömu alvöru óska ég eftir því að aðrir hæstv. ráðherrar, sem ég er hér að eiga orðastað við, tolli í þingsalnum. ( Forseti: Forseti vill láta þess getið vegna óska hv. þm. að hann hefur reynt að fara að þeim óskum sem hv. þm. hafði í frammi í upphafi að kalla til ráðherra, þegar hann kemur að þeim köflum í ræðu sinni, sem málin falla undir --- og hér er kominn hæstv. félmrh. Forseti mun halda áfram að gera þetta um leið og hv. ræðumanni þóknast að koma að þessum köflum í ræðu sinni.) Þá er fullkomin sátt milli ræðumanns og forseta um tilhögun í þessum efnum.
    Þannig háttar til, að ég er að ræða núna kaflann um ríkisábyrgð launa í gjaldþrotum. Síðan kemur að kafla um málefni fatlaðra og síðan að kafla um Húsnæðisstofnun og almannatryggingar og heilbrigðismál. Hæstv. félmrh. er einmitt sá sem hér þarf að vera staddur á næstunni. ( Gripið fram í: En landbúnaðarmál?) Það kemur svo á nýjan leik á dagskrá aftar í frv. Auk þess vona ég auðvitað að hæstv. forsrh. sjái sér fært að vera hérna sem mest undir umræðunni. Því er ég að rekja þetta að framsetning málsins í frv. var engan veginn boðleg. Það verður ekki ráðið af uppsetningu frv., eins og ég segi, hvernig þessi ákvæði um hinn nýja ábyrgðasjóð launa áttu að falla að gildandi lagaákvæðum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Það stendur heldur hvergi í frv. né í bráðabirgðaákvæðum að fella hafi átt þau lög úr gildi. Hér er auðvitað enn eitt dæmið á ferðinni, herra forseti, sem ég rak mig á þegar ég fór að vinna þetta mál betur, lesa það ofan í kjölinn og ganga frá mínu nál. þar sem framsetning málsins er engan veginn tæk. Auðvitað varð að gera með einhverjum hætti ljóst og þá í þessum lagagreinum eða með bráðabirgðaákvæðum hvernig átti að fara með lögin um ríkisábyrgð á launum. Nú ber að taka fram, og er ánægjulegt að geta gert það, að meiri hlutinn hyggst bæta úr þessum vanköntum með því að setja inn í sínar brtt. til viðbótar ákvæði um það hvaða hlutar laganna um ríkisábyrgð á launum skuli falla út og hvenær og hverjar skuli síðan halda gildi sínu. Þannig verða við lýði tvenns konar lagaákvæði ef þetta verður allt samþykkt um meðferð launa þegar gjaldþrot eiga sér stað. Annars vegar eru lagaákvæðin í bandorminum um hinn nýja ábyrgðasjóð og hins vegar verður í gildi áfram hluti af lögunum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Nú er augljóst mál að þetta er ekki mjög skemmtileg uppsetning en hún gengur svona. Auðvitað þyrfti, ef þetta verður að veruleika, að vinda bráðan bug að því að endurskoða þessi mál og búa til eitt heilsteypt frv. um þessi efni. Þetta er vinsamleg ábending til manna en þó vona ég auðvitað að ekki komi til þess vegna þess að það er eindregin afstaða okkar að það beri að hafna þessari breytingu. Við erum sem sagt algjörlega andvíg því að þessi breyting eigi sér stað og tökum undir mjög hörð mótmæli aðila vinnumarkaðarins í því efni.
    Það verður auðvitað að segja það alveg eins og það er, herra forseti, og væri gott að geta sagt það við hæstv. forsrh., að það kemur úr hörðustu átt að sjálf ríkisstjórnin, sem hefur gert gjaldþrot að aðalsmerki efnahagsstefnu sinnar, skuli um leið og hún framfylgir þessari stefnu gjaldþrotanna ætla að ráðast á þau réttindi sem launafólki eru tryggð þegar slíkar aðstæður skapast. Búast má við því að holskefla gjaldþrota gangi yfir í þjóðfélaginu á næstu mánuðum og næsta ári. Því er ósköp einfaldlega spáð, t.d. af þeim sem eru að gera þjóðhagsáætlanir um þessar mundir. Það er ljóst að atvinnuleysi fer mjög vaxandi og verður, því miður, væntanlega á næsta ári hið mesta um áratuga skeið.
    Við þær aðstæður, einmitt þessar aðstæður, ætlar hæstv. ríkisstjórn, hæstv. félmrh., að ráðast á réttindi launafólks sem eru fyrir hendi nú vegna launagreiðslna ef fyrirtæki sem það starfar hjá verða gjaldþrota. Hvernig líður hæstv. félmrh. Alþfl. að standa að slíkum breytingum við þessar aðstæður? Liðin er sú tíð að Alþfl. hreyki sér af því að vera oddviti félagslegra réttinda, almannatrygginga og öryggis launafólks í landinu. Hvar er nú flokkurinn staddur sem miklast af því að hafa fyrr á árum átt aðild að því að setja t.d. löggjöf um almannatryggingar og fleira því um líkt? Hann er á bólakafi í því að stórskerða réttindi launafólks sem verður fyrir þeim hremmingum að missa atvinnuna og eiga inni ógreidd laun þegar vinnuveitandi þess verður gjaldþrota. Í þessum ákvæðum frv. felst ekki aðeins að útgjöldunum af þessu verkefni sé velt yfir á aðila vinnumarkaðarins svo nemur væntanlega 400--500 millj. kr. hið minnsta á næsta ári, heldur felst líka í því stórfelld réttindaskerðing launamanna. Stórfelld réttindaskerðing launamanna er boðuð í þessu frv. Það er alveg ljóst að það verður sú eðlisbreyting á að þau réttindi sem menn áttu áður og voru tryggð með skýlausum lagaákvæðum verða núna óviss og ráðast af útgjöldunum og því hvaða fé verður til skipta. Að vísu er ákvæði í þessum tillögum sem gefa heimild til þess að setja á aukagjöld og hækka enn álögurnar á atvinnureksturinn og atvinnulífið ef gjaldþrotin verða svo mörg og útgjöldin svo mikil að það vanti meiri pening. Einungis með þeirri aðferð verður unnt að tryggja réttindi launafólks. Þessari breytingu er minni hlutinn algjörlega andvígur.
    Ég ætla að leyfa mér að vísa í fylgiskjöl. Í fyrsta lagi umsögn minni hluta félmn. um þetta efni. Í öðru lagi umsögn eða bréf frá Vinnuveitendasambandi Íslands þar sem með óvenju hörðum hætti er mótmælt þessum breytingum hæstv. ríkisstjórnar. Þar er að sjálfsögðu að venju gagnrýnt að ríkisstjórnin hafði ekki hið minnsta samráð við aðila vinnumarkaðarins um þessa breytingu. Hér er því miður eins og venjulega um enn eina gerræðislega ákvörðun, einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ræða. Vinnuveitendasambandið segir ýmislegt býsna kjarnyrt í þessari umsögn sinni, hæstv. forsrh., um áformin um breytingar á ríkisábyrgð launa við gjaldþrot. Vinnuveitendasambandið segir, með leyfi forseta, og ég er að vitna hér í fylgiskjal III með nál. þessu:
    ,,VSÍ er um það kunnugt að ýmislegt mætti betur fara í framkvæmd ríkisábyrgðar á laun og að tilefni er til endurskoðunar einstakra þátta þar um gildandi reglna. Sú tillaga sem í frv. felst, að fela höfuðsamtökum vinnumarkaðarins nokkra ábyrgð á framkvæmd, er því til bóta og líkleg til að skerpa og bæta framkvæmd. Að því er varðar fjármögnun þeirrar ábyrgðar á launum og skyldum kröfum við gjaldþrot fyrirtækja, hefur hingað til verið talið eðlilegt að samfélagið axlaði þær byrðar sameiginlega fyrir milligöngu ríkissjóðs``. Þetta hljómar nú eins og félagshyggjumenn hafi gengið frá þessari umsögn VSÍ og væri hvaða félagshyggjupostuli sem er fullsæmdur af þessu orðalagi, ,,að samfélagið axlaði þær byrðar sameiginlega fyrir milligöngu ríkissjóðs, sem lög mæltu fyrir að létt skuli af þeim sem fyrir tjóni verða. Það fyrirkomulag að jafna tjóninu af gjaldþrotum í atvinnurekstri á ,,eftirlifandi`` fyrirtæki``, segir VSÍ, ,,eftirlifandi fyrirtæki er nálegt``, nálegt ég endurtek, hvort þar er átt við naumt eða dauðalegt skal ekki fullyrt um hér. Hvort tveggja getur líklega gengið samkvæmt málvenju en nálegt er það, segir VSÍ ,,og til þess fallið að auka á erfiðleika í atvinnulífinu. Erfiðleikum í atvinnulífi fylgja að öðru jöfnu fjölgun gjaldþrota og það hlýtur a.m.k. að vera vafasöm hagfræði að auka á erfiðleika annarra í atvinnurekstrinum með auknum álögum af þessum toga. Frv. miðar við 0,2% gjaldtöku af öllum launagreiðslum en versni ástandið í atvinnulífinu enn er ráð fyrir því gert að þetta gjald geti enn hækkað. Þetta samhengi er augljóslega út í hött``, segir Vinnuveitendasambandið.
