Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 03:28:00 (2488)

     Egill Jónsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Till. mín á þskj. 314 var flutt til að freista þess að ná fram leiðréttingu á þeirri ákvörðun fjárln. Alþingis að virða að vettugi tillögur þingmanna Austurlandskjördæmis um fjárveitingu til hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði.
    Áhugamenn á þingi og í héraði um þessa framkvæmd hafa miðað við að á árinu 1993 yrði hjúkrunarheimilið gert fokhelt og tveim árum síðar, árið 1995, fullbúið til notkunar.

    Tillaga þingmanna Austurlands til fjárln. var miðuð við að á næsta ári yrði byggður grunnur að þessari framkvæmd svo að áherslum Austur-Skaftfellinga um hjúkrunarheimilið yrði mætt með trúverðugum hætti.
    Jólaleyfi þingmanna er nú senn að hefjast. Þá mun ég eins og aðrir hv. þm. halda til minna heima. Það verður mér ljúf skylda að koma því á framfæri þar eystra hversu ég hef orðið var mikils stuðnings á Alþingi við hjúkrunarheimilið á Höfn og mun ég gæta þess að þar fái þingmenn og stjórnmálaflokkar að njóta sannmælis. Annað væri ekki forsvaranlegt af minni hálfu.
    Upp á síðkastið hefur hæstv. forsrh. átt samtöl við mig um með hvaða hætti væri unnt að ná fram sátt um afgreiðslu þessa máls. Niðurstöður þessara viðræðna eru staðfestar í svohljóðandi bréfi, dags. 21. des. 1991 --- og hér er fyrir hendi dagsetning.
    ,,Hr. alþingismaður, Egill Jónsson.
    Í framhaldi af samtölum okkar og með vísan til viðræðna minna við heilbrrh. og formann og varaformann fjárln. vil ég lýsa því yfir að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að við afgreiðslu fjárlaga vegna ársins 1993 muni myndarlegri fjárhæð verða varið til framkvæmda við Hjúkrunarheimilið á Höfn í Hornafirði.``
    Þar sem þetta bréf staðfestir að á fjárlögum fyrir árið 1993 verður fjárveiting í samræmi við þau áform sem að framan er getið hef ég ákveðið að kalla tillögu mína á þskj. 314 til baka.