Fjáraukalög 1990

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:53:00 (2323)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. mega sjá skrifuðum við hv. 3. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, og ég undir þetta nál. með fyrirvara. Ástæðan er einmitt það atriði sem hv. frsm. gerði að umtali hér að ríkisábyrgð vegna niðurlagningar Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins er sett inn í frv. Nú væri það í sjálfu sér ekkert óeðlilegt ef þeirri reglu væri almennt fylgt. En ég gerði það t.d. að umræðu í hv. fjárln. að fyrir liggur að ríkissjóður verður að taka ábyrgð á kaupum Njarðvíkurhrepps á jörðinni Flekkuvík, sem kostaði 108 millj. kr. Kaupsamningur gerði ráð fyrir því að ríkið yfirtæki þetta kaupverð ef ekki yrði af byggingu álvers. Nú er ljóst að svo verður ekki og þar með hefur ríkið tekið þetta að sér. Ég spurði hv. form. fjárln. hvar þetta væri sýnilegt í fjárlögum. Þar er það auðvitað ekki vegna þess að um þetta er engin heildarregla. Það fé mun verða tekið af einhverjum heildarsjóði til að mæta slíkum áföllum sem er ótilgreindur í iðnrn.
    Þetta finnst okkur óeðlilegt, æskilegt væri að allar slíkar greiðslur væru sýnilegar í ríkisreikningi og í fjárlögum og heimild væri fyrir því öllu. En okkur fannst óeðlilegt að þarna væri ekki sami hátturinn hafður á svo að við skrifuðum undir nál. með fyrirvara.