    Hann mun heita Þórarinn V. Þórarinsson sem þetta skrifar og ég hef heyrt um það að hann hafi komið nálægt Sjálfstæðisflokknum einhvern tíma á sinni lífsleið. Svo segir og er það nú kannske einna alvarlegast af þessu máli: ,,Vinnuveitendasambandið leitar um þessar mundir eftir framlengingu almennra kjarasamninga án launahækkana.`` --- Þá er á því byggt að gengisskráning krónunnar breytist ekki o.s.frv. --- ,,Við þessar aðstæður er þess engin von að fyrirtækin geti tekið á sig hækkun launa og sama gildir um hækkun launatengdra gjalda. Vinnuveitendasambandið mótmælir því eindregið þessum áformum um að velta einum kostnaðarlið ríkisvaldsins af erfiðleikum í atvinnulífinu yfir á atvinnureksturinn og er þar sérstaklega fráleit opnun heimildar til hækkunar gjaldsins eftir því sem ,,þarfirnar`` verða.``
    Vinnuveitendasambandið bendir sérstaklega á og undirstrikar það ákvæði frv., sem er galopin heimild til þess að velta auknum byrðum og aftur auknum byrðum yfir á atvinnureksturinn, eftirlifandi fyrirtæki svo notuð séu þeirra orð, ef gjaldþrotunum fjölgar og ábyrgðargreiðslurnar vaxa.
    Þetta, hæstv. forsrh. ríkisstjórnar, sem hefur gert gjaldþrotin að aðalsmerki efnahagsstefnu sinnar, eru alvarleg og þung orð sem hér falla. Auk þess bendir Vinnuveitendasambandið á þá augljósu staðreynd að með því að þetta hækkar tilkostnað atvinnulífsins er í raun um hækkun á raungengi íslensku krónunnar að ræða sem gengur þvert á þau markmið að lækka raungengið með minni kostnaðarhækkunum hér á landi en í samkeppnislöndunum. Það hefur átt að vera helsta haldreipi efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar

fyrir utan gjaldþrotin að með því að verðbólga á Íslandi yrði minni en í nálægum löndum myndi raungengi krónunnar lækka af þeim sökum. Ef verðbólgan yrði 4% hér en 8% í Bretlandi og Vestur-Þýskalandi mundi raungengi krónunnar að breyttu breytanda lækka um 4% á ári fyrir Íslendinga gagnvart þessum mörkuðum. Hér er haldið í þveröfuga átt. Hér er raungengi krónunnar hækkað með auknum tilkostnaði í atvinnulífinu. Og hver segir það? Er það einhver félagsfundur í Alþýðubandalagsfélaginu í Reykjavík sem segir það? Nei. Er það Framsóknarflokkurinn? Nei. Það er ekki einu sinni Kvennalistinn sem fullyrðir það. Það er Vinnuveitendasambandið sem sendir ríkisstjórninni þetta skeyti. Að lokum ítrekar Vinnuveitendasambandið hörð mótmæli sín við þessari breytingu og er það að vonum enda þykist ég mega fullyrða að Vinnuveitendasambandið hafi í þessu bréfi rökstutt sitt mál býsna vel. Er það ekki það, hv. alþm., sem málið snýst um, að menn ræðist á með rökum og reyni að sannfæra menn um réttlæti síns málstaðar?
    Vinnuveitendasambandið og Alþýðusamband Íslands og önnur samtök á vinnumarkaði eru eindregið andvíg þessu frv. Þau standa í kjarasamningum við þær aðstæður sem allir þekkja. Auðvitað er, herra forseti, ekki heil brú í því hjá hæstv. ríkisstjórn að troða illsakir við þessa aðila með þessum hætti. Mig furðar á því að við skulum sitja uppi með ríkisstjórn í landinu sem er svona heillum horfin. Ég sat í ríkisstjórn sem reyndi að gera það að aðalsmerki sínu, ekki að fjölga gjaldþrotum, heldur reyna að eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Hún reyndi að framkvæma hlutina í sátt við aðila vinnumarkaðarins og ná þeim inn í víðtækt samflot um að leysa kjaramál, efnahagsmál og önnur atriði með farsælum hætti.
    Ég vísa í ítarlegt álit Alþýðusambands Íslands um þessi efni þar sem með mjög rækilegum hætti er undirstrikað frá þeirra hlið hversu óæskilegar þessar breytingar á ríkisábyrgðum launa við gjaldþrot eru. Þá er sérstaklega bent á að þessar álögur vegi að grundvallarréttindum launafólks, þær dragi úr launagreiðslugetu atvinnulífsins og minnki þar með líkurnar á kjarabótum eða auki líkurnar á kjaraskerðingu til handa launafólki. Þeir benda á að verði þessar breytingar að veruleika takmarkast tímabilið sem ábyrgðin nær til, nánar tiltekið styttist það úr sex mánuðum í þrjá. Maður sem missir vinnuna og á inni margra mánaða laun þegar fyrirtækið verður gjaldþrota fær einungis þrjá greidda, situr uppi atvinnulaus með launaskuld sem ríkið hættir að ábyrgjast. Á tímum vaxandi atvinnuleysis og fjölgandi gjaldþrota eru þetta ótrúlegir hlutir sem hér eru að gerast. Það er hætt að greiða innlánsvexti á bæturnar. Fellt er niður að greiða iðgjöld í lífeyrissjóði af þeim launum sem þarna eiga í hlut. Hvað þýðir það, hæstv. félmrh.? Það veikir stöðu almennu lífeyrissjóðanna og eykur enn á mismunun milli þeirra og hinna opinberu starfsmanna sem njóta ríkistryggðra lífeyrisréttinda. Það er mat forráðamanna lífeyrissjóðanna og verkalýðshreyfingarinnar að þetta verði þeim sem tilheyra Sambandi almennra lífeyrissjóða þungt högg vegna þess að þeir standa frammi fyrir neyðarkostum í þessu efni. Annaðhvort verða þeir að skerða réttindi fólksins vegna þess að ekki voru greidd inn í lífeyrissjóðina iðgjöld vegna þeirra launa sem þarna áttu í hlut eða taka á sig óbætt útgjöld af þessum sökum sem mundi enn veikja þeirra stöðu. Þetta er stóralvarlegur hluti af þessu máli, hæstv. félmrh. Ég spyr: Vissi hæstv. félmrh. um þetta ákvæði frv.? Satt best að segja trúi ég því varla að svo hafi verið. Samt birtist þetta frv. án athugasemda frá hæstv. félmrh. Það er ákveðið að skerða greiðslur vegna kostnaðar við innheimtu launanna o.s.frv. Auðvitað er ljóst að hér er verið að stórskerða þessi réttindi, velta ábyrgðinni yfir á atvinnulífið. Launafólkið tekur við óvissunni við erfiðar aðstæður í atvinnumálum. Á tímum vaxandi gjaldþrota og vaxandi atvinnuleysis eru því boðuð skert réttindi.
    Að lokum um þetta efni, herra forseti: Það ákvæði, sem Alþýðusambandið bendir á í sinni umsögn, að af Íslands hálfu er um þessar mundir verið að fara yfir drög að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um skuldbindingar þjóða til að tryggja launafólk vegna gjaldþrota fyrirtækja, þessi samþykkt verður afgreidd sem samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að líkindum á þingi þess næsta sumar. Það er lyginni líkast, segir Alþýðusambandið og ég tek undir það, að við þessar aðstæður skulum við á sama tíma vera að ræða tillögur frá ríkisstjórn Íslands um að hlaupast frá ábyrgð sinni á þessu sviði sem aðrar þjóðir eru með alþjóðasamninga um að reyna að festa enn betur í sessi. Þvílík ríkisstjórn og þvílíkur Alþýðuflokkur, þvílíkur Jafnaðarmannaflokkur Íslands sem þjóðin á, sem stendur í þessum verkefnum. ( Gripið fram í: Hv. þm. misskilur frv.) Ég er ekki viss um, hæstv. forseti, að hv. þm. misskilji frv. mikið. Ef hann gerir það eru þeir örugglega fleiri, t.d. hlýtur Alþýðusamband Íslands og lögfræðingur og hagfræðingur þess að gera það líka, Lára V. Júlíusdóttir, sem einhvern tíma starfaði með hæstv. félmrh. en gafst upp á því. Ég var nefnilega að lesa hér upp úr áliti Alþýðusambandsins, hæstv. félmrh., ekki öðru. Þetta voru ekki mín orð en ég tek undir þau.
    Enn fremur er minnt á það að innan Evrópubandalagsins og í viðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði er kveðið á um það að EFTA-löndin skuli samræma reglur sínar því sem gerist í Evrópubandalaginu að þessu leyti. Skýrar reglur eru í gildi í Evrópubandalaginu um að launafólki skuli tryggð laun vegna launamissis við gjaldþrot fyrirtækja sbr. tilskipun Evrópuráðsins frá 20. okt. 1980. Í nýgengnum dómi vegna máls sem höfðað var á Ítalíu er því slegið föstu að sú ábyrgð hvíli á stjórnvöldum að bæta launafólki tjón

vegna gjaldþrota, hvort sem stjórnvöld í viðkomandi landi hafa sett um það löggjöf eða ekki. Af því að þannig stendur á að sumir forustumenn Alþfl. virðast vera veikari fyrir rökum sem koma að utan en að innan og taka mikið mark á þeim þarna úti í Evrópu er það nú mitt síðasta haldreipi að e.t.v. hlusti Alþfl. á þetta. Ég leyfi mér að beina máli mínu til hans af því að það er líka hæstv. félmrh. Alþfl. sem ber ábyrgð á þessum málum. Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera ef hæstv. utanrrh. verður að ósk sinni og hann fær að skrifa undir einhvern pappír á næstu mánuðum sem hæstv. ríkisstjórn Íslands ætlar síðan að fullgilda? Í honum gæti staðið ákvæði um það að þvert á móti þurfum við tryggja betur þessi réttindi launafólks en ekki rýra þau eins og hér er lagt til.
