Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:00:00 (2430)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég er sannfærður um að þegar sú breyting mun eiga sér stað á fyrirliggjandi frv., þegar brtt. verður borin undir atkvæði og þá samþykkt, mun öllum verða ljóst að þetta atriði verður ekki virkt í lögum fyrr en eftir tekjuárið 1993. Og ég er sannfærður um það ef við látum það heyrast hér frá Alþingi --- og það auðvitað hljótum við að gera --- þá mun þetta atriði ekki hafa áhrif á verðbréfamarkaðinn eins og hv. síðasti ræðumaður hélt fram.
    Ég vil hins vegar bæta því við að allt það sem við erum að reyna að gera varðandi fjárlagagerðina gengur út á það eitt fyrst og fremst að ná niður hallanum, ná tökum á fjárlögunum með þeim hætti sem hér hefur verið rakið. Það var hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni að við höfum náð inn miklum tekjum, við höfum lækkað gjöldin. Allt er þetta gert í því eina skyni að koma í veg fyrir það að ríkisvaldið seilist í of mikla fjármuni og auki þannig eftirspurnina eftir fjármagni sem leiðir til hækkunar vaxta. Og til hvers er þetta gert? Þetta er til þess gert að fólk og fyrirtæki sem þarf á lánum að halda, ekki síst fyrirtækin, til að byggja upp nýja atvinnustarfsemi í landinu fái til þess meira svigrúm, meira olnbogarými í framtíðinni heldur en hingað til hefur verið. Og það er einmitt á þessum nótum sem ég vonast til að það myndist breið samstaða hér í þinginu á milli stjórnarflokkanna og milli stjórnarandstöðuflokkanna að finna leiðir til þess að sem mest jafnvægi verði milli gjalda og tekna ríkisins þannig að okkur auðnist að draga úr lánsfjáreftirspurninni og draga þannig úr vaxtakostnaði.