    Herra forseti, ég hef tímans vegna ekki aðstöðu til fara ítarlegar yfir þetta því það er margt fleira sem ég vil ræða nokkuð vandlega. Ég vísa þess vegna frekar í fylgiskjöl með nál. og bið hv. alþm. að kynna sér þessi ákvæði. Hafa þeir haft til þess tíma að fara yfir þessa hluti? Satt best að segja trúi ég því ekki að hæstv. félmrh. ætli að standa að þessum hlutum í stríði við aðila vinnumarkaðarins, að Alþfl. skuli vera orðinn svo heillum horfinn og kominn svo óralangt frá uppruna sínum og nafni að hann leggi þessum breytingum lið og að einstakir hv. þm. Sjálfstfl., sem sumir hverjir hafa þóst hafa skilning á og samstöðu t.d. með samtökum launafólks og gefið sig út sem flokk allra stétta, að engar efasemdir skuli vera í þeirra huga um þessi efni. Mig undrar það satt best að segja. Það var ekki einu sinni ljéð máls á minni háttar lagfæringum í þessum efnum.
    Ég veit að þeir tveir hv. þm. Sjálfstfl. sem heiðra okkur með nærveru sinni núna fyrir utan hæstv. forseta eiga svo sem ekkert sökótt í þessum efnum umfram aðra en það vill svo til að þeir eru staddir hér. Úr því að aðrir tolla ekki í þingsalnum fyrir hönd Sjálfstfl. beini ég máli mínu til þeirra. Er það virkilega svo í þingflokki Sjálfstfl. að menn séu ekkert hikandi við þetta eftir umsögn Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins? Eftir þær yfirlýsingar aðila vinnumarkaðarins að þetta torveldi gerð kjarasamninga og eftir þær hrikalegu þjóðhagshorfur sem birtust í gær og í fyrradag, spár um stórkostlega aukningu gjaldþrota og vaxandi atvinnuleysi, sem Þjóðhagsstofnun metur að sé örugglega vanmetið, ef eitthvað er? Það eru nokkur tíðindi, herra forseti, verð ég að segja. Sennilega er búið að berja menn svo rækilega niður í anda hinnar nýju stjórnarhátta, sem munu vera ættaðir úr borgarstjórn Reykjavíkur, að það þorir enginn kjaftur að segja múkk. Menn bara kyngja því sem að þeim er rétt. Ég segi eins og er að ég hefði talið að fyrir a.m.k. nokkrum árum síðan hefði verið það geð í einstaka þingmanni Sjálfstfl. að hann hefði ekki látið bjóða sér þessa hluti þegjandi. Ég er sannfærður um að hefði t.d. hv. þm. Karvel Pálmason, sem sat á þingi fyrir Alþfl. í eina tíð, verið hér hefði hann ekki staðið að þessum breytingum. Þeir hafa verið að senda honum kveðjurnar, foringjarnir, vestur á firði, heldur svona geðslegar.
    Í sjötta lagi, herra forseti, er í okkar nál. vikið að kaflanum um málefni fatlaðra og það er stutt og laggott sem þar segir: ,,Ekki vannst tími til að taka fyrir málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra sérstaklega. Minni hlutinn treystir sér því ekki til að bera ábyrgð á áhrifum þeirra breytingum sem lagðar eru til í 11. gr. frv. á fjárhag og framkvæmdagetu sjóðsins.
    Hins vegar mæla ýmis rök með því að skynsamlegt geti verið að ráðstafa meira fé til viðhalds og meiri háttar endurbóta og því mun minni hlutinn ekki leggjast gegn afgreiðslu þessara breytinga.`` Eftir atvikum munu þeir styðja hana ef svo býður við horfa hjá einstökum þingmönnum. Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en ég bendi á að þannig tökum við málefnalega afstöðu til hluta þessa frv. og ýmist leggjumst ekki gegn því að ákveðnir þættir þess, þeir sem við teljum ásættanlega, nái fram að ganga eða styðjum aðra ef við teljum þá horfa til bóta. ( Gripið fram í: Þó að nú væri.) Þó að nú væri, hv. þm. Stundum er ekki unnið með þeim hætti að hlutunum. Hér er ekki valin sú óábyrga og ómálefnalega afstaða að vísa öllu málinu frá, leggjast alfarið gegn því vegna þess að í því sé eitthvert eitt ákvæði sem við erum óánægð með. Farið er yfir málið lið fyrir lið og tínt út það sem við erum á móti og hitt sem við getum sætt okkur við eða jafnvel stutt. Ég tel ástæðu til að vekja athygli hv. alþm. á því hvernig þetta er upp byggt.
    Í sjöunda lagi fjallar okkar nál. um breytingu á lögum nr. 86 frá 1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins með síðari breytingum. Þar vísum við í álit minni hluta félmn., sem er fylgiskjal III, en þar kemur fram að á ferðinni eru breytingar, þar sem lagðar eru því miður enn og aftur auknar álögur á sveitarfélögin í landinu. Byggingar félagslegra íbúða eru auðvitað mikið hagsmunamál og áhugamál sveitarfélaganna og þess vegna hefði mátt ætla að sveitarfélögin tækju ekki illa í viðræður um aukna hlutdeild og þátttöku í þessum málaflokki ef eftir slíku hefði verið leitað með eðlilegum hætti og sveitarfélögin boðuðu til viðræðna um slíkt. Hér eru í fyrsta lagi um einhliða aðgerðir ríkisvaldsins til íþyngingar sveitarfélögunum að ræða og ekkert var við þau rætt í öðru lagi. Ríkisstjórnin er með á prjónunum margar aðrar aðgerðir sem fela í sér stórfelldan útgjaldaauka. Minni hlutinn leggur til að þessu máli verði einnig vísað til ríkisstjórnarinnar. Við teljum eðlilegast að það eigi við um húsnæðismálakaflann allan, einnig 14. gr.
    Í grg. með frv. er kostuleg setning, sem ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á, af því að þar

er sagt að húsbréfakerfið hafi fyllilega leyst af hólmi almennar lánveitingar til húsnæðismála sem tíðkuðust úr Byggingarsjóði ríkisins og ráði við það verkefni. Þetta er auðvitað stórskemmtilegt orðalag sem ástæða er til að vekja athygli hv. þm. á, m.a. í ljósi umfjöllunar Seðlabanka Íslands á dögunum um húsbréf og orðaskipta hæstv. félmrh. við þá stofnun. Hér segir á bls. 12 í grg. í umsögn um 14. gr., að húsbréfakerfið hafi þegar sýnt að það leysi fyllilega af hólmi lánveitingar til íbúðarbygginga á Íslandi sem áður tíðkuðust úr Byggingarsjóði ríkisins. Ég legg til að hæstv. ríkisstjórn ræði þetta nánar. Þess vegna er eðlilegt og skynsamlegt að vísa þessu máli til ríkisstjórnar, þaðan sem það er ættað.
    Næst kemur í áttunda lagi að greinunum um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67 frá 1971, og að greinum sem lúta að lögum nr. 97 frá 1990, um heilbrigðisþjónustu. Varðandi ákvæði um þetta hvort tveggja vísar minni hlutinn í álit heilbr.- og trn. Þetta eru 15. til og með 21. gr. frv. Minni hlutinn leggst ekki gegn því að þessir hlutar frv. verði samþykktir að því tilskildu að brtt. sem heilbr.- og trn. sameiginlega náði saman um nái fram að ganga. Að vísu telur minni hlutinn að þær tillögur frv. sem snúa að tannréttingum gangi of langt og þarfnist endurskoðunar og á þessum stuðningi er því sá fyrirvari. Við metum það mikils að hv. heilbr.- og trn. náði samstöðu um málið og teljum það fagnaðarefni og nokkurt ljós í myrkri þeirrar ósamstöðu og átaka sem hér ríkja því miður um allt of mörg mál.
    Í níunda lagi tökum við fyrir 22.--24. gr. frv., sem varða lög um eiturefni og hættuleg efni, um skráningu og mat fasteigna og lög um Iðnlánasjóð. Um þetta er einfalt að segja að minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þessi ákvæði frv. en verður að benda á að sáralítill tími vannst til að huga að þessum ákvæðum.
    Þá hef ég farið, herra forseti, yfir þau ákvæði frv. sem eru í fyrri kafla þess og allt aftur að II. kaflanum, sem byrjar á grein 25. og inniheldur svonefnd ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` sem stundum eru kölluð. Þar inn á milli kemur kannski meginefni þessa máls þar sem eru brtt. meiri hlutans. Ég bendi því hv. þm., þeim sem hafa sinnu í sér enn til þess að fylgjast með umræðunni og þessari yfirferð, sem ég held að gæti verið mönnum hjálpleg til að glöggva sig á efni þessa frv., jafnvel pínulítið umfram hina knöppu framsöguræðu, sem hér var flutt, og hefði ekki upplýst undirritaðan giska mikið, ef ég hefði komið algjörlega ókunnugur að málinu. Það er auðvitað bara mitt mat og kannski hefur það verið fullkomlega nóg til að skýra alla þætti þessa máls fyrir öðrum. Í brtt. meiri hlutans á þskj. 286 kem ég fyrst að 8. tölulið brtt. en það er 10. tölusetti liðurinn í nál. okkar sem ég sé reyndar að er orðinn 9. töluliður þessa þskj. væntanlega vegna þess að hæstv. meiri hluti hefur séð sig knúinn til að gera á brtt. breytingar frá því að við sáum þær síðast í minni hlutanum. Ég númeraði að sjálfsögðu brtt. meiri hlutans á grundvelli þeirra tillagna og þess skjals sem við höfðum undir höndum. Ég er því að tala um 9. tölulið brtt. meiri hlutans á þskj. 286. Hann lýtur að breytingu á hafnalögum nr. 69 frá 1984. Með þeim breytingum, sem eru í fjórum stafliðum, er lagt til að sérstakt álag komi ofan á vörugjald sem hingað til hefur runnið til hafnanna sjálfra og hafnanna eingöngu í landinu. Þetta gjald verði í formi 25% álags á allar vörur og renni í Hafnabótasjóð. Framlög ríkisins til hafnarmála eiga að sjálfsögðu að lækka að sama skapi og er sú upphæð áætluð 125 millj. kr. á næsta ári. Enn verður því miður að segja sömu söguna, sömu dapurlegu söguna, að ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um vinnslu málsins.
    Herra forseti. Ég ætla að gera hlé á máli mínu, þangað til þeir hæstv. samgrh. og hæstv. forsrh. ganga í salinn. Ég trúi því ekki að þeim sé vandara um en ræðumanni að halda sig innan þessara fjögurra veggja. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli á því að hæstv. samgrh. er genginn í salinn). Já, ég þakka það, mér er nærvera hans ætíð kærkomin. Þá er það spurningin með hæstv. forsrh. sem einnig stendur í dyrum. Ég segi að þeim viðstöddum, hæstv. ráðherrum, forsrh. og samgrh., að enn verður því miður að segja sömu sögu. Við sveitarfélögin var ekkert eiginlegt samráð haft við vinnslu þessa máls. Það slæma er að nánast öllum spurningum er enn ósvarað um tæknilega útfærslu málsins, um innheimtuaðferðina t.d. Vitað er að vandkvæði geta orðið á þessari innheimtu. Ég vona að hæstv. samgrh. hafi haft fyrir því að kynna sér framkvæmd þessara mála nóg til þess að vita að á því geta verið mikil vandkvæði að koma þessari innheimtu við. Ég tel mig bæran um að fullyrða þetta þar sem ég gekk sjálfur í gegnum það að kanna til þrautar hvort koma mætti við með sanngjörnum og réttlátum hætti einhverri gjaldtöku af þessu tagi sem gæti í fyllingu tímans orðið burðugur tekjustofn til að auka hafnaframkvæmdir í landinu. Á þeim er vissulega mikil þörf. Því miður varð niðurstaða mín, samgrn. og tekju- og tolladeildar fjmrn. sú, eftir mikla vinnu í þessum efnum, að gefast upp. Hvers vegna gerðum við það? Við beygðum okkur fyrir skynsamlegum rökum um þau vandkvæði sem væru á sanngjarnri innheimtu þessa gjalds. Þar kemur fyrst og fremst til að í því felast óhjákvæmilega veruleg uppsöfnunaráhrif. Það má segja að það gerist nú þegar í vörugjöldum hafnanna en þó er sá munur á að þau eru sjálfstæðir tekjustofnar hverrar hafnar fyrir sig. Þegar ríkið tekur til við að leggja á skatta af þessu tagi er það illræmt í öllum siðuðum löndum að í honum séu uppsöfnunaráhrif. Ég þarf ekki að útskýra þau fyrir hv. þingmönnum sem muna umræður um uppsöfnunaráhrif söluskattsins og vita að ein meginröksemd fyrir upptöku virðisaukaskatts voru þau að losna við þessi

uppsöfnunaráhrif --- að skattur legðist á skatt. Hér mun það óhjákvæmilega gerast að hið nýja vörugjaldsálag leggst ofan á vörugjaldsálag 2,5 sinnum eða 3 sinnum, ef illa tekst til. Í fyrsta lagi þegar varan kemur inn í hafnir, t.d. frá útlöndum. Fari hún í skemmur í Reykjavík og færist á milli farmbréfa tekur hún á sig nýtt hafnagjald þegar hún fer út úr Reykjavíkurhöfn á nýjan leik. Að vísu aðeins hálft, ef rétt er með hlutina farið, og þá leggur varan af stað í vegferð sína út á land, kemur þar í nýja höfn og tekur enn á sig hafnagjald og að þessu sinni fullt á nýjan leik. Þarna leggjast gjöld ofan á gjöld, skattur ofan á skatt og uppsöfnunaráhrif verða umtalsverð. Þau koma að sjálfsögðu fram í vöruverði á landsbyggðinni með margföldum þunga á við það sem gerist hér þar sem það er sjaldgæfara að vara hafi farið milli margra hafna þegar hún birtist hér á suðvesturhorni landsins.
    Mér er ekki kunnugt um að í gildi sé eða einu sinni í burðarliðnum sé samningur milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um innheimtu þessa álags. Nú eru hér menn sem vita vel að innheimtutækin sjálf eru í höndum sveitarfélaganna og ég spyr hæstv. samgrh.: Ætlar hann að neyða því upp á sveitarfélögin og hafnirnar að innheimta þetta gjald eða er ætlunin að innheimtumenn ríkissjóðs, hringinn í kringum landið fari í það púlsverk að reikna 25% álag ofan á öll vörugjöld í landinu í höfnum og innheimta þau með harðri hendi? Þeir fá nóg að gera, segi ég bara, ef þeir ætla ekki að gera það í gegnum innheimtukerfi sveitarfélaganna. Ef ætlunin er hins vegar, sem auðvitað er eina skynsamlega vitið, að nota innheimtukerfi sveitarfélaganna þarf að semja um það fyrst við sveitarfélögin, hæstv. samgrh. Þess vegna tekur engu tali, í þessu tilviki frekar en öðrum, að ekki skuli vera byrjað á því að ræða við sveitarfélögin, Hafnasamband sveitarfélaga og aðra bæra aðila á þessu sviði. Það var m.a. fyrir andstöðu eða ábendingar Hafnasambands sveitarfélaga sem fyrri ríkisstjórn féll frá þessari gjaldtöku eða sambærilegri. Við sáum auðvitað að það var óðs manns æði að ætla að láta sér detta í hug að gera þetta í andstöðu við sveitarfélögin og hafnasamband þeirra.
    Það er auðvitað ljóst að allar upplýsingar vantar um þetta mál, öll gögn. Ekkert liggur fyrir um áhrif þessa á vöruverð á landsbyggðinni eða t.d. á afkomu sjávarútvegsins. Auðvitað tekur varningur sjávarútvegsins, þegar hann umbreytist úr afla í vöru, á sig þetta gjald. Hjá því verður ekki komist. Þar með lenda byrðar á sjávarútveginum, á útflutningsatvinnuvegunum, sem mun að sjálfsögðu hafa áhrif á afkomu þeirra.
    Við í minni hlutanum vísum að lokum, auk þess sem við leggjum til að þessu verði á nýjan leik vísað til ríkisstjórnarinnar, í álit minni hluta samgn. og í álit Hafnasambands sveitarfélaga og Reykjavíkurhafnar. Fleiri aðilar hafa ekki, svo mér sé kunnugt um, komið saman til að senda frá sér álit í þessum efnum. Ég veit og fer ekki í neinar grafgötur um álit hafnarstjórna og sveitarfélaga vítt og breitt um landið og er þá allra síst að efast um afstöðu minnstu hafnanna vegna þess að ljóst er að þar yrðu mestu vandkvæðin á innheimtunni. Þar er innheimtan ekki jafnuppbyggð og þróuð eins og hjá hinum stærri höfnum sem velta milljónatugum eða milljónahundruðum eins og Reykjavíkurhöfn og nokkrar stærstu hafnir landsins aðrar gera. Því miður er hér enn á ferðinni óbrúklegur málatilbúnaður af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ber að harma það.
    Hæstv. samgrh. verður, ef hann vill ekki standa berskjaldaður gagnvart þessum ónýta málatilbúnaði, að gjöra svo vel og reyna að leggja leið sína í ræðustólinn og lýsa fyrir hv. þm. eitthvað inn í þann frumskóg sem er væntanleg framkvæmd þessa atriðis. Ég hvet aðra hv. viðstadda þingmenn til þess að muna það með mér að spyrja hæstv. samgrh. um þetta. Því svo kann að fara síðar á þessum sólarhring eða hinum næsta að minni mitt verði reikult og ég gleymi að hlýða á svör hæstv. samgrh. Ég bið þá aðra um aðstoð í þeim efnum.
    Þetta er auðvitað stórmál fyrir mörg hin minni sveitarfélög þar sem rekstur hafnarinnar er kannski langstærsta einstaka atriðið á verksviði viðkomandi sveitarfélags, fyrir utan e.t.v. grunnskólann. Þannig er auðvitað um fjölmörg sjávarpláss hringinn í kringum landið. Hlutfallslega er rekstur hafnarinnar geysilega stór póstur hjá þeim. Menn þurfa að muna, landkrabbarnir hér á hafnlausri ströndinni þar sem hafnir eru með höppum og glöppum að þetta er ekki alls staðar svona. Þvert á móti er það þannig að hafnirnar eru miðpunktur, upphaf og endir, og lífæð allra hluta í fjölmörgum byggðarlögum hringinn í kringum landið.
    Herra forseti. Í ellefta lagi þá kem ég að 9. tölulið brtt. meiri hlutans sem eru breytingar á lögum nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka. Þar er því til að svara að minni hlutinn hafði sáralítinn tíma til að athuga þær upplýsingar sem nefndinni bárust varðandi þetta efni. Að ósk okkar komu á lokastigi vinnslu nefndarinnar til viðtals fulltrúar umhvrn. og veiðistjóraembættis og sveitarfélaga og lögðu fram þær upplýsingar sem þeir höfðu og reyndu að svara eftir bestu getu þeim spurningum sem við bárum fram. Ég met það að sjálfsögðu og tel að við höfum fengið fullnægjandi gögn í hendur í málinu. En gallinn var sá að við höfðum því miður sáralítinn tíma til að vinna úr þeim í kjölfarið. Ég vísa í þau gögn og hvet þá sem það vilja að kynna sér þau. Þau er hægt að fá hjá starfsmanni nefndarinnar og eflaust einnig hjá hæstv. umhvrh. eða umhvrn.

    Við leggjum þó engu að síður til, annars vegar með hliðsjón af því að við teljum okkur ekki hafa haft aðstæður til að kynna okkur þessar upplýsingar þannig að við höfum sannfærst um að þessar breytingar væru skynsamlegar, og hins vegar vegna þess að við óttumst bæði af þessum ástæðum og öðrum um hag hinna minni sveitarfélaga í öllum þessum breytingum, að þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar. Af minni hálfu er þetta ekki lagt til vegna þess að ég sé að taka afstöðu alfarið gegn þessum breytingum. Mér er ljóst að þörf er á því að taka á þessum málum og koma þarna á fastari skipan. Okkar afstaða verður að vera sú, meðan ekki er skýrt hvernig þessar breytingar koma t.d. við hin fámennu veikburða sveitarfélög í sveitahreppunum sem til viðbótar eru í þessu frv. og þessum breytingum að fá á sig stórauknar álögur vegna nefskattsins sem ég kem að síðar og e.t.v. skerðingu á Jöfnunarsjóði, að þetta gangi til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar.
    Í tólfta lagi kem ég hér því miður að dapurlegum lið, herra forseti, sem er reyndar 12., samkvæmt nýrri númeringu, stafliður brtt. meiri hluta nefndarinnar. Það er a-liður 12. brtt., sem lýtur að breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Eru mér það mikil vonbrigði að þurfa að ræða um þetta í því ljósi sem hér er varpað á hlutina, herra forseti. Þessi breyting meiri hlutans felur það í sér að tekjur Vegasjóðs verða skertar enn og nú um 265 millj. kr. á næsta ári, ef fram gengur, og rennur það fé í ríkissjóð. Þetta eru okkur auðvitað mikil vonbrigði. ( EgJ: Þú gerðir þetta nú líka.) Það er rétt, hv. þm. Sá sem hér talar hefur því miður einu sinni átt þátt í því að taka hluta af tekjum Vegasjóðs í ríkissjóð. En þá er líka rétt, hv. þm., að við förum yfir það við hvaða aðstæður það var gert. ( EgJ: Eru það ekki svipaðar aðstæður og núna?) Nei, hv. þm., bíddu aðeins rólegur. Þannig var að haustið 1988, eða nánar tiltekið rétt fyrir jól, voru bensíngjald og þungaskattur hækkuð verulega vegna þess að á undangengnum missirum hafði mikill slaki myndast í þessa innheimtu og tilhlaupið nam tugum prósenta sem ekki var nýtt til að afla Vegasjóði tekna með álagningu bensíngjalds og þungaskatts. Enda höfðu vegaframkvæmdir dregist saman sem þessu nam. Þess vegna fór ég strax að skoða hvernig unnt væri að ná fram samstöðu um að hækka til mikilla muna þessa tekjuöflun og styrkja þannig tekjuforsendur vegamálanna til frambúðar. Og með hliðsjón af miklum erfiðleikum í atvinnumálum og ríkisfjármálum haustið 1988 þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. hafði hrökklast frá völdum, var samkomulag gert um það að þessir tekjustofnar yrðu hækkaðir nokkurn veginn í botn á tilteknum tíma en tekjuaukinn að hluta til á einu ári látinn renna í ríkissjóð. Við þetta samkomulag, sem ég gerði við aðra ráðherra í þeirri ríkisstjórn og þá sem að meiri hlutanum stóðu, lét undirrita og færa inn í fundargerðarbækur ríkisstjórnarinnar til þess að það væri nú örugglega statt, var staðið, hv. þm. Þetta leiddi síðan til þess að strax á árinu 1989 --- og reyndar enn frekar á árunum 1990 og 1991 --- voru tekjuforsendur Vegasjóðs allt aðrar og betri en undangengin ár. Með öðrum orðum, með þessu náðist samstaða um að taka inn slakann á innheimtu þessara gjalda og þess njótum við í dag, hv. þm. ( EgJ: Það kom nú annar slaki út þá aftur.) Það kom að vísu minni háttar slaki á aftur en hann er þó ekki nema um þriðjungur af því sem hann var á þessum tíma og hefur reyndar að hluta til náðst inn á nýjan leik, eins og áætlað var við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári og að lokinni þjóðarsátt yrði reynt að ná inn einhverjum þeim prósentum sem út af stæðu í þessum efnum.
    Ég fer nú yfir þetta hér til þess að hafa forsöguna á hreinu í þessum efnum og vissulega viðurkenni ég að það er rétt að eitt fordæmi er fyrir þeirri ráðstöfun á síðustu árum að taka hluta af tekjum Vegasjóðs í ríkissjóð en það var gert við sérstakar aðstæður.
    Með þessari ráðstöfun er því miður enn aukin skerðing framkvæmdafjár Vegagerðarinnar og þannig verður það, herra forseti, að skerðing vegafjár verður samtals 766 millj. kr. frá því sem gildandi vegáætlun gerir ráð fyrir. Því miður hefur smávægileg reikningsskekkja slæðst inn í nál. því þar standa 765 millj. kr. En þegar ég fór yfir þessa útreikninga áðan, eftir að till. til þál. um breyt. á vegáætlun hafði verið dreift, og lagði allar tölur saman á nýjan leik sá ég að ég hafði gert þarna minni háttar reikningsskekkju, eða upp á 1 millj. kr. og vona ég að það fyrirgefist. En niðurstaðan er svo borðleggjandi að ég held ég þurfi ekki að rökstyðja hana neitt frekar. Að framkvæmdafé Vegagerðar verður skert um 766 millj. kr. á næsta ári miðað við það sem vegáætlun gerir ráð fyrir. Ef maður tekur fram uppreiknaða upphæð vegáætlunarinnar eins og hún stendur og miðað við 8% breytingu verðlags milli ára, er skerðingin að sjálfsögðu meiri eða 1.003 millj. kr. Vegáætlunin gerði ráð fyrir 8% verðlagsbreytingum eða hækkun á vegavísitölu milli ára. Þess vegna var niðurstöðutala vegáætlunarinnar á árinu 1992 áætluð verða 6.318 millj. Um 250 millj. kr. lántaka vegna Vestfjarðaganga átti að bætast við sem hefði leitt til þess að framkvæmdafé til vegagerðar hefði orðið 6.568 millj. á næsta ári. Nú er áformað að það verði 5.565 millj. og munurinn á þessum tveimur tölum eru 1.003 millj. kr. Báðar tölurnar hafa verið í gangi undanfarna daga. Hæstv. forseti, í góðsemi minni er ég þess vegna að fara yfir þetta og þykist kunna það sæmilega, ef það má verða einhverjum til betri skilnings á þessu. Þannig er rétt að báðar tölurnar eiga sér stoð í veruleikanum eftir því við hvað er miðað, 1.003 millj. miðað við 8% verðlagsbreytingum á vegáætlun á milli ára og 766 millj. miðað við núgildandi framreikning Vegagerðar sem gerir ekki ráð fyrir nema 4% verðlagsbreytingum á milli ára.

    Þessar tölur sjá menn líka ef þeir fara í fskj. með þáltill. um vegáætlun sem hér hefur verið dreift og leggja við þær 6.081 millj. sem vegáætlunin er framreiknuð með 4% hækkun. 250 millj. kr. áttu að koma til viðbótar þessu samkvæmt sjálfstæðri ákvörðun Alþingis í formi lántöku vegna hröðunar framkvæmda við Vestfjarðagöng. Þá hefði framkvæmdaféð framreiknað orðið 6.331 millj. og frá því dregnar 5.565 millj. sem gera þessar 766 millj. kr. Þannig er það óhrekjanlegt að í vændum er skerðing vegáætlunar að raungildi miðað við endurmetnar verðlagsforsendur upp á 766 millj.
    Ég vona að ég þurfi ekki að koma hér upp og hlusta á vefengingu á þessu en fari svo, þá er ég tilbúinn til að útlista þetta enn frekar þannig að enginn maður geti um það deilt.
    Vissulega er það svo rétt, til að allri sanngirni sé nú haldið til haga, að vegna lakari tekjustöðu Vegasjóðs hefði orðið vöntun á vegatekjum til að fullnægja þessari framkvæmdatölu. Hefði þá annaðhvort þurft að koma til yfirdráttur hjá Vegasjóði, fjárveiting úr ríkissjóði, eða minni framkvæmdir, en það hefur iðulega gerst áður og oft verið leyst án þess að til skerðingar á vegafé kæmi.
    Þetta hef ég nú rakið nokkuð rækilega, herra forseti, til þess að ekki verði um þetta deilur. Hér er að sjálfsögðu ósköp einföld pólitísk ákvörðun á ferðinni. Vilja menn skera niður vegaframkvæmdirnar svona mikið á næsta ári? Telja menn það skynsamlegt? Ég segi nei. Ég tel það óskynsamlegt og minni hlutinn gerir það ekki síst af tveimur þungavigtarástæðum: Annars vegar með tilliti til ástands vegamála og samgöngumála í landinu sem mjög brýn þörf er á að bæta. Hins vegar með tilliti til atvinnuástands og framkvæmdastigs í landinu eins og nú horfir. Vegaframkvæmdir eru mjög atvinnuskapandi. Þær halda uppi vissum umsvifum í byggðarlögunum vítt og breitt um landið og eru betur fallnar til þess en margt annað að halda uppi umsvifum og fleyta okkur yfir miklar lægðir í atvinnumálum og efnahagsmálum.
    Framkvæmdir í samgöngmálum eru líka viðurkenndar að vera einhverjar þær arðbærustu sem um getur í þjóðfélaginu. Í minni tíð í samgrn. var reiknað út að mjög gjarnan væri fullkomlega óhætt að reikna með 10% innri arðsemi í framkvæmdum í vegamálum. Ég hygg að þeir hv. alþm. og aðrir sem áttu sæti í nefnd er vann að gerð langtímaáætlunar í vegamálum kannist eitthvað við þessa hluti. Og því miður er það þannig að ekki eru víða í boði fjárfestingarkostir í landinu sem bjóða upp á jafnmikla arðsemi og samgöngubæturnar gera. Þess vegna er það hikstalaust mín skoðun að þrátt fyrir erfiðleika í efnahagsmálum sé réttlætanlegt að reyna að halda uppi eins miklum framkvæmdum í samgöngumálum og nokkur kostur er. Tímans vegna ætla ég ekki að fjölyrða um þann sérstæða kafla sem tengist þessu máli, að með ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga úr framkvæmdum við Vestfjarðagöng er Vegagerðin sett í þá hættu að brjóta samning á grundvelli alþjóðlegs útboðs, enda hef ég gert það að umræðuefni áður.
    Í þrettánda lagi, herra forseti, og fer ég nú senn að komast í gegnum þessa úttekt mína á efni frv. og afstöðu minni hlutans, kem ég að 12. tölul. brtt. meiri hlutans, c-lið. Það er nefskattur vegna löggæslukostnaðar. Þá má hæstv. samgrh. fara í kaffi en hæstv. landbrh. verður hins vegar að koma hingað á nýjan leik, herra forseti, þegar ég kem að síðasta atriði nál. sem lýtur að ,,þrátt-fyrir`` kaflanum og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Hæstv. landbrh., eftir um það bil 15 mín. verður það tímabært. Segi menn svo að ég sé ekki að reyna að vera liðlegur við hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Það er hér með vottfest af hæstv. umhvrh. og ég vona að framíkallið hafi heyrst og komi í þingtíðindin.
    12. tölul. brtt. meiri hlutans, c-liður, fjallar sem sagt um þennan kostulega nefskatt sem hæstv. ríkisstjórn ákvað í vandræðum sínum að leggja á sveitarfélögin í landinu, reiknaðan út með tilliti til íbúafjölda þeirra og merkja löggæslukostnaði. --- Ég endurtek, merkja löggæslukostnaði, til málamynda, hreinna málamynda. Með þessum sakleysislega lið yrði nefskatti skellt á sveitarfélögin sem næmi mismunandi upphæðum á hvern íbúa þeirra eftir íbúafjölda sveitarfélaganna. Þessi tillaga leit dagsins ljós í fyrsta sinn í efh.- og viðskn. fyrir tveimur og hálfum sólarhring, á mánudagsmorgun. Hún leit dagsins ljós hér í þingsölum gagnvart óbreyttum þingmönnum hv. í fyrsta sinn í gærkvöldi, eða reyndar í dag, þegar þeir komu til fundar, þeir sem ekki hlýddu á einræðu Starkarðar hér í gærkvöldi, þ.e. á útbýtingarfund hæstv. forseta. Það er auðvitað kostulegt að svona stórpólitískt mál, átakamál, skuli bera svona að á Alþingi Íslendinga. Í nefndinni hefur að sjálfsögðu komið fram að ekkert samband var haft við forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga. Og ekkert samráð haft við þá frekar en áður um þetta atriði, nema það sé kallað samráð, hæstv. forseti, að kalla í nokkra forsvarsmenn Samtaka sveitarfélaganna í landinu og tilkynna þeim ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ef það er samráð þá bið ég um orðabók Menningarsjóðs og ætla að fletta upp á því hvað stendur þar um orðið samráð. Ég hef ekki áttað mig á að það héti samkvæmt málvenju í íslensku samráð --- hæstv. dómsmrh., og fagna ég nú hingað komu yðvarri því ég er að ræða hér um dómsmálamálefni --- að hóa í forsvarsmenn sveitarfélaganna og tilkynna þeim að það eigi að skella á þá rúmlega 700 millj. kr. útgjöldum á næsta ári og merkja það til málamynda löggæslukostnaði í landinu. Enda ítrekuðu forsvarsmenn sveitarfélaganna það á fundi með efh.- og viðskn. að mótmæli þeirra, samanber samþykkt Sambands ísl. sveitarstjórna frá 11. des., og sjá fskj. VI. í þessu nál., eru enn í fullu gildi. Það var svo eftir öðru að ekki gafst kostur á að fá tæmandi upplýsingar um áhrif þessarar gjaldtöku á afkomu sveitarfélaganna fyrr

en eftir að nefndin lauk störfum um þetta mál. Ljóst er, og ég get sýnt fram á það með útreikningum og tölum hér á eftir, að í mjög mörgum tilvikum liggja væntanleg útgjöld sveitarfélaganna í landinu vegna nefskattsins eins á bilinu 2--5% af brúttótekjum, 1,5--4% í mörgum tilvikum, af heildartekjum sveitarfélaganna. Það liggur nú þegar fyrir, herra forseti, að mörg sveitarfélaganna --- væri æskilegt að hæstv. félmrh., forsrh. og dómsmrh. gætu gert okkur þann greiða að vera viðstödd þennan hluta umræðunnar --- ætla sér að hækka álagningu útsvars á næsta ári í tengslum við þessa ákvörðun og tvö þeirra hafa þegar gert það. Mosfellsbær og Hafnarfjörður hafa þegar tekið ákvörðun um að hækka sínar álögur á íbúana á næsta ári.
    Þetta mun síðan leiða til þess, ef þau og fleiri sveitarfélög fullnýta tekjustofna sína, að þau öðlast rétt til greiðslna úr Jöfnunarsjóði. Sveitarfélög sem ekki hafa áður átt þess kost vegna þess að þau hafa ekki fullnýtt tekjustofna og þar með fyrirgert rétti sínum til greiðslna úr Jöfnunarsjóði. Af þessum sökum getur niðurstaðan orðið sú að þessar álögur bitni með tvöföldum eða margföldum þunga á ýmsum verst stöddu sveitarfélögum landsins sem mestrar tekjujöfnunar hafa notið hingað til úr Jöfnunarsjóði.
    Samkvæmt upplýsingum frá fulltrúa dómsmrn. sem mætti á fund nefndarinnar lítur dómsmrn. ekki á nokkurn hátt á þessa breytingu sem verkefnatilfærslu, enda tæki það langan tíma, kannski eitt ár, kannski tvö. Auk þess er umdeilt hvort það sé farsæl breyting að færa þetta á nýjan leik eða að einhverju leyti yfir á verksvið eða forræði sveitarfélaga. Hér er því um hreina og beina og klára skatttöku að ræða án nokkurs samhengis við viðkomandi verkefni og án þess að nokkurt forræði fylgi með í viðkomandi málaflokki.
    Það er áætlað, herra forseti, að þessi löggæsluskattur, þessi lögguskattur, löggunefskattur eða hvað maður á að kalla hann, kosti sveitarfélögin rúmlega 700 millj. kr. á næsta ári og er reyndar auðreiknað miðað við íbúafjölda í landinu. Því þennan skatt á að leggja á hvern einasta Íslending frá vöggu til grafar, hvern einasta uppistandandi Íslending (Gripið fram í.) og í þessum skilningi uppistandandi. Þá eru alveg ný tíðindi komin í álagningu nefskatta í landinu því fram að þessu hafa jafnvel hinir illræmdustu nefskattar verið undanskildir í tilvikinu gamalmenni og börn. En ekki hér. Nei, öll sveitarfélögin skulu skila þessum skatti til ríkisins á næsta ári upp á hvert einasta mannsbarn sem lífsandann dregur í þeirra sveitarfélögum, án tillits til tekna. Án tillits til stöðu sveitarfélaganna að öðru leyti og fullkomlega og algjörlega án tillits til þess hvort þar sést nokkurn tímann löggæslumaður eða ekki. Auðvitað er augljóst mál að þessi skattlagning er með slíkum endemum og svo hrópandi að engu tali tekur. Hafa menn t.d. farið yfir það, hæstv. dómsmrh., hvernig þetta kemur út fyrir sveitarfélag með 299 íbúa? Það borgar þá 299 sinnum 1700 kr. sem eru 508.300 kr. En svo fæðist lítið barn eða gamalmenni kemur heim með lögheimilið og íbúunum fjölgar upp í 300. Hvað gerist þá? Þá tekur þetta sveitarfélag til við að greiða 300 sinnum 2.850 kr. sem gera 855.000 kr. Þrjúhundruðasti íbúinn sem bætist við sveitarfélagið verður því dýr fyrir sveitarfélagið. Þetta litla barn eða þetta gamalmenni. Hvað kostar það, hv. þm.? Svo vill til að ræðumaður hefur reiknað það út. Það að þetta litla barn fæðist eða gamalmenni flytur heim og íbúatalan fer upp í 300 manns kostar 346.700 kr. fyrir þetta litla fátæka sveitarfélag. Ja, dýr er sá gestur. Ekki er hægt að útiloka að einn og einn maður verði litinn hornauga í svona sveitarfélagi sem færir íbúatöluna upp fyrir þessi viðmiðunarmörk.
    Auðvitað er alveg augljóst að álitamál, og reyndar ekkert álitamál að mínu mati, hlýtur að vera hvort þessi skattlagning þverbrýtur ekki svonefnda jafnræðisreglu í skattamálum. Vegna þess að hér er í fyrsta lagi um skattlagningu að ræða, hæstv. dómsmrh., og þar er ég hæstv. dómsmrh. sammála. Hann gaf tímamótayfirlýsingu um það í Morgunblaðinu á sunnudaginn að hér væri hreinn og klár skattur á ferð. Starfsmenn hans í dómsmrn. staðfestu þetta á fundum með efh.- og viðskn. þar sem þeir sögðu að engin verkefnatilfærsla né forræðistilfærsla væri fyrirhuguð í tengslum við þetta mál. Ergo, skattheimta. Þá spyr ég hæstv. dómsmrh. og aðra hæstv. ráðherra sem ættu að vera hér, t.d. hæstv. félmrh.: Erum við þá ekki komin á þunnan ís varðandi jafnræðisregluna í skattalegu tilliti? Að mismuna svo berlega íbúum landsins með þeim hætti hvað skattgreiðslur til sameiginlegs sjóðs varðar. Því hér er ekki á ferðinni skattur til sveitarfélags, hér er ekki á ferðinni þjónustugjald eða kostnaður vegna þjónustu sem sveitarfélögin fá, því þar er ekkert samhengi á milli. Ég óska eftir því, herra forseti, að Alþingi afgreiði ekki þetta mál fyrr en lögfræðiálit liggur fyrir um þetta atriði. Ég bið um að okkur berist greinargerð frá fjmrn., ríkislögmanni vini mínum, eða Lagastofnun Háskólans, t.d. virtum prófessorum þar, um það hvort þetta sé nú ekki ærið hæpið með tilliti til jafnræðisreglu gagnvart skattalögum. Fyrir nú utan öll þau ósköp sem ástæða væri til að fara út í. En hér væri gaman að hafa t.d. hv. 6. þm. Reykv. Sólveigu Pétursdóttur og hv. 5. þm. Norðurl. v. Vilhjálm Egilsson við umræðuna því þessir ágætu þingmenn fluttu heitar ræður um það í efh.- og viðskn. að sakleysisleg brtt. um undanþægt heimildarákvæði sem hv. 5. þm. Vestf. flutti og varðaði skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði væri tvímælalaust brot á jafnræðisreglunni. Þessir hv. þingmenn urðu svo heilagir í framan að ef ég hefði einhvern tímann séð Jesú Krist þá hefði ég örugglega haldið að þetta væri hann sem væri þarna fyrir framan mig. Þetta væri alveg tvímælalaust brot á jafnræðisreglunni. Sú ósvinna

að ætla að láta fjmrh. hafa heimild til þess að fella niður skattinn gagnvart sumum landsmönnum en öðrum ekki. En hvað er þá þetta, herra forseti? Ég verð að segja það alveg eins og er að ég gef ekki mikið fyrir málflutning af þessu tagi og virðing mín fyrir þessum hv. þingmönnum dvínar stórlega ef þeir verða svo litlir karlar eða kerlingar, eftir málvenju, að samþykkja þetta möglunarlaust. Ég verð að segja það alveg eins og er. Fyrir svo utan allt annað sem þessu máli tengist, framkomunni við sveitarfélögin o.s.frv.
    Við í minni hlutanum höfum valið að birta nýstaðfestan Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga með tilliti til þessa máls og hann er síðasta fskj. með þessu litla nál. sem ég er hér að mæla fyrir. Þar eru býsna afdráttarlaus ákvæði um þær skuldbindingar sem viðkomandi ríkisstjórn er að undirgangast gagnvart sjálfstæði sveitarfélaganna og tekjustofnum þeirra. Hvers konar útreið er þetta sem sveitarfélögin fá í þessum samskiptum og hvers eiga þau að gjalda sem fara t.d. verst út úr þessum hlutum? Ég vil vísa í fskj. um þetta mál. Ályktun stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, fskj. VI. frá 11. des. ef ég man rétt, er óvenju harðort. Þar segir sambandsstjórnin að ríkisstjórnin hafi nú með einhliða ákvörðunum og án alls samráðs við sveitarfélögin og samtök þeirra lagt fram tillögur um breytingar á tveimur veigamestu tekjustofnum sveitarfélaga, útsvari og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt felist í þessu stórfelldar nýjar álögur á sveitarfélögin. Ekkert samráð hefur verið haft við forsvarsmenn sveitarfélaga, segir þarna, um þessa tillögu. Þrátt fyrir skýr ákvæði samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga um samráð þessara aðila varðandi sameiginleg hagsmunamál og ákvæði 116. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en þar segir --- og svo kemur það sem ég las upp hér í byrjun ræðu minnar, að ríkisstjórnin skuli hafa náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um þau mál er varða verkskiptingu og um önnur samskipti þessara aðila.
    Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga undir forustu sjálfstæðismannsins Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar segir: ,,Samningsbundið og lögformlegt samstarf er þannig rofið og það er einskis virt af ríkisstjórninni.``
    Þetta eru óvenjulega þung orð, herra forseti, sem maður neyðist til að lesa hér upp frá hverjum hagsmunasamtökunum og aðilunum á fætur öðrum úti í þjóðfélaginu. Frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, frá aðilum vinnumarkaðarins, frá sjómönnum, frá hagsmunasamtökum í sjávarútvegi o.s.frv. o.s.frv.
    Enn fremur segir í þessari samþykkt: ,,Slík vinnubrögð leiða til alvarlegs trúnaðarbrests milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins . . . Mörg sveitarfélög standa nú frammi fyrir miklum fjárhagsvanda. Gerðar eru kröfur á hendur þeirra hringinn í kringum landið um fjárhagslega þátttöku í atvinnulífinu`` --- segir þar. ,,Einnig hefur ríkisvaldið að undanförnu aukið fjárhagslegar skyldur sveitarfélaganna með lögbindingu nýrra verkefna og hertum reglugerðarákvæðum.``
    Þessi samþykkt stendur, segir framkvæmdastjóri og formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Hún er í fullu gildi þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið að leggja á nefskattinn í staðinn fyrir að henda málefnum fatlaðra í sveitarfélögin, jafngeðslegt og það nú var. Það er með ólíkindum, herra forseti, það sem maður upplifir þessa dagana og t.d. hæstv. félmrh. leggur nafn sitt við í þessum efnum. Eins og er um ákvæðin um ábyrgð launa við gjaldþrot og eins og var um þá furðulegu ákvörðun næturfundarins að henda í sveitarfélögin málefnum fatlaðra með einhliða ákvörðun og tilheyrandi kostnaði upp á 400 millj. kr. eins og málefni fatlaðra í landinu væri eitthvað til að kasta á milli. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mig furðar á því að menn skuli lenda í slíkum ógöngum eins og þarna hefur gerst.
    Varðandi lögreglunefskattinn koma auðvitað út kostulegir hlutir þegar hann er skoðaður nánar. Ég tel að skatttaka með þessum hætti gangi ekki og vonandi kemur álit lögfræðinga á því á næstunni. Ef við t.d. lítum á það hver fjöldi löggæslumanna í hinum einstöku sýslum er í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna kemur ýmislegt kostulegt í ljós. Í Strandasýslu eru t.d. 1.066 íbúar á hvern lögregluþjón og mun það sennilega stafa af því að lögregluþjónar eru ekki margir í Árneshreppi á Ströndum. Þar eru menn friðsamir og hafa að mestu leyti komist af án blessunar löggæslunnar. Á Siglufirði eru hins vegar aðeins 303 íbúar á bak við hvern lögregluþjón. Í Norður-Múlasýslu búa þeir vel að lögreglu eða hitt þó heldur því að þar eru sömuleiðis 1.066 íbúar á bak við hvern lögregluþjón. En í Keflavík og Grindavík hljóta þeir að vera ódælir því að þar eru þeir 399 á bak við hverja löggu. Verst af öllum sýslum landsins fer þó Vestur-Skaftafellssýsla út úr þessu, sýsla hv. 2. þm. Suðurl., og segir það auðvitað sína sögu um friðsemd og spekt þeirra Vestur-Skaftfellinga að þeir komast af með einn lögregluþjón á 1.209 manns. Sem sagt er nóg að hafa eina löggu til að passa upp á hverja 1.209 Vestur-Skaftfellinga og gengur samt allt vel þar.
    Auðvitað liggur í hlutarins eðli að bókstaflega fáránlegir hlutir koma út ef menn fara að burðast við að tengja þetta við íbúatölu sveitarfélaganna. Ég held að menn ættu því betur að láta það ógert og vera jafnhreinskiptnir og hæstv. dómsmrh. að ósköp einfaldlega viðurkenna að þetta er bara skattur, holt og bolt skattur á landsmenn, innheimtur í gegnum sveitarfélögin í tveimur þrepum með þessum hætti.
    Rétt til að gefa mönnum hugmyndir um stærðargráðuna sem er á ferðinni er rétt að taka það fram að Reykjavíkurborg mun greiða í þennan löggunefnskatt á næsta ári 278 millj. kr. og Akureyri 40 millj. kr. Svo vill til að ræðumaður þekkir svolítið málefni þess sveitarfélags og veit að þetta er t.d. býsna umtalsverður hluti af lausu framkvæmdafé Akureyrarbæjar, því miður er það svo. Og það vill svo til að ég

man fríhendis, ef svo má að orði komast, nokkurn veginn þær upphæðir sem Akureyrarbær hefur getað lagt í sinni framkvæmdasjóð undanfarin ár og þær eru mjög sambærilegar þessari tölu. Ég held ég muni það rétt að þar hafi verið á ferðinni stærðargráðan 50--70 millj. kr. á undanförnum árum. Þetta eru því miður stóralvarlegir hlutir.
    Nesjahreppur, sem hv. þm. Agli Jónssyni þykir vænt um. ( Gripið fram í: Þér líka.) Og mér líka auðvitað, þetta er fallegur hreppur. Þar býr 301 maður þannig að öllu óheppnari gátu þeir ekki orðið þarna í Nesjahreppi, nema þessi mörk hafi verið valin af sérstökum kvikindisskap við Nesjahrepp, og væri það eftir öðru --- kannski í hefndarskyni fyrir álit landbn. ( Gripið fram í: Það skapar hættuástand.) Ég gef mér það auðvitað að nú reyni forsvarsmenn Nesjahrepps að semja við tvo íbúa að flytja sem skjótast á brott. ( Gripið fram í: Nei, þetta er nú ekki rétt hjá þér.) Ja, einhverjum kynni að detta það í hug. Það má borga þeim stórfé, þeim tveimur sem væru svo vinsamlegir að skrá heimilisfang sitt annars staðar. Það má borga 200 þúsund á kjaft eða eitthvað svoleiðis.
    Fleiri svona kostuleg dæmi get ég nefnt. Vita menn t.d að litli Grímseyjarhreppur norður við heimskautsbaug mun þurfa að borga 205.700 kr. á næsta ári í löggæslunefskattinn? Hafa menn hugleitt hversu oft lögregluþjónn sést í Grímsey? Annar bláfátækur lítill hreppur í mínu kjördæmi inn til dala á Tröllaskaga með 55 íbúa, rétt yfir hinum lífvænlegu mörkum samkvæmt lögum á að borga á næsta ári 93.500 kr. í þennan nýja skatt. Ég get tekið enn hroðalegri dæmi eins og Norðfjarðarhrepp og ef menn fara síðan í fylgiskjöl þar sem jafnframt eru upplýsingar um álögð gjöld á síðasta ári sjá menn að Norðfjarðarhreppur á að borga í þennan skatt með sínum 85 íbúum 144.500 kr. en heildartekjur sveitarfélagsins eru 3.489 þús. kr. Þetta þýðir að af brúttótekjum Norðfjarðarhrepps fara á næsta ári á fimmta prósent í þennan skatt. Þetta er að vísu einn af tekjulægstu hreppum landsins. En þar með er líka verið að segja að hann gæti verið einn af þeim sem missti hvað mest við skerðingu á greiðslugetu Jöfnunarsjóðs hvað jöfnunargjöldin snertir.
    Herra forseti, ég gæti farið með mörg fleiri slík dæmi upp úr þessum fylgiskjölum. Ég hvet hv. alþm. til þess að kynna sér þau og ég fullyrði að hér eru reidd fram gögn sem gefa mönnum möguleika á því að glöggva sig tiltölulega vel á þessu máli.
    Því er alveg ljóst að við í minni hluta efh.- og viðskn. leggjum eindregið til að þetta mál verði ekki lögfest. Því verði vísað til ríkisstjórnarinnar þaðan sem það kom og ekki sýnt okkur aftur, a.m.k. ekki í þeim búningi sem hér er á ferðinni.
    Að lokum, herra forseti, kem ég að II. kafla frv. Þar var því miður umfjöllun sama marki brennd og vinnan að öðru leyti, að sáralítill tími gafst til að fara yfir þau atriði. Efni barst frá nokkrum aðilum inn í nefndina og auk þess komu á fund okkar forsvarsmenn bænda, Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda og Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri.
    Ég ætla hér að lokum að gera svo að umtalsefni 34. gr. frv. og var þá búinn að nefna það við hæstv. landbrh. að gaman væri að hafa hann viðstaddan og nú er u.þ.b. sá stundarfjórðungur liðinn sem ég gaf honum upp að myndi líða áður en að þessum hluta málsins kæmi. En 34. gr. frv. er sú grein í svonefndum ,,þrátt fyrir`` kafla þar sem ákveðið er í fyrsta sinn að skerða tekjur Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á árinu 1992 um ríflega helming þannig að þær verði einungis 340 þús. kr. á því ári. Nú geri ég hlé á máli mínu þangað til hæstv. landbrh. birtist því að alvara málsins kemur í næstu setningu minni og höfð eftir formanni Stéttarsambands bænda.
    Hæstv. landbrh., á fundi efh.- og viðskn. komu þeir Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda og Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri. Aðspurðir um skerðingu lögboðinna framlaga ríkisins til Framleiðnisjóðs bænda, sem jafnframt eru --- eins og okkur er öllum kunnugt --- hluti af samningi ríkisvaldsins og bænda um skipan búvöruframleiðslunnar á grundvelli laganna frá 1985, gamla búvörusamningsins, getum við kallað það, upplýstu þeir --- og sérstaklega var það formaður Stéttarsambandsins sem tók það fram --- að þessi skerðing, ef hún næði fram að ganga, væri að sínu mati --- og ég reyndi að taka niður hans óbreytt orð --- fyrstu eiginlegu vanefndir ríkisins á samningum þess við bændur frá 1985, ef frá væru talin minni háttar framkvæmdaatriði sem leyst hefðu verið með samkomulagi fram að þessu.
    Þetta er því miður alvara málsins, hæstv. landbrh. Vegna þess að nýr langtímasamningur er í gildi milli ríkisvalds og bændasamtakanna. Miklu varðar að það traust sem þrátt fyrir allt hefur skapast milli þessara aðila á undanförnum árum rofni ekki. Menn hafa þurft að sæta ýmsu í þessum efnum undanfarin ár og mörg snúin viðfangsefni hafa komið upp í samskiptum þessara aðila en það hefur sem betur fer hingað til tekist að leysa þau þannig að formaður Stéttarsambandsins lýsir því yfir að hann telji þar ekki vera um eiginlegar vanefndir að ræða sem orð sé á gerandi. Það sé þá fyrst nú, ef þessi skerðing nái fram að ganga, sem um alvarlegar vanefndir og fyrstu eiginlegu vanefndirnar sé að ræða á samningnum frá 1985. Báðir viðmælendur nefndarinnar tóku svo fram að skerðing Framleiðnisjóðs kæmi á alversta tíma fyrir landbúnaðinn og sveitir landsins þegar menn eru að mæta áhrifum af nýjum samdrætti framleiðslunnar og reyna

að aðlaga framleiðsluhætti sína og búskap að nýjum aðstæðum. Þetta er því miður hin alvarlega staða þessa máls og ég fjölyrði ekki um það frekar enda er það stundum svo að færri orð eru áhrifaríkari en fleiri. Ég minni síðan aftur á það sem boðað er í fjárlagafrv. og lýtur að hinum nýja samningi.
    Nál. lýkur svo á því að fulltrúi Kvennalistans hefur óskað að taka fram ákveðin atriði varðandi lagasetningu af því tagi sem er á ferðinni og nefnast gjarnan bandormar. Af málvöndunarástæðum býð ég upp á nýyrðið safnfrumvörp ef mönnum þykir það brúklegt í framtíðinni. Það er öllu geðfelldara orð en bandormur af vissum ástæðum og mér finnst orðið safnfrumvarp ágætlega lýsandi fyrir það sem er á ferðinni, þ.e. að safnað er saman í eitt frv. efni óskyldra lagaákvæða. Gott er fyrir valdamann í þinginu eins og hv. formann þingflokks Alþfl. að heyra þessa uppástungu mína. ( Gripið fram í: Ég styð þig, ég styð þig.) Það er mér ljóst.
    Að lokum vill svo minni hluti efh.- og viðskn. undirstrika og ítreka, því miður að gefnu tilefni, ítreka mótmæli sín gegn þeim vinnubrögðum sem ríkisstjórnin hefur beitt í þessu máli. Við hljótum að lýsa miklum áhyggjum yfir þeim ólýðræðislegu starfs- og samskiptaháttum sem nýir stjórnarherrar hafa innleitt gagnvart Alþingi og þjóð. Það er þannig, hv. þm. og hæstv. ráðherrar, að það er ekki hægt að horfa fram hjá því að andrúmsloftið hefur stórversnað í samskiptum ríkisvalds og fjölmargra aðila innan þings og utan. Auðvitað eru tíðindi að til viðræðna við eina þingnefnd skuli koma fjölmargir mismunandi aðilar og nánast hver einn og einasti hafi sömu sögu að segja. Byrji ræður sínar á hörðum mótmælum gegn þeim vinnubrögðum sem þeir hafa mátt sæta af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er ósköp einfaldlega svona, hv. formaður þingflokks Alþfl., ég veit að þingmanninum er þetta ljóst. Ef hann trúir mér ekki þá ætti hann að taka nóttina í að blaða í gegnum fskj. með þessu nál. og mundi hann þá ekki gera af sér annað óþarfara á meðan. Þetta er gegnumpakkað af bréfum, greinargerðum, álitsgerðum frá sveitarfélögunum, samtökum þeirra, frá Hafnasambandinu, frá Alþýðusambandinu, frá Vinnuveitendasambandinu, frá Verslunarráðinu, frá Sjómannasambandinu, frá LÍÚ und so weiter, eins og sagt er á þýðverskri tungu. Og allir þessir aðilar eru því miður að mótmæla vinnubrögðum og framkomu ríkisstjórnarinnar við sig. Þetta er auðvitað leiðinlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
    Ég vil svo að lokum taka undir það að hér er á ferðinni í formi lagasetningar umtalsverður sóðaskapur og eru menn þó ýmsu vanir hér í svona safnfrumvörpum eða bandormum. En hér er því við að bæta að til viðbótar fjármálalegum atriðum er blandað inn í faglegum hlutum sem ekki varða útgjöld ríkisins og koma þeim jafnvel ekki við. Það finnst mér vera viðbótarsóðaskapur í lagasetningu af þessu tagi og gerir málið hvorki betra né áferðarfallegra fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. siðapostulann, forsrh., sem hefur talið sig þess umkominn að vanda um við aðra menn í þessum efnum.
    Herra forseti, ég lýk nú framsöguræðu minn enda nokkuð þreyttur orðinn og feginn því að geta látið þennan ágæta ræðustól öðrum eftir. En ég hef gert ósköp einfaldlega mitt besta í því að fara ítarlega yfir efni þessa frv. og gera nokkuð rækilega grein fyrir þessu nál. sem mér var falið af minni hlutanum að tala fyrir og rökstyðja okkar afstöðu eins málefnalega og vel og mér er á þessum stutta tíma mögulegt. Ég vona einnig að mér hafi tekist að upplýsa ýmis atriði fyrir hv. alþm. með ræðu minni og út af fyrir sig einnig með því nál. sem við í minni hlutanum höfum tekið saman og er auðvitað til muna fyllra og geymir meiri gögn um þetta mál en það sem barst frá meiri hlutanum. Það er til gamans allt í lagi að upplýsa það að vinna við þetta nál. hófst rétt um kl. hálfsjö í morgun og hefur nú meira og minna staðið yfir sleitulaust síðan. Ég tel að þetta sé eftir atvikum þokkalegur afrakstur á þeim tíma og vona að hv. alþm. minnist þess þegar rætt er um vinnubrögð og afköst manna hér að menn reyna að leggja nótt við dag og skila góðu verki eftir því sem kostur er við erfiðar aðstæður, eins og stundum er sagt.